132. löggjafarþing — 50. fundur,  24. jan. 2006.

Matvælarannsóknir hf.

387. mál
[16:03]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Við fjöllum hér um frumvarp til laga um stofnun Matvælarannsókna hf. Þetta er eitt af þeim málum sem hæstv. ríkisstjórn leggur fram þar sem verið er að hlutafélagavæða stofnanir ríkisins og hafa flestar athugasemdir sem komið hafa fram nú við 1. umr. að mestu leyti lotið að þessari formbreytingu.

Ég tel að allir sem hér hafa lagt orð í belg hafi fagnað því, og ég geri það sérstaklega, að efla eigi matvælarannsóknir á Íslandi, það er mjög mikil og brýn þörf á að gera það. Það hefur legið fyrir um nokkurra ára skeið og sérstaklega síðustu árin þegar upp hafa komið alvarlegar sýkingar þegar í raun og veru er verið að bíða eftir að því hingað berist svokölluð fuglaflensa, að við þurfum ekki bara að efla rannsóknir vegna íslenskrar matvælaframleiðslu heldur ekki síður vegna matvælaöryggis, vegna sýkla eða veira eða efnasambanda sem berast erlendis frá með og í matvælum. En ég set spurningarmerki við þá leið sem hér hefur verið valin og ég tel að hvernig sem mál þetta fari verði að gefa því góðan tíma á hinu háa Alþingi og í meðferð nefnda, ekki eingöngu allsherjarnefndar að mínu mati heldur verði að vísa frumvarpinu til umfjöllunar bæði í umhverfisnefnd og landbúnaðarnefnd og sjávarútvegsnefnd og fá þannig viðhorf þessara nefnda til þeirra breytinga sem hér eru lagðar til. Ég tel það mjög mikilvægt. Einnig þarf að gefa sér tíma til að hlusta á þá sem nú þegar vinna á þessu sviði og fá fram viðhorf þeirra.

Það að hlutafélagavæða stofnun fyrir matvælarannsóknir samkvæmt frumvarpinu er talið heppilegt því að þá sé stofnunin sveigjanlegri og geti tekið fleiri aðila til samstarfs inn í þetta félag. Hugmyndafræðin er góð þegar verið er að tengja slíka starfsemi við atvinnulífið og þá sem hafa hagsmuna að gæta að styrkja eina miðstöð matvælarannsókna. Hugmyndafræðin hefur tvær hliðar því ég tel að sú hugsun sé einnig varasöm að því leyti til að aðilar sem eiga einmitt hagsmuna að gæta geta veikt stofnunina faglega, þ.e. dregið úr sjálfstæði hennar og faglegum vinnubrögðum með því að hafa óbein áhrif á val rannsókna, og gert niðurstöður ótrúverðugri ef eignaraðilar eru einnig þeir sem eiga hagsmuna að gæta. Ég tel að skoða þurfi líka mjög vel tenginguna út í atvinnulífið og hvaða áhrif hún hefur á sjálfstæði stofnunarinnar sem óháðrar og sjálfstæðrar rannsóknastofnunar sem á að vera yfir allan vafa hafin hvað niðurstöður rannsókna og val á rannsóknum varðar.

Með því að hlutafélagavæða stofnunina segir það sig sjálft að þá er líka hægt að selja hana eða selja úr henni hluta starfseminnar, hugsanlega þá þann hluta sem er mest markaðsvænn, þann hluta rekstursins sem gefur mestan arð og ekki er ólíklegt að eftirspurn verði eftir þeim hluta rekstursins. Ef stofnunin er komið á markað má búast við að hún verði þá að hluta til að verja sig líka ef hún á að vera til framtíðar eins og er sett fram í frumvarpinu, þannig á sala á stofnuninni eða hluta hennar liggur alveg fyrir.

Síðan er það alveg ljóst að með því að gera matvælarannsóknastofnun að hlutafélagi þá er það eðli slíks félags að krefjast arðs og þá spyr maður sig: Hvar á að ná þeim arði? Hvernig kemur sú krafa fram? Snýr hún t.d. að sveitarfélögunum varðandi rannsóknir á sýnum m.a. frá heilbrigðiseftirlitinu? Hvernig verður sá kostnaður, munu þau útgjöld þyngjast sem sveitarfélögin hafa af þeim rannsóknum sem þau eru skyldug til að láta fara fram? Ég held að við yfirferð í nefndum eigi menn líka að skoða alveg blákalt hver kostnaðaraukinn verður fyrir þessa aðila og ekki síst sveitarfélögin sem verða að nýta þessa þjónustu því að í frumvarpinu kemur fram að þessi stofnun muni verða svo sterk að hún geti boðið í þá þætti sem boðnir verða út, en nú á að bjóða út alla rannsóknarþætti. Þessi stofnun verður svo sterk að hún getur boðið í þjónustu en ekki er þar með sagt að sú samkeppni sem hér er á markaði skili þeim sem nota þjónustuna hagræðingu eða sparnaði.

