132. löggjafarþing — 50. fundur,  24. jan. 2006.

Verkefnasjóður sjávarútvegsins.

382. mál
[19:12]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Hér er loks komið til umræðu frumvarp sem ég hef verið að bíða eftir í þó nokkuð margar vikur. Ég verð að segja strax í upphafi máls míns að mér líst afskaplega illa á þetta frumvarp. Hér er í raun og veru ekki neitt annað að gerast en það að verið er að fremja rán um hábjartan dag. Verið er að stinga undan peningum sem tilheyra sjávarútveginum og eiga að tilheyra sjávarútveginum, fara með þá peninga inn í ríkissjóð. Þetta eru gríðarlega stórar fjárhæðir, við erum að tala um rúmlega hálfan milljarð kr., fara með þá peninga í ríkissjóð án þess að fyrir hendi sé nokkur trygging fyrir því að þeir peningar muni skila sér aftur inn í sjávarútveginn. Þetta tel ég að séu algjörlega óverjandi vinnubrögð og mjög alvarlegt mál. Ég mun aldrei, aldrei nokkurn tíma samþykkja að þetta verði gert með þessum hætti, svo ég fái því bara lýst yfir strax í upphafi máls míns.

Verkefnasjóður sjávarútvegsins er sjóður sem varð til með lögum sem voru samþykkt á hinu háa Alþingi rétt fyrir jól árið 2003. Í þann sjóð hafa m.a. runnið peningar fyrir afla sem menn hafa fengið að landa, afla sem kallaður var a.m.k. í upphafi Hafró-afli. Þær landanir hafa skilað miklum tekjum. Þetta var m.a. gert til þess að reyna að vinna bug á brottkastsvandanum. Ég hygg að það hafi tekist a.m.k. að einhverju leyti því að peningar hafa streymt í þennan sjóð allt frá því að hann var stofnaður.

Ég var með fyrirspurn til hæstv. sjávarútvegsráðherra, Árna Mathiesens, í fyrra einmitt um þennan sjóð. Ég spurði m.a. um hvenær þessi sjóður hefði tekið til starfa og hverjir hefðu verið í stjórn hans og eins og ég sagði áðan tók sjóðurinn til starfa eftir að lög voru samþykkt hér rétt fyrir jól árið 2003 og tóku gildi um áramótin 2003/2004. Ráðherra skipaði í þennan sjóð þriggja manna stjórn og í ljós kom við þessa fyrirspurn mína að í stjórninni voru allt saman starfsmenn sjávarútvegsráðuneytisins, allt saman embættismenn, þrír starfsmenn, þ.e. ein kona og tveir karlmenn.

Það má alveg segja sem svo að þetta hafi verið gagnrýni vert því í raun og veru þýddi þetta að sjávarútvegsráðherra hafði einn fulla stjórn á sjóðnum og í hvað peningarnir sem runnu í hann fóru síðan. Þetta voru umtalsverðar fjárhæðir. Það kom í ljós við þessa fyrirspurn að það hefði verið lagt hald á ólögmætan sjávarafla vegna fiskveiðiársins 2002–2003, afli alls að upphæð tæplega 27 millj. Síðan höfðu 116 millj. runnið í sjóðinn frá þeim tíma vegna þessa Hafró-afla sem kallaður var. Innstæða í sjóðnum var því 125 millj. rúmar og var búið að úthluta megninu af þeim peningum í ýmis verkefni á vegum Fiskistofu og Hafrannsóknastofnunar. Við getum t.d. talað um mælingar á meðalafla við flotvörpuveiðar uppsjávarfisks. Þörungaræktun í sjó og tilkynningaviðmót vegna fjareftirlits. Þetta var allt saman hjá Fiskistofu. Síðan vorum við að tala um eftirlit með fiskeldiskvótum, rannsóknahvalveiðar, kortlagning búsvæða á hafsbotni í hafinu við Ísland, merkingar á karfa með neðansjávarbúnaði, atferli þorsks með sérstöku tilliti til veiðanleika, stofngerð þorsks við Ísland, göngur og útbreiðsla þorsks metnar með GPS-merkjum, fæðuvistfræðileg tengsl dýrasvifs og fiska á Reykjaneshrygg, áhrif svæðafriðana á samfélög botnlægra fiska, áhrif svæðafriðana á samfélög botndýra og merkingar á þorski til að meta áhrif svæðafriðana. Alls runnu 122 millj. og 300 þús. kr. í þessi verkefni.

