132. löggjafarþing — 50. fundur,  24. jan. 2006.

Stjórn fiskveiða.

353. mál
[17:55]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður segir að kvótinn sé gerður að söluvöru, að þetta hækki þröskuldinn og erfiðara verði að komast inn í þessa grein. En hv. þingmaður gagnrýndi fyrr í umræðunni að ég væri að skerða þann kvóta sem menn þó fengju og stæði til að gera að aflahlutdeild. Mér finnst þetta stangast pínulítið á.

Ég held að kjarni málsins sé að fyrirkomulagið sem við höfum á þessum 3.000 tonnum sé óhagkvæmt og komi m.a. illa niður á einyrkjum. Ég á ekki von á að það sé sérstaklega vont mál að hafa 3.000 tonna fyrirkomulagið eins og það er núna hjá mönnum sem eiga marga báta. Þá geta menn búið sér til þær aðstæður að eiga innan við 450 þorskígildi á fleiri en einum bát. Menn gætu þannig fært til þann kvóta. Það er hins vegar mjög erfitt fyrir menn með einn bát eða þá sem eru í þeirri stöðu sem ég nefndi áðan, sem kaupa annan bát og eru með tvo slíka kvóta. Hvað eiga menn þá að gera? Finnst mönnum þetta fyrirkomulag virkilega skynsamlegt eða líklegt til að auðvelda mönnum aðgang að greininni eða gera eftirsóknarvert að standa í útgerð, að búa til óþarfa þröskulda í þessum efnum sem gera erfiðara og óhagkvæmara að gera út?

Ég held að við megum aldrei, þótt við höfum ýmis sjónarmið í sjávarútvegsumræðunni sem er alveg sjálfsagt, gleyma að horfa til þess að greinin verður að vera arðbær. Einn vandinn sem við búum við í sjávarútvegi í dag er sá að fjármagnið í formi hlutafjár leitar ekki inn í þessa grein af því að menn sjá ekki nógu mikla arðsvon í henni. Við verðum líka að gæta að því að greinin sé samkeppnisfær þó að ég hafi skilning á þessu sjónarmiði hv. þingmanns og telji það eitt viðfangsefnið í dag, þ.e. að tryggja aðganginn að greininni.