132. löggjafarþing — 50. fundur,  24. jan. 2006.

Matvælarannsóknir hf.

387. mál
[14:25]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. forsætisráðherra botnar ekkert í þeim fullyrðingum mínum eða því sem ég benti honum á að það hefði ekki gefist vel að slá saman ríkisstofnunum. Þetta er þó ekki frá mér komið, herra forseti, þetta er í skýrslu Ríkisendurskoðunar sem segir að vegna þess að ekki var nægilega góður undirbúningur að því að slá saman sjúkrahúsum á höfuðborgarsvæðinu hafi það orðið til þess að sameiningin tókst ekki eins og lagt var upp með. Hún átti að skila fleiri aðgerðum og lægri kostnaði. Þetta er ekki eitthvað sem ég finn upp. Þetta er í skýrslu Ríkisendurskoðunar og þess vegna bið ég hæstv. forsætisráðherra að skoða þetta fyrst það hefur farið fram hjá honum.

Ég ætlaði að beina annarri spurningu til forsætisráðherra en hún varðar það hvort ekki sé rétt að fara yfir hlutafélög í eigu ríkisins. Þetta fyrirtæki á að fara í samkeppni. Nú er mjög mikil leynd yfir því sem fram fer í hlutafélögum í eigu ríkisins þannig að þeir sem eiga í samkeppni, herra forseti, við þetta nýja fyrirtæki standa jafnvel verr að vígi en áður.