132. löggjafarþing — 50. fundur,  24. jan. 2006.

Matvælarannsóknir hf.

387. mál
[16:18]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla að bæta örfáum orðum við það sem ég hef áður sagt í dag. Ég sagði mikilvægt að við tækjum þessu frumvarpi og þeim hugmyndum sem í því eru með opnum huga. Ég setti fram ýmsar efasemdir í upphafi. En þetta með hinn opna huga á einnig við um frumvarpið, það er að mörgu leyti mjög opið. Þannig er í 2. gr. þess vísað í markmið og tilgang félagsins en jafnframt sagt að það verði í verkahring stjórnar stofnunarinnar að skilgreina hlutverk þess a.m.k. að hluta til. Hér segir, með leyfi forseta:

„Tilgangi og verkefnum félagsins skal nánar lýst í samþykktum þess.“

Stofnunin á síðan að sinna ýmsum lögbundnum verkefnum. Hér segir t.d. í greinargerð með frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Nauðsynlegt er talið að Matvælarannsóknir hf. beri skýra skyldu til að sinna rannsóknum fyrir ríkið á sviði matvælaöryggis.“

Í greinargerð með 7. gr. frumvarpsins er einnig kveðið á um lagaskyldur og öryggisskyldur. Þar segir, með leyfi forseta:

„Samkvæmt lögum nr. 93/1995, um matvæli, ber íslenska ríkinu að tryggja, svo sem kostur er, gæði, öryggi og hollustu matvæla og að merkingar og aðrar upplýsingar um þau séu réttar og fullnægjandi.“ — Síðan er haldið áfram rökstuðningi þar að lútandi.

Ég sagði áðan að mikilvægt væri að efla rannsóknastofnun á þessu sviði en jafnframt hafði ég efasemdir um að fyrirtæki ættu að fá eignarhald í slíkri stofnun. Ég tek undir það fram hefur komið, nú síðast hjá hv. þm. Þuríði Backman, að sú lína er vandrötuð. Það getur gerst að fyrirtæki sem sjálf hafa hagsmuna að gæta verði beinlínis hemill á frjálsar rannsóknir í viðkomandi stofnun. Við þekkjum deilur um erfðabreyttar lífverur o.s.frv., hatrammar deilur sem snerta hagsmuni fyrirtækja. Þetta er viðfangsefni sem þarf að skoða rækilega, hvort samstarf rannsóknastofnana sem eiga að sinna lögbundnu öryggishlutverki fyrir ríkið og samkvæmt lögum eiga erindi út á markað hvað eignarhaldið varðar. Öðru gegnir um samstarfsverkefni.

Reyndar er gengið ansi langt í þessu frumvarpi hvað það snertir því að gert er ráð fyrir að öll verkefni á vegum stofnunarinnar verði boðin út, eins og fram kom hjá hv. þm. Jóni Gunnarssyni og Þuríði Backman. Ég ítreka efasemdir mínar um að við stígum hér heillavænlegt spor þó að ég styðji að rannsóknir á þessu sviði verði efldar, þess vegna í einni stofnun.

Að lokum ítreka ég fyrirvara minn gagnvart réttarstöðu starfsmanna. Ég legg áherslu á að þau mál verði rækilega könnuð áður en frá málinu verður gengið. Ég tek undir lokaorð hv. þm. Þuríðar Backman, að þetta mál þarf að fá góða og yfirvegaða skoðun og umsagnir allra hlutaðeigandi aðila.