132. löggjafarþing — 50. fundur,  24. jan. 2006.

Matvælarannsóknir hf.

387. mál
[15:32]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Hér er búið að leggja fram frumvarp til laga um stofnun á Matvælarannsóknum hf. Ríkisstjórnin, ef þetta verður að lögum, á að fá heimild til að stofna hlutafélag sem kallast Matvælarannsóknir hf. um rekstur á Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, Matvælarannsóknum Keldnaholti og rannsóknastofu Umhverfisstofnunar, steypa þessum þremur öflugu rannsóknastofnunum í eina og reka það undir hlutafélagaforminu.

Maður veltir reyndar fyrir sér þeirri staðreynd að mikil ásókn virðist í það af hálfu hæstv. ráðherra og ríkisstjórnarinnar að stofna hlutafélög um alla skapaða hluti í dag. Ég vil þó taka fram að fyrir fram er ég ekki tilbúinn til að lýsa því yfir að ég sé á móti því að sá rekstur sem þarna um ræðir fari í hlutafélagaformið, en miðað við að um er að ræða stofnun á hlutafélagi þar sem hluthafinn er einn og þar sem hluturinn er einn veltir maður fyrir sér hvað það er sem flutningsmenn frumvarpsins ætla sér að ná til viðbótar við það sem hægt er að ná með því að reka ríkisstofnun. Maður veltir því líka fyrir sér hvort ekki sé skynsamlegt þegar verið er að steypa saman þó þetta ólíkum rekstri, eins og er á þessum þremur stöðum, að gera það í upphafi undir forminu opinber stofnun og leyfa þeirri starfsemi þá að þróast og festa sig í sessi og skoða síðan í framhaldinu hvort rétt væri að breyta rekstrarforminu á starfseminni.

Búið er að leggja fram tvö frumvörp á þinginu um breytingu á hlutafélagalögum og verið að velta fyrir sér opinberum hlutafélögum. Annars vegar er frumvarp sem hæstv. viðskiptaráðherra flytur, sem ég reyndar er ekki mjög hrifinn af vegna þess að mér finnst það frumvarp ganga allt of skammt varðandi skyldur opinberra hlutafélaga til upplýsingagjafar o.s.frv. Hins vegar er frumvarp sem hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er 1. flutningsmaður að, sem mér þykir þó taka mun betur á þeim atriðum sem menn velta fyrir sér þegar verið er að ræða um hugtakið og rekstrarformið opinbert hlutafélag.

2. gr. í frumvarpinu sem hér liggur fyrir fer yfir tilgang félagsins sem er „að sinna rannsóknum og nýsköpun á sviði matvæla í þágu atvinnulífsins, lýðheilsu og matvælaöryggis og fjármálalegri umsýslu á grundvelli laga og reglugerða sem um þetta gilda, svo og að reka aðra skylda starfsemi.“

Í 2. gr. kemur einnig fram að tilgangi og verkefnum félagsins skuli nánar lýst í samþykktum þess. Með öðrum orðum er leyfilegt í samþykktum hlutafélaga að kveða á um sératriði er varða rekstur þess hlutafélags sem um ræðir. Mér finnst að 2. gr. þýði í raun að hægt sé að setja nánast hvað sem er inn í samþykktir þessa hlutafélags vegna þess að samþykktir eins hlutafélags geta verið afskaplega ólíkar samþykktum annars og ekki gott að gera sér grein fyrir hvernig það muni líta út.

Í 2. gr. er jafnframt talað um að félaginu sé heimilt að stofna nýtt félag eða félög sem verði í eigu þess til að annast ákveðna þætti starfseminnar. Það má sem sagt skipta þessari rannsóknastarfsemi eða hinu nýja fyrirtæki sem heitir Matvælarannsóknir hf. upp í fleiri smærri fyrirtæki og Matvælarannsóknir hf. geti þá rekið þau fyrirtæki eitt og sér eða með öðrum. Það er því ekki gott að segja þegar farið er yfir texta þessara frumvarpsgreina hvað það er sem menn ætla sér að gera.

