132. löggjafarþing — 50. fundur,  24. jan. 2006.

Stjórn fiskveiða.

353. mál
[16:38]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal reyna á þessum tveimur mínútum að svara þeim spurningum sem hv. þingmaður spurði mig.

Það er fyrst varðandi þessa dagsetningu. Hún er eingöngu miðuð við það þegar frumvarpið var lagt fram eða unnið til að skapa ekki óvissu eða kapphlaup. Við vildum einfaldlega setja ákveðið strik undir það. Eins og við þekkjum oft þegar verið er að gera slíkar breytingar þá fara menn að bregðast við í ljósi frumvarpanna. Við vildum einfaldlega reyna að stöðva það.

Í annan stað um skerðingu á pottunum. Það er alveg rétt að við erum hérna að miða við þá aflahlutdeild sem við getum sagt sem svo að hafi verið tekin upphaflega út úr heildaraflahlutdeildinni, heildaraflamarkinu á sínum tíma á kvótaárinu 1999/2000. Við erum núna að skila inn í þetta sams konar hlutdeild og við upphaflega tókum út. Það er út af fyrir sig hægt, eins og hv. þingmaður gerði hér áðan, að reyna að reikna þetta þannig að verið sé að taka verðmæti af þessum hluta flotans og færa eitthvert annað. Ég hygg nú að aðrir gætu reiknað annað út og ég bjóst frekar við því úr þessari áttinni satt að segja að það yrði reiknað á þann veginn því að sannleikurinn er sá að með þessari breytingu núna verður þessi 3.000 tonna pottur mun verðmætari í rauninni en áður vegna þess að markaðsvirði þessara fiskveiðiréttinda sem þessi tonn gáfu var helmingurinn á við markaðsvirðið í tonnum í aflahlutdeildarkerfinu sjálfu. Því má segja sem svo að fyrst þurfi menn að margfalda með tveimur og síðan að draga frá þá skerðingu sem hv. þingmaður var að tala um. Eftir sem áður held ég að það sé augljóst að verðmæti þeirrar hlutdeildar sem núna er verið að setja fram er meira en verðmæti þess kvóta sem var til staðar. Ég gæti alveg skilið frá sjónarhóli hv. þingmanns eða að minnsta kosti flokksbræðra hans í Samfylkingunni ef þeir hefðu gagnrýnt það að verið væri að færa þetta einhverjum að gjöf. En mér finnst að hitt sé miklu (Forseti hringir.) órökréttari gagnrýni.