132. löggjafarþing — 50. fundur,  24. jan. 2006.

Verkefnasjóður sjávarútvegsins.

382. mál
[18:51]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það er nú svolítið skrýtin vegferð á þessu máli eins og hv. þingmenn hafa komið inn á. Þegar þetta mál var afgreitt hér sl. vor var opið fyrir að fleiri en Hafrannsóknastofnun hefðu beina möguleika á því að sækja í það fé sem þá var ætlað til hafrannsókna og að það væri ekki eyrnamerkt Hafrannsóknastofnun.

Sá sem hér stendur hafði og hefur mikinn áhuga á því að reyna að efla hafrannsóknir á mörgum sviðum og á því er full þörf. Við eigum mjög góð hafrannsóknaskip, sérstaklega hið nýja skip Árna Friðriksson með afar fullkomnum tækjum, m.a. fjölgeislamæli og það er auðvitað eftirsóknarvert að reyna að halda slíku skipi úti til rannsókna. Við höfðum alla vega hug á því margir að það væri ekki bara Hafrannsóknastofnun sem gæti óskað eftir því að nýta slík skip eins og Árna Friðriksson svo dæmi sé tekið heldur hefðu aðilar sem settu upp markvissa rannsóknaáætlun einnig möguleika á að sækja í verulegt fé og efna til samstarfs við Hafrannsóknastofnun um víðtækar rannsóknir á ákveðnum sviðum. Þeir gætu þá lagt fram tillögur sínar og gögn um hvernig að því mætti standa að takast á við ákveðin rannsóknaverkefni og m.a. fengið að nota til þess skip Hafrannsóknastofnunar og fá þannig fram meiri nýtingu á þeim skipakosti en gert er ráð fyrir í dag.

Ég held að ég viti það rétt, hæstv. forseti, að á þessu ári sé aðeins gert ráð fyrir því að Árni Friðriksson verði gerður út í 155 daga, í rúma fimm mánuði. Það er ekki mikil nýting á jafngóðu skipi og hinn nýi Árni Friðriksson er og með þeim tækjabúnaði sem hann hefur um borð.

Það er auðvitað svo að það er fjölmargt sem menn vildu stuðla að rannsóknum á í auknum mæli og er hægt að takast á við með samstarfi margra aðila. Í þessari umræðu ætla ég bara að nefna eitt dæmi sérstaklega sem ég held að sé rétt að menn leiði hugann að. Þannig er að á undanförnum árum hefur verið hætt við að stunda rannsóknir á svokölluðum seiðagrúppum, þ.e. seiðum frá vorinu þegar þau eru orðin 4–5 sm löng og eru uppi í sjó eða á grunnsævinu. Slíkar rannsóknir eru gerðar í þeim tilgangi að reyna að meta hvað hefur klakist út úr okkar helstu nytjastofnum og hversu mikil mergð eða magn seiða er á ákveðnum svæðum á hafsvæðinu við Ísland. Svona rannsóknir voru stundaðar í fjölda ára og rannsóknarskipin fóru í svokallaða seiðaleiðangra síðsumars. Því var því miður hætt og ég tel að það hafi verið afar misráðið, sérstaklega í ljósi þess að aðstæður hér við land hafa breyst verulega á undanförnum árum og væri afar áhugavert að fylgja slíkri rannsóknarseríu eftir inn í það ástand sem núna er, þar sem sjávarhiti er meiri við landið og innstreymi af því svo meira en oft hefur verið.

Mér hefur oft fundist gæta þess, hæstv. forseti, sérstaklega á vegum Hafrannsóknastofnunar, að þar væri verið að loka inni rannsóknir eingöngu á vegum stofnunarinnar. Ég hef stundum orðað það þannig að það þyrfti að komast inn fyrir kremlarmúra Hafrannsóknastofnunar um hafrannsóknir og það væri ekki eðlilegt að stofnunin hefði einokun á rannsóknum í lífríki sjávar. Ég nefni þetta dæmi varðandi þorskseiðin síðsumars en rannsóknir á þeim voru stundaðar árum saman og það hefði verið virkileg ástæða til að halda því áfram með tilliti til þess hvaða breytingar eru að verða á sjávarhita hér við land, hvernig seiðin hefðu þá hagað sér o.s.frv. Við hefðum auðvitað þurft skip, t.d. eins og Árna Friðriksson, til þess að rannsaka í úthafinu og skoða en það hefði einnig þurft að skoða þetta innfjarða með tilliti til þess að með hlýnandi sjó er ljóst að mikill hluti seiða hefur leitað inn á flóa og friði og eina vísbendingin um það á undanförnum árum eru í raun og veru þær veiðar á þorskseiðum í Ísafjarðardjúpi sem stundaðar hafa verið, sjaldan þó, til þess að afla seiða í þorskeldi eða áframeldi á þorski, uppeldi á þorski.

