132. löggjafarþing — 50. fundur,  24. jan. 2006.

Verkefnasjóður sjávarútvegsins.

382. mál
[18:48]
Hlusta

Guðjón Hjörleifsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Já, það var rétt hjá hv. þingmanni Jóni Gunnarssyni að það var samkomulag um að ráðstafa þessu í Verkefnasjóð sjávarútvegsins. Það sem ég er að horfa til er að það er verið að auka fjárveitingar til hafrannsókna um tæp 10% á ári og varanlega frá 2007. Mér finnst þetta stórt skref og eftir að ég las upp hér greinargerð frá sjávarútvegsnefnd til fjárlaganefndar sjáum við að þessar 100 milljónir gætu nýst í 180 daga á skipum Hafrannsóknastofnunar til rannsókna. Við þurfum að horfa til framtíðar og ég tel mjög skynsamlegt að haldið sé svona á spilunum.