132. löggjafarþing — 50. fundur,  24. jan. 2006.

Verkefnasjóður sjávarútvegsins.

382. mál
[18:30]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Þetta frumvarp kemur nokkuð á óvart og sérstaklega vegna þess hversu stutt er síðan ákveðið var hvernig ráðstafa ætti þessum fjármunum. Sú ákvörðun var svo sem ekki gallalaus. Fyrst og fremst var hún ekki gallalaus vegna þess að Verkefnasjóður sjávarútvegsins eða stjórnskipulag hans er ekki gallalaust. Fyrrverandi hæstv. sjávarútvegsráðherra hlustaði ekki á gagnrýni stjórnarandstöðunnar á það fyrirkomulag sem þar er. Ég hefði fagnað málefnum frá hæstv. ráðherra þar sem hann hefði gert grein fyrir tillögum um nýtt fyrirkomulag á stjórn Verkefnasjóðsins. Því auðvitað er sú stjórnsýsla ekki rétt að hæstv. ráðherra nánast hafi slíkan sjóð eins og þennan í einhverjum af sínum vösum. Og þeir sem stjórni sjóðnum séu starfsmenn ráðuneytisins og undirmenn hæstv. ráðherra. Það sjá auðvitað allir að er ekki er góð stjórnsýsla. Það hefði hæstv. ráðherra átt að glíma við úr því sem komið var frekar en að fara þessa leið. Ég ætla ekki að endurtaka það sem hv. þm. Jón Gunnarsson fór yfir áðan, hvernig málið gekk fyrir sig á sínum tíma. En það vekur nokkra undrun að hæstv. sjávarútvegsráðherra sem nú er skuli hafa valið að skipta um skoðun með þessum hætti og í rauninni fara gegn því sem Alþingi ákvað. Þetta er nú ekki einsdæmi og því miður virðast menn gleyma mjög hratt því sem ákveðið er á Alþingi. Hér í einu og sama málinu erum við að tala um tvö tilvik þar sem þingmenn gleyma jafnóðum því sem Alþingi ákvað.

Við erum að tala um þá niðurstöðu sem varð hjá Alþingi og hv. þm. Jón Gunnarsson fór yfir. Alþingi lét það koma mjög skýrt fram í samþykkt sinni að þessir fjármunir ættu að fara til hafrannsókna en ekki eins og hæstv. ráðherra hafi þá lagt til, til Hafrannsóknastofnunar.

Við erum líka að rifja upp málefni þar sem Alþingi samþykkti þingsályktunartillögu fyrir fáeinum árum, ég man ekki nákvæmlega hvenær, líklega 1992 eða eitthvað á því bili, þar sem samþykkt var að fjármunir úr Þróunarsjóði sjávarútvegsins ættu að ganga til endurbóta og viðhalds á gömlum skipum. Til að viðhalda gamalli þekkingu á sviði sjávarútvegs og votta virðingu því sem forfeðurnir hafa unnið í þeim efnum og full ástæða er til að gera. Það var ekki nokkur vegur að fá niðurstöðu í það. Og nú tel ég að full ástæða sé til að hæstv. sjávarútvegsráðherra svari því hvort hann ætli að beita sér fyrir því að fjármunir úr ríkissjóði komi, þá er ég ekki að tala um úr þessari púllíu frekar en öðrum í hirslum hæstv. fjármálaráðherra, í stað þeirra fjármuna þannig að orðið verði við þeirri samþykkt Alþingis að styrkja endurbætur og varðveislu gamalla skipa eins og samþykkt var og sérstaklega með þá fjármuni í huga sem hér er um að ræða. Ég geri ekki mikið með hvaða krónur eru notaðar. En ef menn falla frá samþykkt Alþingis um að þessir fjármunir verði notaðir þá hlýtur að verða að spyrja eftir því hvort menn hafi annað í huga. Eða hvort ganga eigi fram hjá samþykkt Alþingis í þessu efni.

Síðan má ég til með að nefna að hæstv. ráðherra hafði þó nokkurn kafla í framsöguræðu sinni um hvað ánægjulegt væri að stór hópur ungra vísindamanna væri orðinn til á sviði sjávarútvegs og tengdra fræðigreina eftir því sem ég skildi best. Það væru ótrúlega margir, sagði hæstv. ráðherra, sem hefðu látið í ljós áhuga sinn. Þá verð ég nú að taka undir með hv. þm. Jóni Gunnarssyni að það er ekki margt sem hægt er að gera fyrir 25 milljónir. Hitt líka að það sem þó væri hægt að gera fyrir þá fjármuni, sem ég vonast til að verði meiri en þetta, að verði það skilyrt með þeim hætti sem hér er gert er verið að þrengja mjög möguleikana á að rannsóknir verði gerðar sem hugsanlega annars gætu verið gerðar. Þá er verið að þrengja þá rannsóknarmöguleika við það að einungis rannsóknir sem fjársterkir aðilar eru tilbúnir að setja peninga í fari fram en rannsóknir, við skulum segja ungra vísindamanna, tökum bara dæmi, sem byggjast á því t.d. að vinna úr einhverjum af þeim gögnum sem Hafrannsóknastofnun hefur aldrei getað unnið úr og ekki haft mannskap eða möguleika til að gera. Skoða t.d. hvaða áhrif, svo ég nefni einhver dæmi, eitt af mínum áhugamálum, það mætti t.d. vera eitt rannsóknarverkefnið, að skoða áhrif á nýtingu loðnustofnsins á lífríkið í hafinu og nýtingu annarra stofna á grundvelli þeirra gagna sem Hafrannsóknastofnun á. Vegna þess að allt hefur þetta verið unnið undir vísindalegu eftirliti Hafrannsóknastofnunar.

