132. löggjafarþing — 50. fundur,  24. jan. 2006.

Verkefnasjóður sjávarútvegsins.

382. mál
[18:46]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Í þessu máli hættir maður ekki að vera hissa. Bæði varð ég hissa þegar ég sá frumvarpið og heyrði ræðu hæstv. sjávarútvegsráðherra þegar hann fylgdi því úr hlaði og ekki síður er ég hissa að heyra hér ræðu hv. formanns sjávarútvegsnefndar, Guðjóns Hjörleifssonar, og leyfi mér hér með, með leyfi forseta, að lesa aðeins upp úr ræðu þingmanns sem hér flutti ræðu 22. mars árið 2005. Það er ekki langt síðan.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Andvirði þeirra“ — og þá er verið að tala um fjármuni þróunarsjóðs — „átti í upphafi að verja til hafrannsókna á vegum Hafrannsóknastofnunar en sjávarútvegsnefnd samþykkti að taka út textann „á vegum Hafrannsóknastofnunar“ og taldi eðlilegt að stjórn verkefnasjóðs hefði ákvörðunarvald með ráðstöfun á andvirði þróunarsjóðs. Á Alþingi og í sjávarútvegnefnd hefur mikið verið rætt um hafrannsóknir og hve mikilvægt sé að hafa fjármagn til enn frekari rannsókna. Því er ráðstöfun eigna sjóðsins mjög mikilvæg fyrir frekari rannsóknir en reikna má með að eigið fé sjóðsins verði í kringum 500 millj. Sú upphæð getur þó breyst eitthvað þar sem ekki er komið lokauppgjör hjá sjóðnum.“

Þess ræðu flutti hv. þm. Guðjón Hjörleifsson 22. mars 2005. Við berum síðan saman þá ræðu sem sami hv. þingmaður var að ljúka við að flytja hér og það stendur ekki steinn yfir steini. Hv. þingmaður virðist hafa orðið fyrir þrýstingi frá hæstv. sjávarútvegsráðherra. Hann beygir bak sitt eins og hann er vanur, beygir sig undir vöndinn.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Hvað hefur breyst? Hann man vonandi umræðuna í sjávarútvegsnefnd. Ég man umræðuna í sjávarútvegsnefnd og því spyr ég hv. þingmann: Hvað hefur breyst?