Við höfum því miður ekki þennan samanburð áfram og það sem verra er, hæstv. forseti, að á sama tíma og rækjuveiðar hafa algjörlega lagst af innfjarða misstum við líka þann rannsóknarpott sem fylgdi rækjuveiðunum. Það var auðvitað þannig að á hverju hausti tók Hafrannsóknastofnunin eða skip á hennar vegum, þess vegna einhverjir rækjubátar, rannsóknarhol á rækjuslóðum frá Eldey í vestri í Breiðafirði og síðan í öllum fjörðum vestan og norðan lands til að kanna í fyrsta lagi útvinnslu rækju og í öðru lagi útvinnslu seiða. Oft leiddu þessar rannsóknir til þess að menn takmörkuðu veiðar á ákveðnum svæðum vegna þess að það væri mikið af ungseiðum þorsks og ýsu eða annarra nytjafiska. Síðan kom þá iðulega í ljós meðan rækjuveiðar voru og hétu innfjarða að við rækjuveiðarnar urðu menn varir við enn meira magn seiða og það þurfti að loka á stórum svæðum, jafnvel svo að heilum fjörðum og flóum var lokað vikum og stundum mánuðum saman vegna þeirrar mergðar sem var af uppvaxandi þorskungviði og ýsu og öðrum nytjafiskum.

Þessa vitneskju erum við búin að missa vegna þess að rækjuveiðarnar eru ekki lengur stundaðar þannig að við höfum ekki lengur vitneskju um seiðamagnið á grunnslóð. Eina vitneskjan sem við höfum eru tilraunaveiðar í eldi í Ísafjarðardjúpi, eins og ég sagði áðan, og við höfum heldur ekki mælingar Hafrannsóknastofnunar á seiðum í úthafinu vegna þess að seiðaleiðöngrunum hefur verið hætt. Þetta tel ég afar misráðið og ég er alveg viss um það að margir ungir vísindamenn eða reyndir eftir atvikum hefðu áhuga á því að reyna að kanna þessa mynd. Ég held að það væri mjög auðvelt að setja upp rannsóknarmódel sem gæti leitt okkur verulega áfram í því að kanna útvinnslu þorskárgangs á fyrsta ári með því að taka upp samstarf útgerðarmanna minni báta sem hafa verið að stunda rækjuveiðar á undanförnum árum og nota rækjuveiðar til þess að kanna útbreiðslu seiða. En það þyrfti hins vegar gott rannsóknarskip til þess að sigla um slóðina með sín góðu tæki til þess að mæla þar hvar líklegast væri fyrir hina minni báta sem væru í þessu samstarfsverkefni að toga til þess að kanna útbreiðslu o.s.frv., enda fá menn ákveðin gildi út úr þeim tækjum sem eru um borð í hafrannsóknaskipum eins og Árna Friðrikssyni eða Bjarna Sæmundssyni.

Þannig hefði verið hægt að koma á að mínu viti verulega áhugaverðum rannsóknum sem hefðu getað leitt til þess að á nokkrum árum hefði fundist ákveðinn viðmiðunargrunnur um hvernig seiðin höguðu sér á grunnslóðinni við breyttar aðstæður í sjávarhita og hvernig samstarf hafrannsóknaskipanna, ég segi ekki Hafrannsóknastofnunar, heldur hafrannsóknaskipanna og þeirra aðila sem hefðu viljað setja upp slíkt verkefni hefði þróast. Útgerðarmenn margra minni fiskibáta hefðu getað valið sér að taka sig saman í slíkt verkefni og fylgja því eftir til nokkurra ára.

Hins vegar er alveg ljóst, hæstv. forseti, að 25 milljónir duga sáralítið í slíkt verkefni. En vitneskja sem kæmi úr slíku verkefni gæti skipt okkur verulega miklu máli upp á framtíðina, sérstaklega í ljósi þess að við höfum ekki lengur innfjarðarrækjuveiðina til að mæla seiðamagn á rækjuslóðinni innfjarðar og við höfum heldur ekki sjálf á vegum Hafrannsóknastofnunar stundað neinar seiðarannsóknir. Ég tel þetta afar misráðið. Þetta er nánast eins misráðið og þegar við ákváðum á tímabili að hætta að merkja þorsk vegna þess að menn töldu að hér við land færi þorskurinn lítið á milli svæða. Það gerðu menn því miður rétt áður en fór að kólna hér við land á árunum 1960–1966 eða 1968. Menn drógu þá verulega úr merkingum. Það var auðvitað afar misráðið vegna þess að þá vorum við að fá hér inn kaldan sjó og köld sjávarskilyrði sem hefði verið mjög áhugavert að sjá hvaða áhrif þau hefðu á göngur þorsksins, t.d. til annarra landa, annarra fiskimiða eða annarra stranda.

