132. löggjafarþing — 50. fundur,  24. jan. 2006.

Verkefnasjóður sjávarútvegsins.

382. mál
[17:58]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um ráðstöfun fjár úr Verkefnasjóði sjávarútvegsins.

Með lögum nr. 27/2005, um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, með síðari breytingum, var ákveðið að stytta gildistíma laganna um rúm fjögur ár. Þannig féllu lögin úr gildi 1. október 2005 í stað 31. desember 2009 eins og fyrr var ráðgert. Nokkrar ástæður lágu að baki þeirri ákvörðun.

Fyrst má nefna að verkefnum þróunarsjóðsins var lokið. Í öðru lagi var þróunarsjóðsgjaldið fellt niður þegar veiðigjald var tekið upp. Þess vegna hafði sjóðurinn engar tekjur. Á 11 ára starfstíma Þróunarsjóðs sjávarútvegsins greiddi sjávarútvegurinn sérstakt gjald í sjóðinn sem fjármagnaði alla starfsemi hans. Þess má geta að eigendur fiskiskipa og fiskvinnsluhús greiddu tæpa 6 milljarða kr. í sjóðinn á starfstímanum. Við stofnun þróunarsjóðsins fékk hann í veganesti um 800 millj. kr. í skuldir umfram eignir samkvæmt bókfærðu mati en á síðasta ári var höfuðstóll sjóðsins orðinn jákvæður. Jafnframt hafði verið ákveðið að andvirði eigna sjóðsins umfram skuldir skyldi renna til Verkefnasjóðs sjávarútvegsins og síðan varið til hafrannsókna, eins og kveðið var á um í lögunum.

Ég vil láta þess getið að í Verkefnasjóð sjávarútvegsins renna sektir af ólögmætum sjávarafla og tekjur af svokölluðum 5% afla, sem við höfum oft í daglegu tali kallað Hafró-aflann, sem ekki þarf að útskýra sérstaklega fyrir þeim sem hér eru og hlýða á mál mitt. Á árinu 2004 voru tekjur hans, að frádregnum afskriftum, um 112,1 millj. kr. og nam eigið fé í árslok um 45,6 millj. kr. Á árinu 2004 var úthlutað 129,2 millj. kr. til verkefna á vegum Hafrannsóknastofnunar og 131,8 millj. kr. á árinu 2005. Endanlegt uppgjör á tekjum sjóðsins á árinu 2005 liggur ekki fyrir.

Í samræmi við framangreind lagaákvæði lauk starfsemi Þróunarsjóðs sjávarútvegsins þann 1. október sl. Stjórn sjóðsins hafði þá selt eignir sjóðsins og greitt upp skuldir hans. Er nú unnið að uppgjöri á þróunarsjóðnum og gerð ársreiknings fyrir árið 2005. Hinn 1. október sl. afhenti stjórn sjóðsins Verkefnasjóði sjávarútvegsins um 689 millj. kr. Í ljósi þess hve hér er um háa fjárhæð að ræða þykir rétt að leggja til með frumvarpi þessu að 660 millj. kr. af því fé sem rann í Verkefnasjóðinn renni í ríkissjóð og ákvörðun um ráðstöfun þess verði tekin á Alþingi í stað þess að hún verði ákvörðuð við borð sjávarútvegsráðherra eða nefnd á hans vegum. Fé þessu skal varið til hafrannsókna og er því við það miðað að hafrannsóknir verði efldar og fé sem varið er til hafrannsókna aukið. Þess vegna var lagt til í fjárlögum ársins 2006 og það samþykkt á Alþingi að rammi fjárveitinga Hafrannsóknastofnunar yrði hækkaður um 50 millj. kr. Þetta gekk eftir eins og kunnugt er og við samþykktum á Alþingi þessa tilhögun í fjárlögum ársins 2006. Jafnframt var lagt til að rammi stofnunarinnar hækki aftur um aðrar 50 millj. kr. frá og með fjárlögum ársins 2007 og var frá því greint og verði þá 100 millj. kr. hærri á árinu 2007 en hann var á árinu 2005. Enn fremur hef ég ákveðið að breyta reglum um úthlutun úr Verkefnasjóði sjávarútvegsins þannig að á árinu 2006 muni a.m.k. 25 millj. kr. af því fé sem Verkefnasjóðurinn hefur til úthlutunar verða varið til hafrannsókna á samkeppnisgrundvelli. Auglýst verður eftir umsóknum um styrki til hafrannsókna og geta allir sótt um styrk til sjóðsins. Faghópur mun fjalla um umsóknir og meta þær með hliðsjón af vísindalegu gildi rannsóknaverkefnanna. Með þessari tilhögun vinnst tvennt að mínu mati, annars vegar verða hafrannsóknir á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar auknar í kjölfar hærri fjárveitinga og það er auðvitað mjög mikilvægt eins og hv. þingmenn vita. Hins vegar, sem ég legg líka mikla áherslu á, gefst öðrum aðilum, ekki síst þeim sem starfa utan Hafrannsóknastofnunarinnar, færi á að sækja um styrk til Verkefnasjóðs sjávarútvegsins til að stunda hafrannsóknir en sá hópur hefur haft mjög takmarkaðan aðgang að styrkjum til þessa.

