132. löggjafarþing — 50. fundur,  24. jan. 2006.

Verkefnasjóður sjávarútvegsins.

382. mál
[18:49]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það eru ekki nýjar fréttir að við þingmenn, sem höfum látið málefni Hafrannsóknastofnunar okkur fyrir brjósti brenna, höfum verið á því að það færu of litlir fjármunir til hafrannsókna og að of litlir fjármunir gengju til Hafrannsóknastofnunar, það eru ekkert nýjar fréttir. Við ræddum það í sjávarútvegsnefnd og við höfum oft rætt að það vantaði fjármuni til rannsókna á vegum Hafrannsóknastofnunar. En hvað þetta atriði varðar, þ.e. uppgjörið á þróunarsjóðnum vorum við sammála um að þeir peningar færu ekki inn í þann farveg heldur yrði þeim haldið til hliðar og þeir gætu nýst í rannsóknir bæði á vegum Hafrannsóknastofnunar og sjálfstæðra vísindaaðila eftir að báðir aðilar hefðu á jafnréttisgrunni sótt um fjármuni í ákveðin rannsóknaverkefni sem metin yrðu góð og gild til að hljóta styrk en ekki, og ég endurtek, ekki að fjármunirnir rynnu beint til Hafrannsóknastofnunar eins og nú er verið að gera ráð fyrir. Þetta var sérstaklega einfalt í frumvarpi hæstv. sjávarútvegsráðherra þáverandi en þar stóð að fjármunirnir ættu að fara til hafrannsókna á vegum Hafrannsóknastofnunar. Þingmenn tóku út, eins og hv. þm. Guðjón Hjörleifsson lýsti í ræðu sinni 22. mars, orðin „á vegum Hafrannsóknastofnunar“. Nú eru þau orð komin inn aftur í frumvarp núverandi hæstv. sjávarútvegsráðherra og hv. formaður sjávarútvegsnefndar, hv. þm. Guðjón Hjörleifsson, sem hafði þessa skoðun í umræðu í sjávarútvegsnefnd 22. mars hefur kastað henni út í hafsauga vegna þess að ráðherra hefur andað á hann.