Ég fæ ekki betur séð en þarna hafi verið unnið að ágætis rannsóknum, að minnsta kosti ef tekið er mið af heitum verkefnanna. Ég sagði hér áðan að það mátti með réttu gagnrýna hvernig stjórn sjóðsins var samansett. Ég hefði gjarnan viljað sjá að sjóðurinn hefði fengið að lifa áfram og að um hann hefði verið skipuð stjórn þar sem t.d. hagsmunaðilar og aðrir hefðu átt sína fulltrúa, og þá er ég að tala um hagsmunaðila í mjög víðum skilningi þess orðs. Ekki bara útvegsmenn og sjómenn heldur jafnvel aðila sem eiga hagsmuna að gæta varðandi framkvæmd rannsókna hérna á Íslandi, aðila frá Hafrannsóknastofnun og líka frá háskólanum, öðrum vísindastofnunum sem stunda haf- og fiskirannsóknir hér við land. Þannig hefðu þessir peningar verið notaðir til hafrannsókna og einnig peningarnir sem runnu í verkefnasjóðinn samkvæmt lögum sem voru samþykkt hér á Alþingi í fyrravor, ef ég man rétt, þegar þróunarsjóðurinn var lagður niður og eignir hans, eða peningarnir sem í honum voru, voru síðan látnir renna inn í Verkefnasjóð sjávarútvegsins. Ég man ekki betur en að þá hafi einmitt þáverandi hæstv. sjávarútvegsráðherra Árni Mathiesen talað hér um það fullum fetum hvað eftir annað að þessir peningar sem hefðu verið í þróunarsjóðnum ættu að fara til hafrannsókna. Um þróunarsjóðinn og örlög hans spunnust mjög miklar umræður hér í fyrra.

Nú sé ég hér á athugasemdum við þetta litla lagafrumvarp hjá hæstv. sjávarútvegsráðherra, þar sem talað er um að 660 millj. kr., hvorki meira né minna, skuli nú renna úr þessum verkefnasjóði yfir í ríkissjóð, að það hafi einmitt verið 689 millj. kr. sem kom úr þróunarsjóði. Þessir peningar hafa verið afhentir þann 1. október sl. Hér er um mjög stórar fjárhæðir að ræða. Ég hefði viljað halda þessum peningum áfram inni í verkefnasjóði. Hvers vegna hefði ég viljað gera það? Jú, vegna þess að ég treysti því hreinlega ekki fyrir næsta húshorn að þessum peningum verði varið til hafrannsókna þó þeim sé núna smellt inn í ríkissjóð. Ég tel að það hefði verið mikið farsælla að halda þessum peningum áfram inni í verkefnasjóði. Frekar hefði átt að breyta reglunum um sjóðinn, búa til breiðari stjórn, jafnvel taka þetta úr höndum sjávarútvegsráðherra þannig að hann hefði ekki beint yfirvald með þessu eins og hann hefur haft fram til þessa. Honum hefur kannski liðið illa yfir því að vera með svona mikið af peningum í Mackintosh-dollu á skrifborðinu hjá sér og kannski viljað losa sig við þá miklu ábyrgð sem fylgir því að hafa svona mikið fé á milli handanna.

Það hefði mátt leysa með öðrum hætti. Ekki láta þessa peninga renna svona beint inn í ríkissjóð og segja síðan í einhverjum athugasemdum með þessu lagafrumvarpi: Að þetta sé allt saman gert með góðum hug og að þessu fé skuli varið til hafrannsókna og að nota eigi peningana til að efla slíkar rannsóknir o.s.frv. Það eigi að hækka fjárveitingar til Hafrannsóknastofnunar um 50 millj. og 100 millj. frá og með fjárlögum ársins 2007. Og síðan skuli að minnsta kosti 25 millj. kr. frá árinu 2006 renna til hafrannsókna á samkeppnisgrundvelli. Ég hefði miklu frekar, eins og ég sagði áðan, viljað halda þessum peningum áfram inni í verkefnasjóðnum en ekki láta þá fara inn í þá miklu hít sem er ríkissjóður og vera síðan kominn upp á það til framtíðar að fjárlaganefnd á hverjum tíma muni standa við að láta þá peninga í hafrannsóknir.

Því miður er það svo, virðulegi forseti, að reynsla okkar af fjárveitingum til hafrannsókna, loforðum stjórnmálamanna um að setja nú aukið fé í hafrannsóknirnar hefur því miður ekki verið mjög á rökum reist og það er engin ástæða til að treysta því að fjárlaganefnd, sem í sitja fulltrúar ýmissa stjórnmálaflokka sem margir hverjir hafa litla innsýn í sjávarútveginn og litla innsýn í hafrannsóknir, muni sýna því mikla samúð eða mikinn skilning ef einhvers staðar þarf að skera niður, að það eigi að auka peninga í hafrannsóknir. Við sjáum bara hvernig staðan er í dag varðandi það fé sem rennur til hafrannsókna á fjárlögum. Það er til háborinnar skammar hve illa gengur t.d. að halda úti rannsóknarskipinu Árna Friðrikssyni og líka Bjarna Sæmundssyni og hvernig hafrannsóknir hafa í raun og veru verið fjársveltar til langs tíma hér á landi. Mörg mikilvæg verkefni eru látin sitja á hakanum og ég tel að það megi færa mörg gild rök fyrir því að þetta komi okkur kannski illilega í koll núna á síðustu og verstu tímum.

