132. löggjafarþing — 50. fundur,  24. jan. 2006.

Stjórn fiskveiða.

353. mál
[16:40]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir skýr svör. Svörin voru ekkert loðin eins og maður á stundum að venjast úr þessum ræðustóli. Varðandi 28. október þá er eðlilegt og sjálfsagt þegar frumvarpið kemur fram að reyna að koma í veg fyrir kapphlaup því eins og hæstv. ráðherra sagði sjálfur er hér um talsvert mikil verðmæti að ræða og ástæða til að koma í veg fyrir að einhvers konar gullæði eða kapphlaup um tilvonandi réttindi eða flutning réttinda brjótist út.

Svo er það hvort eðlilegt sé að hlutdeildin sem var á árinu 1998 gildi en ekki tonnafjöldinn sem búið er úthluta frá árinu 1999 í allan þennan tíma, í sjö ár. Það er kannski full ástæða til að spyrja hæstv. ráðherra hvort það hafi ekkert hvarflað að honum eins og oft áður að rétt væri að setja á þriggja ára veiðireynslu, skoða hvort hægt væri að deila þessum potti upp með þeirri reglu sem oft hefur gilt, þ.e. að horft sé til þriggja síðustu ára og hvernig menn hafa veitt á þeim árum og úthluta síðan rétti miðað við það.

Hæstv. ráðherra sýndi fram á að allir græddu á þessari breytingu, þ.e. þeir sem missa aflahlutdeildir vegna þess að þeir fá frelsi í staðinn til að véla með þær og selja á frjálsum markaði og svo hinir sem ekki höfðu þessa hlutdeild og fá þessi 624 tonn. Þeir græða vegna þess að þeir fá viðbótartonnafjölda. Ég held að hæstv. ráðherra hafi fundið hér leið sem ég hafði ekki séð áður til að allir gætu grætt. En það er nú einu sinni þannig þegar verðmæti eru flutt frá einum til annars að það verða ekki verðmæti fyrir einn nema að þau séu frá einhverjum tekin.