132. löggjafarþing — 50. fundur,  24. jan. 2006.

Stjórn fiskveiða.

353. mál
[17:08]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Verið er að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða og sérstaklega ákvæði þess til bráðabirgða. Það kom fram hjá hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni að gríðarlega mörg bráðabirgðaákvæði giltu um stjórn fiskveiða á hinum ýmsu sviðum.

Frú forseti. Fyrst langar mig að gera játningu. Þveröfugt við það sem aðrir þingmenn hafa sagt þegar þeir hafa lýst frumvarpinu sem afar einföldu þá fór ég að velta fyrir mér hvort ég væri svona einfaldur og væri alls ekki sammála þessu eða hvort þingmenn væru að reyna að hylma yfir það að þeir skildu takmarkað textann og þess vegna væri hann mjög einfaldur.

Ég ætla að leyfa frú forseta að heyra texta sem mér finnst bara alveg óskiljanlegur að minnsta kosti svona við fyrstu sýn. Ég ætla að lesa hér ákvæði til bráðabirgða, með leyfi forseta:

„Í upphafi fiskveiðiárs 2006/2007 skal úthluta aflahlutdeild í þorski þeim fiskiskipum sem réttur skv. 9. gr. a er bundinn við 28. október 2005.“ — Og svo kemur rúsínan og rúsínurnar: — „Reiknigrunnur hvers úthlutunarréttar nemur meðaltali þess aflamarks sem úthlutað hefur verið á grundvelli viðkomandi réttar á fiskveiðiárunum 1999/2000–2005/2006, að báðum árum meðtöldum.“ — Hver skilur þennan texta? — „Þó skal skerða meðaltalið hlutfallslega miðað við lækkun leyfilegs heildarafla í þorski milli fiskveiðiáranna 1999/2000 og 2005/2006. Aflahlutdeild hvers fiskiskips er síðan reiknuð út frá reiknigrunni þess sem hlutfall af úthlutuðu aflamarki fiskveiðiársins 2005/2006 í þorski.“ — Og svo kemur önnur rúsínan: — „Heimilt er ráðherra að setja nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis, þar á meðal um flutning réttar milli fiskiskipa. Að lokinni þessari úthlutun skal aflahlutdeild allra fiskiskipa í þorski endurreiknuð með hliðsjón af þeim breytingum sem af þessari úthlutun leiðir.“

Frú forseti. (Sjútvrh.: Þetta er mjög einfalt.) Þetta er ofboðslega einfalt enda völdu flestir þingmenn að koma hér ræðustól og segja að þetta væri mjög einfalt frumvarp en fóru síðan ekki nánar í umræðu um frumvarpið heldur fóru að ræða um allt annað.

Frú forseti. Mér finnst, burt séð frá því að þetta hafi eitthvað efnislegt gildi sem það vafalaust hefur, að þá eigi svona texti ekki að koma fram heldur eigi menn að reyna að finna einhvern íslenskan beinan texta á því sem ætlunin er að koma á framfæri í svona lagatexta.

Nóg um það. Ég er mjög góður í þessu. Varðandi efnið að öðru leyti þá vil ég taka undir varnaðarorð hv. þm. Guðjóns Arnars Kristjánssonar um það sem hér er verið að gera. Það er verið að taka þessar 3.000 lestir af þorski sem hafa verið til ráðstöfunar til að úthluta til báta sem hafa verið með litlar aflaheimildir og átt þar af leiðandi erfiðan rekstrargrunn. Þetta hefur verið hluti af þeim sveigjanleika sem hefur verið gefinn kvótakerfinu sem við höfum búið við á undanförnum árum. Þetta hefur verið hluti af þeim sveigjanleika sem hefur verið lagður inn í kerfið, sveigjanleika sem aldrei getur í sjálfu sér verið 100% réttlátur af því að 100% réttlæti í úthlutunum af þessum toga er ekki til. En það getur samt haft þýðingu fyrir einstaka báta, fyrir þau byggðarlög þar sem bátar eru, að þessi sveigjanleiki hafi verið fyrir hendi. Það hefur komið fram hér í umræðunni að nú sé verið að kippa þessum sveigjanleika út og festa hann á báta og þar með hverfur sveigjanleikinn og þetta verður hluti af kvótakerfinu sem er að festa sig endanlega í sessi.

Ég er ekkert viss um að þetta sé rétt. Ég er ekkert viss um að það sé rétt að henda burtu öllum sveigjanleika sérstaklega gagnvart þessum minnstu bátum. Ég vil líka spyrja: Hefur þetta áhrif á nýliðun í flotanum, á það þegar litlir aðilar fikra sig upp með fáum tonnum án þess að fara í stór kaup á bátum og aflaheimildum? Það er mjög erfitt að stökkva fullskapaður inn í kvótakerfið eins og það er núna. Það er mjög erfitt. Nýliðun er mjög erfið, þ.e. að geta stokkið inn í það fullskapaður og haft af því frá fyrsta degi afkomu og fjárhagsgrundvöll. Mér er spurn og ég vil heyra það og vil að það sé kannað í sjávarútvegsnefnd: Torvelda þessar aðgerðir á einhvern hátt þá takmörkuðu möguleika sem nú eru á nýliðun í smábátaflotann? Ef svo er þá finnst mér það umhugsunarefni. Nógu erfitt er nú að byggja þetta upp. Við vitum líka að einstök byggðarlög þó ekki séu þau stór byggja atvinnu sína að hluta til á þessum flota, á þessum bátum sem eru með þessar tiltölulega litlu aflaheimildir og hafa þess vegna líka lítinn fjárhagslegan grunn til að kaupa eða leigja til sín heimildir. Hefur þetta einhver áhrif á sveigjanleika sem getur verið nauðsynlegt að hafa gagnvart þessum bátaflota og byggðum sem byggja á slíkum flota?

Þetta vildi ég leggja inn í þessa umræðu. Svo er eitt í lokin. Það kemur fram í athugasemdunum að verið er að velta fyrir sér hve mörg fiskiskip eigi hér hlut að máli. Hér stendur neðst á blaðsíðu eitt, með leyfi forseta:

„Aflaheimildum samkvæmt ofangreindri grein hefur verið úthlutað árlega síðan á fiskveiðiárinu 1999/2000. Í upphafi áttu 497 fiskiskip rétt til úthlutunar og þar af voru 234 fiskiskip með hámarksúthlutun en aðrir með minna.“

En síðan kemur ekkert frekar fram í textanum til hve margra skipa þetta gæti tekið nú. Fróðlegt væri að vita hversu margir bátar eiga hér hlut að máli, áætlað, miðað við núverandi aðstæður.

Frú forseti. Ég vildi bara draga þetta í umræðuna. Málið kemur að sjálfsögðu til sjávarútvegsnefndar þar sem verður farið ofan í þau atriði sem ég hér hef nefnt og aðrir hafa nefnt hér á undan.