Ég held, virðulegi forseti, að þetta síðara atriði sem ég nefndi geti skipt miklu máli. Þetta er að sönnu ekki mjög há upphæð, 25 millj. kr. En ég segi: Mjór er mikils vísir. Hér er eingöngu verið að tala um tölu í sambandi við árið 2006 og ef vel tekst til eru allar forsendur fyrir því að við getum aukið þetta fjármagn. Það er hins vegar þannig að þegar þetta frumvarp verður að lögum, ef það verður að lögum, verður liðið nokkuð á þetta ár. Því er ekki við því að búast að það komi til framkvæmda fyrr en eitthvað líður á þetta ár. Það er líka ljóst að það er nokkuð óvisst hversu margir munu sýna því áhuga að sækja í þennan sjóð. Við vitum það einfaldlega ekki á þessari stundu. Mér finnst ekkert ólíklegt að ýmsir kjósi að sækja um fjármuni í þetta. Hér er um að ræða styrk af hálfu hins opinbera. En auðvitað verðum við að gera mjög miklar faglegar og vísindalegar kröfur. Það væri mjög slæmt, að mínu mati, ef niðurstaðan væri sú að við færum af stað með þessa viðleitni, ef illa tækist til. Við verðum að gera miklar faglegar kröfur. Við verðum að fá heilmikið út úr þessu. Ég tel að það eigi að vera allar forsendur til þess. Frá því að þetta frumvarp var lagt fyrst fram á Alþingi og fékk nokkra umfjöllun, meðal annars vegna þess að ég hef haft frumkvæði að því að vekja athygli á því, þá hafa ótrúlega margir komið að máli við mig, fólk með mikla vísindalega þekkingu og margvíslegan bakgrunn, sem hafa sýnt þessu máli áhuga, sjá þarna möguleika. Það er gert ráð fyrir að þeir sem leggja fram umsóknir í þennan sjóð verði að leggja með sér líka fjármuni á móti þannig að 25 milljónirnar til slíkra rannsóknaverkefna verði að lokum 50 milljónir eða 75 milljónir eða 100 milljónir, allt eftir því hvernig til tekst.

Þetta getur haft margvíslega þýðingu. Þarna verður hægt að skoða með öðrum hætti ýmsa hluti hafrannsókna okkar og það verður líka hægt að einbeita sér að verkefnum sem af ýmsum ástæðum hefur ekki verið hægt að sinna. Ég var t.d. á fundi fyrir fáeinum dögum í Þorlákshöfn þar sem var fundið að því að við værum ekki að rannsaka með þeim hætti ýmsa hina minni stofna við landið eins og við ættum að gera. Fyrir því eru eðlilegar ástæður. Hafrannsóknastofnun verður að forgangsraða sínum verkefnum og það er ekkert óeðlilegt að menn horfi þá til þessarar stóru stofnunar þar sem mest er í húfi. Þó ég mundi nú mótmæla því harðlega ef menn héldu því fram að ekkert væri gert í því að skoða hina minni stofna þá held ég að þarna séu þó alla vega möguleikar með þessu, m.a. til þess að sinna slíkum verkefnum, alls konar staðbundnum verkefnum, ýmsu því sem menn telja ástæðu til að sinna með öðrum hætti en gert hefur verið. Við vitum líka að forsendan fyrir því að ná hámarksárangri í allri vísindalegri starfsemi er að nálgast vísindaleg verkefni út frá sem margbreytilegustum og fjölþættustum sjónarhóli. Þess vegna erum við í raun að leggja þetta til.