Einnig á að vera heimilt að standa að stofnun og gerast eignaraðili að öðrum félögum og fyrirtækjum, þ.e. Matvælarannsóknir hf. sem er eingöngu í eigu ríkisins getur farið í það að yfirtaka önnur fyrirtæki á markaðnum ef því er að skipta og þá í krafti þess afls sem ríkiseignin gefur. Enn fremur segir í 2. gr. að félaginu sé heimilt að gera samninga við aðra aðila til að ná tilgangi sínum á sem hagkvæmastan hátt skv. 1. mgr. Félagið má þá fara í útleigusamninga eða verktakasamninga við aðra og úthýsa í sjálfu sér hluta af starfseminni til annarra aðila.

Þjónustumælingar eins og þær voru stundaðar t.d. á Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, sem ég þekki nokkuð vel til, hafa farið að mestu út úr þeirri stofnun og það hefur verið álit manna að ekki sé rétt að reka í ríkisreknum stofnunum beinar þjónustumælingar þar sem verið er að þjónusta atvinnuveginn og verið er að vinna í samkeppni við einkafyrirtæki.

Eitt af því sem fram kemur í athugasemdum við frumvarpið er að nauðsynlegt sé að breyta þessu nýja fyrirtæki í hlutafélag til að það geti þróast og breyst og náð góðum árangri. Ég verð að segja að við sem til þekkjum á Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins höfum nú séð hvernig það fyrirtæki hefur náð að þróast og hvernig það hefur breyst mjög mikið á undanförnum árum úr því að vera það sem við kölluðum kannski ríkisapparat í það að vera framsækin rannsóknastofnun sem sinnir hlutverki sínu og sínum hluta atvinnulífsins mjög vel. Ég get ekki séð að það hafi í sjálfu sér staðið Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins neitt fyrir þrifum í rekstri sínum að vera ekki hlutafélag.

Það hefur einnig verið nefnt að auðveldara sé fyrir hlutafélag en fyrir ríkisstofnun að ná í styrki í samvinnu við aðra og það sé öðruvísi en þegar um opinbera stofnun sé að ræða. En ef maður horfir á reynsluna og veltir fyrir sér hvernig þetta hefur verið að koma út og horft er t.d. á styrkúthlutanir úr AVS-sjóðnum, þ.e. sjóðnum um aukið verðmæti sjávarfangs, sé ég ekki betur í ársskýrslu síðasta árs en að Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins hafi í raun ein og sér eða í samvinnu við aðra náð í um 70% af upphæð þeirra styrkja sem runnu úr AVS-sjóðnum, sem þýðir að þó að þetta sé opinber stofnun í samkeppni við aðra aðila og vísindamenn á þessum sviðum virðist það ekki a.m.k. hvað AVS-sjóðinn varðar hafa verið fótakefli fyrir þá stofnun.

Allar þær stofnanir sem við erum að tala um hér eru reknar að hluta til fyrir framlög frá ríkinu. Ef maður skoðar umfang þeirra stofnana kemur ríkið ansi sterkt inn í rekstur þeirra allra. Ríkisframlagið hjá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins var á síðasta ári 197 milljónir, það voru 16 milljónir hjá Matra og ekkert ríkisframlag reyndar fyrir Rust en samtals eru þetta 213 millj. kr. Sértekjur voru aftur á móti allnokkrar, 253 milljónir hjá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, 35 hjá Matra og 68 hjá Rust, samtals 356 millj. kr. Það er því innan við helmingur sem kemur beint frá ríkinu en þó eru það verulegir fjármunir eða 213 millj. kr.

Eins og ég sagði í upphafi máls míns get ég alveg tekið undir að það geti verið gott að sameina þessar stofnanir undir einn og sama hattinn, að samræma krafta þeirra vísindamanna sem þarna eru og byggja upp öflugt og faglegt umhverfi, öflugra og faglegra umhverfi en kannski er hægt að gera á smærri stofnunum, en hef þó af því ákveðnar áhyggjur að hér sé farið af stað með ansi stóra stofnun á tiltölulega þröngum markaði og hún komi jafnvel til með að kæfa aðra sprota sem á markaðnum eru eða muni hafa yfirburðastöðu til að bjóða í þau verkefni sem ríkið kemur til með að bjóða út. Það segir nefnilega í athugasemdunum, sem eru yfirgripsmiklar og vandaðar, að ríkið muni þurfa, eftir að búið sé að stofna Matvælarannsóknir hf., að bjóða meira og minna út allt þetta sem áður hefur verið gert í viðkomandi ríkisstofnunum og í raun er engin trygging fyrir því að þessi nýja stofnun nái að bjóða í þau verkefni með þeim hætti að hún fái þau en þó verður maður að álíta að þegar búið er að steypa henni saman og búið að færa inn sem stofnframlag hlutafé í stofnunina, 350–400 milljónir, eins og ráð er fyrir gert í frumvarpinu verði þetta stofnun sem verði ansi fyrirferðarmikil á þessum markaði og ekki auðvelt fyrir aðra sem eru þar að vinna með eigið fé á eigin forsendum að keppa við þessa ríkisstofnun þegar hún kemur inn.

