132. löggjafarþing — 50. fundur,  24. jan. 2006.

Stjórn fiskveiða.

353. mál
[17:22]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Þetta mál er þannig vaxið að stjórnvöld hafa ákveðið að koma á eins einsleitu kerfi og mögulegt er í því aflahlutdeildarkerfi sem hér er í gildi en þau hafa verið að taka til í kerfinu síðustu árin. Þetta er eitt af því sem þarna var gert. Það sem mér finnst kannski ástæða til að nefna er að hv. þm. Hjálmar Árnason sagði að það hefði verið pólitísk ákvörðun á sínum tíma að setja þessar bætur á. Það er alveg rétt. Ég vil þess vegna hugga hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson með því að ég tel að það sé gjörsamlega fráleitt að láta sér detta í hug að menn eignist einhvern sérstakan rétt vegna þess að einhverju sé breytt í kerfinu. Mér finnst það fáránlegt. Ég skal færa fyrir því fáein rök í ræðu minni. Ég hef gert það áður.

Ég man núna eftir að minnsta kosti tíu mismunandi aðferðum við að koma veiðirétti til útgerðarmanna á Íslandi. Í fyrsta lagi er það aðalniðurstaðan sem allir tala um eins og það hafi verið eina niðurstaðan, þ.e. að menn hafi fengið úthlutað vegna þess að þeir hafi verið við veiðar síðustu þrjú árin áður en kvótakerfið var sett á og hafa fengið aflahlutdeild í samræmi við það. Það er rétt hvað varðar hluta af aflaréttindunum. En einungis hluta. Það væri auðvitað ástæða til að það yrði tekið vísindalega saman hversu stór sá hluti var. Vegna þess að það var ekki lítið afkastastór hluti flotans sem var settur á sóknarmark um leið og látinn vinna sér inn réttindi í sóknarmarkinu eftir að búið var að taka upp kvótakerfið. Sumir fengu meira að segja skipstjórakvóta á þeim tíma. Hvar er hann? Það var ein útgáfan þá.

Gefin voru út flóaleyfi sem byggðust ekki á neinum veiðiréttindum heldur var handvalinn hópur útgerðarmanna sem fékk að veiða t.d. hérna í Faxaflóanum með dragnót. Ekki var veiðiréttur á bak við það heldur var verið að velja þá sem fengu að fara í kolann þar. Og yfirlýsingar voru á þeim tíma að þetta yrði aldrei grunnkvóti. Þeir mundu aldrei eignast þennan veiðirétt. Þeir eignuðust hann nú samt.

Síðan voru gefin út tilraunaveiðileyfi, t.d. í rækju, þar sem einungis tveir til þrír jafnvel fengu slík leyfi. Þetta voru bara tilraunaveiðar. Réttindunum var úthlutað til þeirra sem fengu tilraunaveiðileyfin. Það er ekki hægt að halda því fram að til verði einhvers konar veiðireynsla með þeim hætti.

Hvernig var með norsk/íslensku síldina? Var það þannig að menn ynnu sér inn einhver réttindi til að veiða? Nei, það var samið við Norðmenn um að hægt yrði að veiða úr þeim síldarstofni. Þeir sem voru á staðnum fengu síðan réttindin til að veiða. Það er búið að úthluta þessu. Það er búið að úthluta öllum norsk/íslenska síldarstofninum, hversu stór sem hann verður, sem eignarréttindum til þeirra sem voru á staðnum. Þannig er það nú.

Menn fengu úthlutað veiðiréttindum út á kili sem voru uppi á landi, bátskili sem menn höfðu látið smíða og höfðu haft framsýni til að skipuleggja svolítið starfsemi sína fram í tímann, þeir fengu úthlutað veiðirétti út á það. Það var ekki í mjög fáum tilfellum sem þetta gerðist. Nýjum bátum sem búið var að gera samninga um snjóaði niður og menn fengu veiðirétt út á þá.

Gleymdi flotinn, sem við erum að tala um núna, fékk svo leiðréttingu af því mönnum fannst réttlætinu ekki alveg fullnægt. Þá var gripið til þess ráðs 1999 að reyna að rétta þetta svolítið af eftir að menn höfðu sífrað um það í mörg, mörg ár að þeir hefðu farið illa út úr því að svo mikið hefði verið tekið af þeim í kvótanum.