Menn velta fyrir sér hvers vegna er hér lagt til að taka peninga sem Alþingi hafði áður ákveðið að rynnu í verkefnasjóðinn og setja þá í ríkissjóð. Svar mitt er það sem ég nefndi hér áðan. Það er miklu eðlilegra. Ég held að hv. þingmenn hljóti að vera mér sammála um það að þegar um er að ræða svona mikla fjármuni, á sjöunda hundrað milljónir kr., að þessum peningum sé varið með ákvörðun Alþingis, með samþykkt Alþingis í fjárlagagerðinni. En svo við séum ekkert að blekkja hverjir aðra hér þá vitum við að ríkisstjórnin og ríkisstjórnarflokkarnir hafa þarna ákveðna forustu eins og gengur í slíkri umræðu. En það gerir okkur að minnsta kosti kleift að umræðan um ráðstöfun fjármagnsins fari fram á vettvangi Alþingis og alþingismenn geta þess vegna sagt sína skoðun á málinu. Þess vegna tel ég miklu eðlilegra út frá lýðræðislegum sjónarhóli að Alþingi ákveði hvernig við ætlum að verja þarna yfir 700 millj. kr. sem við erum núna búin að taka ákvörðun um að ráðstafa úr höfuðstóli þróunarsjóðsins, þ.e. að það sé gert með þessum hætti. Jafnframt var tekin um það pólitísk ákvörðun, og það var pólitísk niðurstaða sem Alþingi samþykkti fyrsta skrefið að við fjárlagagerðina á liðnu hausti, að auka um leið fjárveitingar til Hafrannsóknastofnunar. Ég tel ákaflega mikilvægt að tala um þessa hluti og skoða þá í þessu samhengi. Í Verkefnasjóði sjávarútvegsins eru allmiklar upphæðir, þ.e. þær framtíðartekjur sem verkefnasjóðurinn hefur annars vegar af Hafró-aflanum sem er dálítið óviss stærð og uppítökugjaldi sem er einnig óviss stærð, og sá höfuðstóll sem skilinn verður eftir í sjóðnum. Það gefur okkur tækifæri til að verja peningum til nýrra rannsókna, annars konar rannsókna, samkeppnisrannsókna á sviði hafrannsókna, sem við höfum ekki haft færi á að gera.

Virðulegi forseti. Þó þetta sé ekki stórt frumvarp að sjá — ég vona að það teljist að minnsta kosti sæmilega skýrt í þetta skipti — þá er það nú þannig að ég held að það geti á vissan hátt markað þau þáttaskil að það er þó verið að stíga eitt lítið skref í þá áttina að opna á frekari rannsóknir nýrra aðila á sviði sjávarútvegsmála. Það er mjög mikilvægt að skoða þetta frumvarp í því ljósi. Það er tekin sú pólitíska ákvörðun samhliða þessu og forsendan er þetta frumvarp. Það er tekin sú pólitíska ákvörðun að opna á rannsóknir fleiri aðila. Með því er ekki verið að gera lítið úr því starfi sem Hafrannsóknastofnun hefur unnið heldur er eingöngu verið að segja að það er ekki svo langt síðan við fengum í fyrsta skipti möguleika á að gera þetta svona vegna þess að hér áður og fyrr áttum við ekki völ á svona mörgum vísindamönnum og vel menntuðu ungu fólki og nú. Það hefur satt að segja vakið ánægjulega undrun mína hversu stór og myndarlegur hópur er að verða til af ungu og vel menntuðu vísindafólki á þessu sviði til viðbótar við þá ágætu menn sem hafa verið hér fyrir, sem maður bindur mjög miklar vonir við. Við gerum okkur öll grein fyrir því að ekkert er mikilvægara fyrir okkur í vísindasamfélaginu en einmitt að standa vel að því að sinna rannsóknar- og þróunarstarfi á þessu sviði því þetta er grundvöllurinn að öllu öðru í okkar þjóðfélagi.

Ég vona, virðulegi forseti, að við náum að eiga efnislegar og góðar umræður um frumvarpið. Auðvitað verður auðna að ráða hvort menn nái saman. En miðað við anda umræðunnar í þinginu, þ.e. annars vegar það að menn hafa talið gagnrýnisvert að ráðherrar söfnuðu í kjöltu sína miklum sjóðum og deildu síðan úr þeim með misjafnlega gagnsæjum hætti og hins vegar það að menn hafa kallað eftir því að auka fjármagn til rannsókna og kallað eftir fleiri viðhorfum, og í ljósi þess að þetta frumvarp er á vissan hátt sannarlega í samræmi við þessa umræðu, þá geri ég mér góðar vonir um að um þetta mál geti tekist þokkaleg samstaða í meginatriðum þó alltaf megi deila um útfærsluna.