132. löggjafarþing — 50. fundur,  24. jan. 2006.

Stjórn fiskveiða.

353. mál
[16:47]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Við ræðum um enn eina breytinguna á fiskveiðistjórnarlögunum, um eitt af eldri bráðabirgðaákvæðunum, bráðabirgðaákvæði nr. 3 af 39 ákvæðum, eða hvað? Ég man það ekki, bráðabirgðaákvæðin eru einhvers staðar á milli 30 og 40.

Þetta ákvæði var á sínum tíma sett inn til að hífa þá upp sem lakar voru settir. Þetta átti að hjálpa útgerðum vertíðarbáta af minni gerðinni, undir 200 brúttólestum og skipum sem höfðu minna aflamark en 450 þorskígildistonn, að mig minnir. Til þessa var ákveðið að nota 3.000 lestir. Ég veit ekki annað en að þeim hafi verið úthlutað allan tímann, þ.e. 3.000 lestum. Því kann að vera að einhverjum sem hefur haft slíkar heimildir í gegnum árin finnist skjóta skökku við að þeim reglum sé breytt.

Ég heyrði hvað hæstv. sjávarútvegsráðherra sagði áðan. Það má vissulega skoða slík rök en ég held að líta verði til þess að úthlutað hefur verið 3.000 tonnum árlega. Þó gat enginn fengið meira en 100% af því aflamarki sem fyrir var. Þannig gátu þeir sem áttu 10 tonn heimildir ekki fengið nema 10 tonna viðbót. Þeir sem voru með minna en fengu jafna tölu á móti því og sá sem enga aflahlutdeild átti fékk enga úthlutun. Það er vafalaust skýringin á því að sumir hafi ekki fengið þessa úthlutun, eins og hæstv. ráðherra gat um hér áðan.

Mér sýnist að reglan sem hér er lögð til verði til þess að þeir sem þennan rétt hafa haft í gegnum árin, þ.e. bátaflotinn af minni gerðinni, undir 200 brúttólestum, verði fyrir um 625 tonna skerðingu. Þetta þurfa menn að skoða sérstaklega í sjávarútvegsnefnd og fara yfir það.

Ég verð að segja, hæstv. forseti, að með þessu er leitast við að festa í sessi kvótakerfi undanfarinna ára og taka burt það sem gegna átti jöfnunarhlutverki í því, þ.e. viðbót til þeirra sem minnst hafa til að tryggja afkomu sína. Auðvitað skipti það gríðarlegu máli fyrir þau skip sem minnstar aflaheimildir höfðu, kannski 20 tonna aflareynslu, að fá 10 tonn í viðbót eða ekki. Allir geta séð að það hefur skipt sköpum í rekstrarumhverfi útgerðar sem hafði aðeins 20 tonn að fá 50% í viðbót með slíkri úthlutun.

Ég ráðlegg mönnum að skoða þetta vandlega. Úthlutunin hefur, eftir því sem ég best veit, byggst á 3.000 tonna potti á hverju ári, burt séð frá heildarafla ársins hverju sinni. Hins vegar var búið að festa í lögum ákvæði um það að ákvæðið félli niður í lok fiskveiðiársins 2005/2006 og að þetta yrði þá „varanlegt“ — eins og það er kallað innan gæsalappa. Hugsunin var sú að eftir árið 2006 yrði um varanlega úthlutun þorskveiðiheimilda til þeirra sem notið hefðu slíkra jöfnunarbóta.

Ég held að þetta atriði þurfi menn að skoða vandlega, hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið og tel að málið liggi ljóst fyrir. Reyndar eru 3.000 tonnin færð niður, miðað við mismuninn á milli aflaheimilda í þorski þegar þetta var tekið upp og heimildanna núna, þ.e. 198 þús. tonn. Sú skerðing er um 675 tonn eða svo.

Ég veit ekki hvort þessi breyting, í ljósi kvótakerfisins sem notast er við, skapar þeim sem verða fyrir skerðingu málsóknarrétt á hendur ráðuneytinu. Ég tel að menn þurfi að huga að því. Hvar eru fordæmin í núverandi framkvæmd fiskveiðistjórnarlaganna fyrir því að taka út ákvæðið sem hér er um að ræða. Ég man ekki eftir þeim. Þau kunna að vera til. Menn þurfa að vanda sig við þetta. Reyndar var gert ráð fyrir að gera þetta í lögunum frá 15. maí 2002. Með þessu er ekki gert annað en það sem menn voru búnir að lögfesta í kvótakerfinu.

Ég vil almennt segja, hæstv. forseti, um þessa umræðu að hún snýr að því að tryggja minni útgerðum, þeim sem hafa minni aflaheimildir, rekstrargrunn. Undanfarin ár hafa ekki verið auðveld útgerðum með aflaheimildir í lægri kantinum í ljósi þess að við höfum kvótasett allar fisktegundir, m.a. í smábátakerfinu, ýsu, ufsa og steinbít. Fyrir vikið er miklu erfiðara, jafnvel fyrir harðduglega menn, að komast inn í útgerðina og sjávarútveginn eftir sömu leiðum og áður stóðu opnar. Þá gátu dugnaðarmenn með tiltölulega litla fjármuni farið inn í útgerðina í smábátakerfinu með tiltölulega litlar heimildir í þorski en frelsi til veiða í öðrum tegundum eins og ýsu og steinbít og byggt sig upp smátt og smátt.