En ef spurt er um hvað hafi komið út úr rannsóknum á þeim gögnum sem þarna hafa orðið til, sem geti sagt okkur eitthvað um áhrifin á aðra stofna, áhrifin á hrygningu þorsksins eða aðra slíka hluti, þá koma menn að tómum kofanum í Hafrannsóknastofnun vegna þess að menn hafa ekki haft mannskap, vilja eða getu til að taka á því máli og skoða það þó ekki væri nema bara út frá þeim gögnum sem eru til. Margt annað alveg örugglega er til í þessu efni sem kannski er jafnvel hugsanlegt að einstakir vísindamenn gætu unnið á grundvelli gagna sem eru til. En þessir einstöku vísindamenn eiga kannski ekki 10–20 milljónir í vasanum til að leggja á móti. Það er engan veginn víst að svo sé. Við erum ekki að tala um að til séu einhverjar stofnanir sambærilegar Hafrannsóknastofnuninni hér úti í bæ. Við erum að vonast til að einstaka vísindamenn, sumir kannski með hjálp fyrirtækja sem hefðu áhuga á að styrkja þá, aðrir ekki, geti komið inn á sviðið og komið með hugmyndir um rannsóknir. Ég tel þess vegna að hæstv. ráðherra þurfi að endurskoða það sem í frumvarpinu er um þetta efni og að sýna þurfi þar meiri reisn.

Ég tel að þarna sé frumvarpið gallað og að full ástæða sé fyrir sjávarútvegsnefnd að fara vel yfir þetta mál og hvernig eigi að standa að þessu. Úr því hæstv. ráðherra hefur valið þessa leið tel ég að full ástæða sé til að skoða það í nefndinni hvort hún sé sama sinnis og hún var. Hæstv. ráðherra er tilbúinn að setja peningana þessa leið. Sjávarútvegsnefnd gæti haft sömu skoðun og hún hafði á meðan hæstv. ráðherra var í henni. Það er alveg hugsanlegt og gæti svo sem breytt einhverju orðalagi eins og gert var þá.

Síðan langar mig í lokin, af því ég ætla ekki að lengja umræðuna, ég fæ tækifæri til að ræða þetta við félaga mína í sjávarútvegsnefnd, að spyrja hæstv. ráðherra út í eitt atriði vegna þess að lokaklásúlan frá fjármálaráðuneytinu fór svolítið í taugarnar á mér þar sem er endað á að segja:

„Að mati fjármálaráðuneytis hefur frumvarpið ekki áhrif á afkomu ríkisins verði það að lögum.“

Verið er að tala um að setja 660 milljónir í ríkissjóð. Mér finnst eiginlega alveg óþarfi að orða umsögn fjármálaráðuneytisins á þann hátt að það skipti engu máli þó menn setji 660 milljónir í ríkissjóð. Það hlýtur auðvitað að skipta máli og hafa áhrif á ríkissjóð að þessu leyti. Mér finnst það svona sæmileg umgengni við málfarið okkar að hafa ekki þetta inni í tölvunni, þessa lokaklásúlu sem virðist vera í fjölmörgum umsögnum fjármálaráðuneytisins um mál frá ríkisstjórninni, þ.e. að þau hafi ekki áhrif á afkomu ríkissjóðs. Það liggur ekki fyrir með þessari tillögu heildarráðstöfun á þeim fjármunum sem þarna er verið að setja í ríkissjóð heldur er einungis verið að gera ráð fyrir að Alþingi afgreiði hluta af þessum fjármunum út við næstu fjárlagagerð. Ekkert liggur fyrir um það einu sinni hvort það verður gert. Vegna þess að ekki er hægt að taka valdið af Alþingi til að ákveða það sjálft. Þess vegna vil ég meina að fjármálaráðuneytið hefði átt að orða þetta öðruvísi þannig að fólk skildi ekki málið þannig að menn, t.d. í fjármálaráðuneytinu litu þannig á að 660 milljónir væru svo sem ekki eitt eða neitt.