Sama er að segja núna þegar hlýnar að þá væri auðvitað afar áhugavert að fylgja því eftir hvernig mynstur breyttist varðandi uppvaxandi þorskungviði og ýsuungviði. En við fáum sem sagt litla mynd af því eins og ástandið er í dag. Rækjuveiðar eru aflagðar innfjarðar, þær eru aflagðar nánast algjörlega í djúpköntunum, einnig á úthafsrækjunni. Hafrannsóknastofnun heldur ekki úti skipum til að mæla seiðamagnið í hafinu lengur, hvorki á djúp- né grunnmiðum. Við erum þess vegna ekki með neinn samanburð í verulega breyttu lífríki og það er náttúrlega afar slæmt þegar menn halda ekki áfram að rannsaka þegar aðstæður breytast verulega því að þá fyrst, hæstv. forseti, er ástæða til að fylgja rannsóknunum eftir í breytileikanum til að átta sig á því hvaða áhrif það hefur.

Ég hefði talið að m.a. þetta verkefni sem ég nefni hefði verið mjög áhugavert og hefði getað orðið samstarfsverkefni vísindamanna sem starfa utan Hafrannsóknastofnunar, útgerðarmanna minni fiskiskipa til að sjá um rannsóknir á grunnslóðinni, og leigu eða útgerð hafrannsóknaskipanna. Ekki veitir nú af að efla notkun þessara öflugu skipa miðað við það úthald sem við gerum ráð fyrir á þessu ári. Það er vissulega verulegt pláss fyrir það að aðilar utan Hafrannsóknastofnunar gætu tekið slík skip á leigu og Hafrannsóknastofnun sem slík með útgerð skipanna gæti verið í samstarfsverkefni með öðrum aðilum um að kanna ákveðin verkefni. Um þetta hefðu menn hins vegar þurft að setja upp áætlun til nokkurra ára því að það er tiltölulega lítið gagn í því að hefja slíkar rannsóknir og stunda þær bara í eitt ár.

Við höfðum þessa þekkingu úr Ísafjarðardjúpi, úr Arnarfirði og Húnaflóa, Breiðafirði og fleiri fjörðum norðan og austan lands í fjölda ára samfara rækjuveiðunum vegna þess að rækjuvarpan er svo smáriðin að í hana komu seiði og þar fengu menn þessa mynd og svæðum var iðulega lokað, eins og ég sagði áður, einmitt vegna magns af ungviði þorsks. Síðan leitar þetta ungviði til botns þegar fer að kólna. Og þegar árferðið er eins og það er að það kólnar jafnvel ekki fyrr en eftir áramót leitar ungviðið seinna til botns og seinna út af flóum og fjörðum.

Síðan er annað mál með loðnuna sem gekk inn á grunnslóðina venjulega þegar dag fór að lengja eftir áramót og mætti oft þessum seiðagöngum í álum eða köntum bæði inn í djúpum og flóum landsins eða þá á grunnslóðinni á 40–70 föðmum. Það varð auðvitað til þess þegar loðnan gekk inn að þorskurinn komst í þá kjörfæðu sína og þar af leiðandi minnkaði afrán þorsksins á sjálfum sér því að það vita jú allir sem vita, því það er best sannað í þorskeldinu, að ef borin er feit loðna í þorskinn velur hann hana og étur mjög grimmt. Þannig væri afar nauðsynlegt að fylgja eftir þessum rannsóknum og við erum greinilega að upplifa miklar breytingar að því er varðar loðnustofninn og hegðun hans. Því ber þetta allt að sama brunni. Það væri afar nauðsynlegt að stunda slíkar rannsóknir og hefði verið afar áhugavert að einhver hópur vísindamanna hefði sett upp slíka áætlun, sótt í fé það sem hér er verið að tala um. En það er líka algjörlega ljóst, hæstv. forseti, og það veit sjávarútvegsráðherra jafn vel og ég að 25 milljónir í slíka áætlun er ekki stór biti ef menn ætla að gera virkilega spennandi verkefni úr þessu sem er að afla okkar viðbótarþekkingar.

Nú erum við að lifa þennan mikla breytileika í hafinu umhverfis Ísland og við vitum í raun og veru ekkert hvaða áhrif það kemur til með að hafa á grunnslóðina, á seiðabúskapinn og við sitjum uppi með þekkingargat að þessu leyti. Þess vegna held ég að miklu nær hefði verið að hafa frumvarpið og lögin eins og þau voru, að þetta væri merkt til hafrannsókna og ef menn hefðu sett upp nógu rökstudda og vel útfærða áætlun hefðu einstakir vísindamenn getað fengið styrk til þess og jafnvel þó að menn væru þar að horfa á úthlutun sem þyrfti kannski 50–100 milljónir á ári til að geta annast slíkt verkefni.

