132. löggjafarþing — 50. fundur,  24. jan. 2006.

Matvælarannsóknir hf.

387. mál
[14:19]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F) (andsvar):

Herra forseti. Það var farið mjög ítarlega yfir þessi mál. Hér er um að ræða tillögur sem koma frá nefnd sem fjallaði um þessi mál. Ég held að aldrei hafi komið til greina að leggja matvælarannsóknirnar undir háskólana beint. Hins vegar er gert ráð fyrir því að mjög náið samstarf myndist á milli þessa félags og háskólanna. Nákvæm grein er gerð fyrir því í frumvarpinu. Það er mjög gott samstarf við háskólana og með þessum hætti er að mínu mati hægt að auka það enn frekar. Líka er rétt að geta þess að einkaaðilar hafa yfirtekið ákveðnar rannsóknir í landinu, t.d. er sérstakt fyrirtæki á Akureyri sem hefur yfirtekið slíka starfsemi og jafnframt á Ísafirði þannig að það er komin nokkur reynsla af því að slíkt samstarf geti verið mjög gott.