Meginröksemd í frumvarpinu er að hlutafélagavæðingin geri stofnunina sveigjanlegri en ef hún væri opinbert fyrirtæki. Vissulega gerir hún það en þá er spurningin hvort það sé allt í plús eða hvort einhverjir mínusar séu við það. Ís máli hv. þm. Ögmundar Jónassonar hefur komið fram að mínusarnir eru til staðar og þeir snúa m.a. að starfsmönnunum sem hafa ekki eftir þessa formbreytingu sömu réttindi og þeir hafa í dag. Hvað varðar þann sveigjanleika sem verið er að tala um, að geta tengst öðrum fyrirtækjum eða styrkt þær stofnanir sem standa eiga að Matvælarannsóknum hf., þá tel ég að þeim markmiðum væri einnig hægt að ná með því að gera samstarfssamninga við fleiri aðila án þess að þeir verði beinir hluthafar í félaginu. Ef vilji væri fyrir hendi væri hægt að ná og nálgast markmið frumvarpsins t.d. með því að koma upp öflugri matvælarannsóknastofnun sem hefði tengingar út í þjóðfélagið til fleiri stofnana m.a. með samstarfssamningum.

Ég tel að horfa verði á það og skoða mjög vel við yfirferð málsins hvort trúverðugleika stofnunarinnar verði á einhvern hátt stefnt í voða með aðild hagsmunaaðila og eins hvort þessi formbreyting muni ekki hafa sama í för með sér og formbreyting hjá Rafmagnseftirliti ríkisins yfir í einkarekstur hafði varðandi þjónustu. Það á við um fleiri svið þar sem þjónustan og eftirlitsþátturinn hefur stóraukist. Við eigum eftir að sjá hvernig fylgja á eftirlitshlutverkinu eftir en ég tel að það hefði þurft að fylgja frumvarpinu að hægt væri að sjá hvaða hugmyndir eru uppi um þessa formbreytingu alveg til enda.

Þær stofnanir sem standa munu að Matvælarannsóknum hf. eru flestar hverjar rótgrónar stofnanir. Litið hefur verið öfundaraugum til okkar hvað varðar samstarf Háskóla Íslands og Landbúnaðarstofnunar sem nú er eða landbúnaðarráðuneytisins varðandi rannsóknir á sjúkdómum bæði í dýrum og mönnum sem farið hafa fram á Keldum. Með þessu frumvarpi er væntanlega verið að slíta á það samstarf ef ég les það rétt og ég verð þá leiðrétt ef svo er ekki. Ég tel að efla beri þetta samstarf frekar en hitt, sérstaklega með tilliti til þess ástands sem nú ríkir þar sem yfirvofandi hætta er á heimsfaraldri, og því kalla ég eftir því að þessari öryggisrannsóknastofu verði komið upp, hvar svo sem hún verður, og í raun og veru megi ekki bíða eftir því að þessari stofnun, Matvælarannsóknum hf., verði komið á laggirnar því að við þurfum að hafa viðhlítandi öryggisrannsóknastofu tilbúna þegar í vor. Það er verkefni sem út af fyrir sig er óháð þessu frumvarpi.

Það eru nokkur atriði sem ég vildi koma hér að við fyrstu yfirsýn en ég fagna því að skilningur og áhugi er á því að efla matvælarannsóknir. Þær stofnanir sem við eigum yfir að ráða í dag eru margar hverjar veikburða og það er styrkur í því að sameina þær en það er ekki sama hvernig það er gert. Eins tel ég að fara verði mjög vandlega yfir það hvernig samskiptum háskólanna og verðandi matvælarannsóknastofnunar eigi að vera háttað, hvernig samskipti hlutafélagið eigi að hafa við háskólana. Einnig að farið verði vel yfir það hvar starfsemin fari alfarið fram, hvort ekki sé rétt við þessa formbreytingu að huga að því að efla starfsstöðvar úti um land undir þessari stofnun. Það er tilhneiging og allt að því lögmál að við formbreytingar sem gerðar hafa verið á rekstri stofnana hafa störfin sogast af landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðið. Þetta gerðist með stofnun umhverfisráðuneytisins, Umhverfisstofnun, og nefni ég þar m.a. hreindýrarannsóknirnar sem höfðu bækistöðvar og voru alfarið austur á Héraði en eru nú horfnar þaðan sem lítil stjórnsýslustöð. Reyna á að snúa þessari þróun við og efla starfsemi þar sem hún á við en gera það með opnum huga og hafa það sem hluta af þeim breytingum sem verið er að gera, hvort sem það heitir Landbúnaðarstofnun eða Matvælarannsóknir hf. eða hvaða stofnun það er sem verið er að efla og slá saman, að hafa það þá inni í skipulaginu að efla samhliða starfsemi úti um land.

Ég endurtek að ég tel að þetta frumvarp til laga um stofnun Matvælarannsókna hf. verði að fá umfjöllun fleiri nefnda en eingöngu allsherjarnefndar því að málið nær yfir svo breitt svið og þess vegna verði að gefa því góðan tíma í þinginu.