Ég vil benda á þetta, hæstv. forseti, og tel að þó að hér sé mjór vísir að því að takast á við hafrannsóknir utan múra Hafrannsóknastofnunar þá tel ég að hitt hefði verið betra og við hefðum haft það opið. Þá værum við að meta áhugaverð verkefni út frá þeirri stöðu sem þau gefa tilefni til á hverjum tíma. Það er ekkert sem segir að þó að féð hefði ekki verið merkt Hafrannsóknastofnun sem slíkri að Hafrannsóknastofnun hefði ekki verið stór aðili í þátttöku í slíkum rannsóknum samhliða því að geta unnið það með öðrum sem áhuga hafa. Ég tel, eins og ég sagði áður, að það hefði verið mjög þarft verk að komast af stað með verkefni þar sem væri lagt upp með hugsun annarra vísindamanna en starfa á Hafrannsóknastofnun og að menn gætu þar átt möguleika til fjár á jafnréttisgrundvelli án þess að neglt væri niður að það væri takmarkað við 25 milljónir eins og hér er lagt til.

Þegar þetta mál var rætt á síðasta vori minntum við margir þingmenn á það að á sínum tíma hafði Alþingi samþykkt þingsályktunartillögu um vilja sinn til þess að merkja nokkra fjármuni úr þeim miklu fjármunum sem inn í þróunarsjóðinn komu til þess m.a. að efla varðveislu gamalla skipa. Þróunarsjóðurinn varð jú til á undirbyggingu gamla úreldingarsjóðsins m.a. og þar á undan sennilega hagræðingarsjóðsins, ef ég man rétt, og menn töldu reyndar að mikið af fjármunum þeirra sjóða, sérstaklega hagræðingarsjóðsins, hefðu tapast þegar verið var að lána í fiskvinnslufyrirtæki en síðan reyndist það vera svo að þegar fram í sótti og menn voru að sameina sjávarútvegsfyrirtæki þurfti að greiða upp skuldbindingar sem þar lágu og fé kom inn í þróunarsjóðinn sem menn töldu að hann mundi ekki fá og var í raun búið að afskrifa.

Þegar við töluðum um það á síðasta vori að þetta væru heilar 600 milljónir eða jafnvel meira, sem reynast nú vera 690 milljónir, var það auðvitað svo að við ætluðum ekkert að skera neitt sérstaklega við nögl fjármunina sem færu í Hafrannsóknastofnun, hafrannsóknir. Við vorum að tala um að það yrðu þá a.m.k. fyrir fram merktar 200 milljónir til hafrannsókna. Ég held að þeir sem eru í þessum sal og hafa verið að ræða þessi sjávarútvegsmál geri sér allir grein fyrir að sérstaklega við núverandi breytileika í hafsvæðunum við Ísland er afar nauðsynlegt að efla hafrannsóknir. Við þurfum að fá viðbótarvitneskju sem því miður tapaðist út frá breyttu útgerðarmynstri og við erum ekki lengur með samanburðarhæfar rannsóknir varðandi seiðamagn og seiðafjölda í hafinu umhverfis Ísland. Síðan er það eins og ég sagði áður breytilegt hitafar sem veldur því að ungviðið dvelur lengur á grunnslóðum en áður var og menn þurfa auðvitað að fá af því mynd hvaða áhrif núverandi hlýsjór hefur á hegðun þorskungviðis og ýsuungviðis hér við land.

Þetta verkefni hefði verið mjög upplagt að fara í, hæstv. forseti, sérstaklega í ljósi þess að hafrannsóknaskipin okkar eru nú ekki meira nýtt en rétt rúma fimm mánuði á ári, eins og ég sagði áðan, og væri full ástæða til að finna þeim meiri verkefni og beini ég því sérstaklega til hæstv. sjávarútvegsráðherra burt séð frá þessu máli að huga þarf vel að því hvort við getum ekki nýtt þessi dýru tæki okkar betur en við gerum miðað við núverandi ástand. Að minnsta kosti eru tilefnin nóg í breyttu lífríki. Okkur hefur ekki tekist að fylgja eftir loðnunni á undanförnum árum og fjöldamargar aðrar breytingar eru í hafinu hér við land sem ástæða væri til að fylgja eftir með auknum hafrannsóknum og sérstaklega held ég að væri áhugavert að fá nýtt fólk til að koma að þessum málum með svolítið annað sjónarhorn en Hafrannsóknastofnun hefur bundið sig við. Ég held að mjög áhugavert væri að koma með nýja hugsun og nýtt fólk inn í rannsóknir í hafinu við Ísland, komast inn fyrir kremlarmúra Hafrannsóknastofnunar.