Það er nú ekki svo að umræddar rannsóknastofnanir hafi verið reknar með miklum hagnaði eða að mikið hafi orðið eftir úr rekstri þeirra þrátt fyrir umtalsverða fjármuni frá ríkinu. Ef við skoðum umsögnina frá fjármálaráðuneytinu um það frumvarp sem hér liggur fyrir kemur fram að rannsóknastofa Umhverfisstofnunar er sjálfstæð fjárhagsdeild innan Umhverfisstofnunar, bókfært eigið fé hennar var neikvætt um 0,6 millj. kr. í árslok 2004. Matvælarannsóknir Keldnaholti eru reknar innan Iðntæknistofnunar Íslands samkvæmt samningi við Landbúnaðarháskólann og eru ekki með sjálfstæðan ársreikning þannig að ekki er reynt að leggja mat á og ekki hægt að sjá hver fjárhagsleg staða Matvælarannsókna Keldnaholti er. En þegar Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins er skoðuð með sama hætti, vegna þess að það er sjálfstæð ríkisstofnun með sjálfstæðan fjárhag, kemur í ljós að bókfært eigið fé Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins er 20,2 milljónir. Með öðrum orðum, við getum áætlað að bókfært eigið fé þessara þriggja rannsóknastofnana sé um og innan við 20 millj. kr., eignir að sjálfsögðu eru talsverðar og hljóta að vera talsverðar þó að ráð sé fyrir því gert í frumvarpinu að skipuð verði sérstök matsnefnd til að vega saman eignir og skuldir þessara stofnana, en bókfært eigið fé er væntanlega innan við 20 millj. kr.

Þegar maður reynir að komast að því með því að lesa sig í gegnum þetta af hverju verið er að tala um að leggja til 350–400 millj. kr. sem stofnhlutafé í þetta nýja fyrirtæki, hvaða útreikningar liggi þar að baki, kemur í raun og veru í ljós að það eru ekki neinir raunverulegir útreikningar sem hægt er að setja fingurinn á heldur telja menn að þetta þurfi til að þetta verði skikkanlega öflug stofnun og kannski virðist manni meira að þumalputtinn sé settur upp í loftið en að fram hafi farið raunverulegt mat á því hvað stofnunin þurfi til að komast af stað sem hlutafélag.

Hlutaféð skal í upphafi allt vera í eigu ríkisins og gengið út frá því að í fjárlögum verði gert ráð fyrir þessum 350–400 millj. kr. Það hlýtur þá að birtast í fjáraukalögum eftir að búið er að samþykkja þetta lagafrumvarp. Ef ég man rétt er ekki heimild fyrir þessum 350–400 millj. kr. í fjárlögum þessa árs.

Frumvarpið var náttúrlega lagt fram í fyrra þannig að dagsetningar í því eru úreltar. Gert er ráð fyrir að lögin öðlist gildi 1. janúar á þessu ári, sem er nú löngu liðinn. Það er gert ráð fyrir að stofnfundur hins nýja hlutafélags verði 1. febrúar á þessu ári, eða í næstu viku, og að fyrirtækið hefji starfsemi 1. ágúst. Þessar dagsetningar hljóta meira og minna allar að vera komnar á flot. Ekki er gert ráð fyrir því, held ég, að menn nái að standa við þær vegna þess að málið hefur tafist talsvert í meðförum.

