132. löggjafarþing — 50. fundur,  24. jan. 2006.

Stjórn fiskveiða.

353. mál
[16:42]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta eru bara mjög efnislegar umræður og lúta að því að reyna að finna skynsamlegar leið við að deila út þessum 3.000 tonnum og gera þær að aflahlutdeild. Ég hlusta alveg þegar menn koma með efnislegar ábendingar í þessu sambandi. Það er hins vegar alltaf þannig að það er alltaf dálítill vandi hvernig maður á að fara með það þegar verið er að breyta einhverjum fiskveiðirétti í aflahlutdeild. Það var niðurstaða mín að langskynsamlegast væri að gera það með þeim hætti að skila, ef þannig mætti að orði komast, sams konar aflahlutdeild inn í kerfið og við tókum út upphaflega.

Hv. þingmaður spurði síðan hvort hægt hefði verið að miða að einhverju leyti við veiðireynslu. Ég held að það sé á vissan hátt gert í þessu frumvarpi að því leytinu að þegar við tökum til við að reikna út hver réttur manna sé úr þessum 3.000 tonna potti sem nú er 2.000 og eitthvað tonn þá er það gert þannig að horft er yfir nýtinguna, hvernig menn hafa nýtt þessa reynslu allan tímann sem þessi pottur hefur verið í gildi. Það þýðir að ef menn hafa ekki verið að nýta þetta, ef þetta hafa ekki verið verðmæti hjá mönnum, þá fá þeir ekki verðmætin, þá fá þeir ekki úthlutun. Þeir sem hafa hins vegar nýtt þessi réttindi allan tímann að fullu fá úthlutunina að fullu eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Ég held því að verið sé að reyna að koma til móts við sjónarmið sem mér fannst vaka í máli hv. þingmanns. Auk þess er það gert þannig að ef menn kannski fyrir tilviljun eða vegna slyss eða aðstæðna sem þeir ekki gátu séð fyrir ekki geta nýtt þessa sérstöku úthlutun eitt ár þá hefur það ekki mikil áhrif. Það hefur bara hlutfallsleg áhrif. Maður sem t.d. hefur ekki getað nýtt sér það á þessu fiskveiðiári lendir ekki í að fá engan rétt heldur fær hann sinn rétt skertan sem nemur þessu eina ári. Ég tel að reynt hafi verið að gæta eins mikillar sanngirni í þessu máli og unnt er. Auðvitað hlusta ég á efnislegar ábendingar sem fram koma og ég tel rétt að sjávarútvegsnefnd fari yfir málið. En svona eru þær forsendur sem lágu fyrir af hálfu okkar sem sömdum frumvarpið.