Síðan fengu menn á sínum tíma úthlutað veiðirétti í ýmsum tegundum út á veiði sem þeir höfðu haft í öðrum tegundum. Sérveiðileyfin voru svoleiðis sum hver, ekki öll, en sum hver. Og tíunda atriðið sem ég man eftir núna í svipinn er veiðirétturinn í ýsunni og það er sjálfsagt í fleiri tegundum. Farið er að úthluta mönnum helmingi meiri veiðirétti í ýsu en nokkur veiðireynsla var til fyrir þegar fyrst var úthlutað í ýsunni.

Hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson þarf ekki að hafa áhyggjur af því að menn hafi ekki haft það fjölbreytilegar aðferðir við úthlutun á veiðirétti á Íslandsmiðum að einhver bótaréttur myndist þótt menn taki upp á því að bæta einni við. Það held ég að sé alveg útilokað. Svo fjölbreytilegar aðferðir hafa menn notað til að koma veiðiréttinum á milli útgerðarmanna og til þeirra að slíkar áhyggjur held ég, sem betur fer, séu ástæðulausar og stjórnvöld geti þess vegna haldið áfram með uppáfinningarsemi sína í þessum efnum.

Ég er svo sem ekki að mæla þessu öllu bót sem ég nefndi hér til sögunnar sem er bara það sem ég mundi áður en ég fór upp í ræðustólinn. Fleiri leiðir hafa örugglega verið notaðar og ég gæti svo sem fundið eitthvað af þeim en er ekki með þær hérna hjá mér. En allt er þetta merki um að það er ekki neitt sem er absalútt í veiðirétti á Íslandsmiðum. Enda full ástæða til að muna eftir því að verið er að endurskoða núna stjórnarskrá lýðveldisins. Fyrir liggur yfirlýsing stjórnvalda, þ.e. ríkisstjórnarinnar, um að sú auðlind sem við erum að tala um verði sett inn í stjórnarskrána sem þjóðarauðlind. Auðvitað verða menn að standa við það. Pólitísk samstaða er eftir því sem ég veit best hjá öllum flokkum sem eiga fulltrúa á Alþingi um að þá leið eigi að fara. Þess vegna getur bara ekki verið annað en menn klári endurskoðun stjórnarskrárinnar með slíku ákvæði. Hins vegar hlýtur að reka fljótt að því, vegna þess að það gengur á þær stundir sem menn hafa til að endurskoða stjórnarskrána, að menn þurfi að fara að skoða mjög vandlega með hvaða hætti þetta ákvæði verði sett inn í stjórnarskrána og hvað þurfi þá að gera til að fylgja því eftir að öðru leyti. Því að auðvitað verða aðrar auðlindir settar inn í stjórnarskrána með sama hætti. Sameiginlegar orkuauðlindir og aðrar auðlindir. Við höfum sem betur fer niðurstöður auðlindanefndar, mjög vandaða vinnu sem liggur fyrir og formaður sjávarútvegsnefndar var einn af þeim sem skilaði þeirri miklu vinnu af sér með öðrum fulltrúum í þeirri nefnd. Þar var einmitt tekið á þessum málum. Ég sé ástæðu til að nefna þetta vegna þess að sú gjörð sem hér er ætlað að verði er bara partur af því púsli sem stjórnvöld eru búin að koma saman um veiðiréttinn nú um stundir og á örugglega eftir að taka ýmsum breytingum í framhaldinu þangað til menn hafa komist að einhverri nýrri niðurstöðu sem við sjáum ekki í bili svo sem.

Ég vildi aðeins minna á þetta í umræðunni af því mér fannst ástæða til þess. Þrátt fyrir þann pólitíska leiðangur sem stjórnvöld hafa farið í landinu og glannaskap með sameign þjóðarinnar á auðlindum hafsins, þá tel ég að það sé sem betur fer ekkert vafamál að hægt er að komast aftur að landi. Hægt er að koma á skynsamlegu veiðistjórnarkerfi og aðferðum til að koma veiðiréttinum með fullu jafnræði til þeirra sem stunda útgerðir í framtíðinni á Íslandsmiðum og hægt að snúa þannig til baka að umrædd auðlind glatist ekki úr höndum þjóðarinnar. Þó að vissulega sé ýmislegt sem verður erfitt að leysa úr á þeirri vegferð, þá verða það a.m.k. ekki óyfirstíganlegar hindranir. En fyrst þurfa menn að klára endurskoðunina á stjórnarskránni og síðan að setjast yfir það hvernig menn koma fyrir í lögum meðferð þeirra auðlinda sem verða kallaðar þjóðarauðlindir og settar inn í stjórnarskrána.