Ef maður rúllar í gegnum greinargerðina með frumvarpinu — og eins og ég sagði áðan er hún ansi yfirgripsmikil, ítarleg og vönduð — sést að það er búið að skoða þetta mál nokkuð lengi. Þann 22. mars árið 2004 var skipaður starfshópur til að skoða þetta mál og hann skilaði tillögum 24. maí 2004. Þær virðast hafa legið nokkuð lengi án þess að meira hafi verið með þær gert. Þann 6. júní árið 2005 var skipaður sá starfshópur sem skilaði af sér því frumvarpi sem við erum að lesa hér og fara yfir. Þegar maður skoðar nálgunina hjá báðum nefndunum sem farið hafa yfir þetta sýnist mér að þær leggi talsvert upp úr því að atvinnulífið komi að þessari vinnu, að atvinnulífið komi að því að semja þetta frumvarp og síðan að rekstri þessa hlutafélags eftir að það er komið á koppinn. En mér sýnist að milli ársins 2004 og 2005 hafi kannski gleymst að kalla atvinnulífið að málinu. Sú nefnd sem hefur samið þetta frumvarp og þá greinargerð sem fylgir er, sýnist mér, eingöngu skipuð ráðuneytisstjórum og skrifstofustjórum úr ráðuneytunum sem um ræðir.

Í athugasemdum við lagafrumvarpið segir:

„Gert er ráð fyrir virkri aðkomu viðkomandi ráðuneyta og aðila atvinnulífs á sviði matvælaframleiðslu í stjórn hennar. Stofnunin taki mið af stefnu stjórnvalda í málefnum matvælarannsókna og verði starfrækt á ábyrgð ríkisins og samtaka atvinnulífsins á þessu sviði.“

Eftir að hafa lesið frumvarpið og síðan greinargerðina sé ég ekki í fljótu bragði að gert sé ráð fyrir mikilli aðkomu atvinnulífsins. Gert er ráð fyrir einum fulltrúa í sjö manna stjórn sem komi frá Samtökum atvinnulífsins, en mér sýnist það vera nánast eina aðkoman sem slík. Þess vegna veltir maður því fyrir sér af hverju atvinnulífið hafi verið skilið eftir við samningu frumvarpsins og ákveðið að fara eingöngu í það á vettvangi ráðuneytanna — eins og ég sagði áðan var mjög rík áhersla lögð á það í greinargerðinni að atvinnulífið kæmi að undirbúningi og yrði síðan aðili að hinu nýja fyrirtæki þegar fram liðu stundir.

Þegar verið er að tala um að breyta opinberum stofnunum í hlutafélög má jafnan finna texta þar sem gert er ráð fyrir að rýra rétt þeirra sem halda áfram að starfa hjá hinu nýja hlutafélagi miðað við þann rétt sem þeir höfðu hjá opinberu stofnuninni áður en breytingin verður. Hv. þm. Ögmundur Jónasson fór ágætlega yfir það hér áðan. Þegar við horfum til þess að hlutafélagið er í upphafi með einn hlut, einn aðila sem ræður — í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir að hæstv. sjávarútvegsráðherra fari með eignarhlut ríkisins — þá hefði maður nú haldið, eins og ég sagði hér í upphafi, að ekki væri í sjálfu sér erfitt að reka slíka stofnun og þróa hana, hvort sem um hlutafélag eða opinbera stofnun er að ræða.

Við skoðun í allsherjarnefnd hlýtur að þurfa að tryggja að eftir að frumvarpið verður að lögum, hvort sem það verður breytt eða í núverandi mynd, verði þjónusta umræddra rannsóknastofnana við atvinnuvegina ekki lakari en verið hefur. Heildarmyndin á þessu sviði þarf að verða öflugri, bæði í vísinda- og rannsóknastarfsemi og ekki síður í þjónustu við atvinnugreinina og aðra sem á þurfa að halda. Það er til lítils að fara af stað ef sú verður ekki niðurstaðan þegar upp er staðið. Það er gert ráð fyrir því í greinargerð að fleiri stofnanir á vegum ríkisins geti síðan sameinast hinu nýja fyrirtæki þegar fram líða stundir. Ég held að það sé rétt að byrja frekar rólega og reyna að finna þessari nýju sameiginlegu stofnun farveg og finna henni stað á því sviði sem hún á að vinna á, hvort sem hún endar sem hlutafélag eða ekki. Því hún verður að ná að fóta sig — það er nógu erfitt að steypa saman þremur stofnunum þó ekki sé verið að breyta forminu á rekstrinum um leið — og hún verður að fá að fóta sig í friði áður en farið verður í að bæta við hana eða selja úr henni.