Ég hygg að hin almenna stefna í kvótakerfinu eins og hún gengur fyrir sig í dag og hefur þróast á undanförnum árum geri að verkum, við sjáum það í smábátakerfinu, að samþjöppun á aflaheimildunum er afar hröð. Menn vöruðu reyndar sérstaklega við því þegar allar tegundir voru festar inn í kvótakerfi smábáta. Ég er ekki viss um að það verði byggðunum til góðs né minni útgerðum. Ég áskil mér allan rétt til að taka afstöðu til málsins út frá því þegar búið er að skoða málið vandlega.

Við sjáum tilfærslur í smábátakerfinu þar sem aflaheimildir í þorski og ýsu safnast hratt saman. Það liggur ljóst fyrir að með óbreyttu fyrirkomulagi stefnir í að innan ekki langs tíma muni tiltölulega fáar útgerðir svokallaðra smábáta eiga mikinn part aflaheimildanna. Það kann að hafa þær afleiðingar að erfitt verði fyrir ýmsa smáútgerðarmenn að komast að í kerfinu. Ég tel að svo verði og það muni veikja byggðirnar enn frekar en orðið er.

Auðvitað geta menn sagt sem svo að gott sé að upp rísi öflugar útgerðir í smábátakerfinu með samþjöppuninni. En ég sakna hins vegar fjölbreytileikans í smábátaútgerðinni vítt og breitt um landið og að þar komist að verðandi skipstjórar og útgerðarmenn sem vilja festa sig í sessi og feta sig eftir þeim leiðum sem hægt hefur verið að fara á undanförnum árum með dugnaði og útsjónarsemi. Að öðrum kosti sjáum við fram á að vilji menn komast inn í þessa grein þurfi þeir að hafa afar mikla fjármuni eða aðgang að miklu fé. Ég sé ekki að þeir sem hafa reynt að gera út á leigumarkaðnum, hvort sem er í aflamarkskerfinu eða krókaaflamarkskerfinu, haldi þar velli, eingöngu á að gera út á leigukerfið.

Ég spái því, eins og kerfið er að þróast og við því vara ég, að aflaheimildir safnist á tiltölulega fáar hendur í báðum kerfunum og að að öðru óbreyttu verði afleiðingarnar þær að mörg byggðarlög lendi í vaxandi vanda í atvinnumálum. Vítt og breitt um landið, í sjávarútvegsbyggðunum, eru fiskveiðar og fiskvinnsla jú enn þá undirstaða byggðanna. Þó að margt annað hafi komið til í landinu, t.d. stóriðja og sérstaklega ferðamannaiðnaður og annað slíkt, sem getur komið minni byggðum til góða þá tekur tíma að byggja upp nýjar greinar. Það tekur tíma að byggja upp ferðaþjónustuna og verður vandfyllt í það skarð sem undirstaðan, sjávarútvegurinn, skilur eftir. Samhliða sjávarútveginum hafa þrifist ýmis iðnaðar- og þjónustufyrirtæki og orðið stór og öflug í því samstarfi. Ég get nefnt úr heimabyggð minni fyrirtæki eins og Pól hf., sem nú er orðinn hluti af Marelsamstæðunni, og 3X-Stál, svo einhver fyrirtæki séu nefnd sem hafa þróast með sjávarútveginum og orðið öflug. Þau eru þjónustu- og söluaðilar með nýja tækni á heimsmarkaði en þróuðust upp með útgerð og fiskvinnslu í landinu.

Mér finnst dapurt að horfa til þess ef tiltölulega fáar byggðir verða með útgerð minni fiskiskipa og möguleika á að byggja upp iðnað í kringum sjávarútveginn, þegar mörg byggðarlög verða með mjög litlar og jafnvel engar aflaheimildir. Það er alvarlegt að horfa til þess að byggðir sem áður höfðu tekjur úr handfærakerfinu, áður en það var kvótasett á síðasta ári, fá á land lítinn afla miðað við það sem áður var. Í því samhengi mætti nefna staði eins og Norðurfjörð á Ströndum og fleiri staði á Vestfjarðakjálkanum. Þar er landað miklu minni handfæraafla en mörg undanfarin ár í sóknarkerfinu.

Ég ætla ekki að taka upp langa umræðu um kvótakerfið. Menn þekkja afstöðu mína til þess. Ég geri mér grein fyrir því að þetta fyrirkomulag hefur haldist í mörg ár en það var búið að festa í lögum frá 2002 að þetta gengi inn í almenna úthlutun. Ég legg hins vegar áherslu á að menn gæti að sér í þessum efnum. Það er óþarfi, vegna einhverra 600 tonna, að taka þá áhættu að ríkið verði skaðabótaskylt.