Virðulegi forseti. Enn og aftur, höldum þessum peningum frekar inni í Verkefnasjóði sjávarútvegsins. Breytum reglum um hann og sjáum til þess að peningarnir verði notaðir beint til Hafrannsóknastofnunar en opnum þetta líka þannig að aðrir aðilar geti fengið aðild að því að stunda hafrannsóknir hér við land á samkeppnisgrundvelli, ég er mjög fylgjandi því. Ég tel að einn af okkar stóru veikleikum á mörgum undanförnum árum hafi einmitt verið að við höfum nánast látið eins konar vísindakirkju komast á fót við Skúlagötu 4 þar sem menn hafa iðkað eitthvað sem má kalla kenningatrúarbrögð í fiskifræði og hafa ekki viljað hlusta nægilega vel á ýmsar kenningar og hugmyndir sem aðrir hafa komið með eða tillögur sem aðrir koma með um hvernig hlutir skuli rannsakaðir. Þeir sem hafa komið eitthvað nálægt vísindum ættu að vita það — og nú vill svo til að ég hef að minnsta kosti verið svo heppinn að fá að iðka nám í vísindaheimspeki við háskóla erlendis — að eitt af grundvallaratriðum í vísindaheimspeki er einmitt að maður á alltaf að vera tilbúinn til að velta við steinum og athuga hvort að maður hafi rétt fyrir sér. Jafnvel þó að maður telji sig hafa sannanir fyrir því að jörðin sé hnöttótt þá er ekki víst að það sé satt. Það getur alveg verið þess virði að fara út í rannsóknir á því hvort jörðin sé hnöttótt eða kannski flöt.

Það er nefnilega þannig að forsenda framfara í öllum vísindum er sú að menn hafi vilja til að skoða hlutina upp á nýtt og menn hafi vilja til að viðurkenna að þeir hafi kannski haft rangt fyrir sér, að menn séu viljugir til að prófa nýjar kenningar. Þarna tel ég að mjög mikið hafi skort á hjá okkur Íslendingum, því miður, einmitt í þessum hafrannsóknum því slíkar rannsóknir hafa verið svo gegnumsýrðar til að mynda af hagsmunagæslu og jafnvel pólitík. Pólitík og hagsmunagæsla fara því miður ansi oft saman og eins og ég sagði áðan að á það eftir að koma okkur í koll.

En ég tel að til að bregðast við þessu þá sé miklu farsælla að halda þessum peningum áfram í þessum sjóði. Þannig að þeir stjórnmálamenn sem eru að vinna með sjávarútveg á hverjum tíma, t.d. stjórnmálamenn í sjávarútvegsnefnd Alþingis eða þeir sem gegna stöðu sjávarútvegsráðherra á hverjum tíma, geti þá frekar haft meiri stjórn á því hvað yrði um þá peninga en ekki að þeir renni inn í ríkissjóð. Ég er mjög hræddur um ef það gerist, muni þessir peningar fara eitthvað allt annað en í það sem þeim er ætlað sem er að efla sjávarútveg hér á Íslandi með rannsóknum. Þetta eru peningar sem sjávarútvegurinn á. Það er sjávarútvegurinn sem bjó til þennan þróunarsjóð. Það er sjávarútvegurinn sem hefur búið til Verkefnasjóð sjávarútvegsins. Þess vegna finnst mér það með ólíkindum að menn séu reiðubúnir að fallast á að þessir peningar séu hirtir af sjávarútveginum og settir inn í ríkissjóð. Ég á mjög bágt með að trúa því að t.d. hagsmunaaðilar í sjávarútvegi hér á Íslandi muni hreinlega fallast á þetta. Því þeir eiga þessa peninga með réttu og fyrir því er hægt að færa mjög góð rök. Þeir hafa aflað þessa fjár. Hvernig í ósköpunum dettur mönnum þá í hug að taka þessa peninga og fara með þá inn í ríkissjóð? Ég átta mig ekki á því hvað hér er á ferðinni. Er það svo að ríkissjóður sé svo blankur að hann þurfi að taka 660 millj. kr. að láni hjá sjávarútveginum? Og greiða þær síðan til baka með 50 millj. kr. afborgunum eða hvað það er nú sem menn setja hér fram í athugasemdum við lagafrumvarpi? Hér er talað um að ríkissjóður skili svo miklum hagnaði á hverju ári að menn hafa aldrei séð þvílík reiðinnar býsn í sögu þjóðarinnar. Ég fæ ekki séð að það sé fjárskortur hjá hinu opinbera sem geri það að verkum að koma þurfi þessum peningum í umferð. Ég á að minnsta kosti erfitt með að sjá það. Þannig að ég í raun og veru skil ekki alveg hvað það er sem vakir fyrir mönnum með þessu.

Nú missti ég hér af upphafi umræðunnar, ég vil að það komi fram. Ég var upptekinn, þurfti að skjótast austur á Selfoss í útvarpsviðtal og heyrði því ekki hvað fór hér fram áður en ég kom í salinn. En það má vel vera að hæstv. sjávarútvegsráðherra hafi gefið skýringar á því hvað vakir fyrir honum með þessu. Ég veit það ekki. En ef það er svo að hæstv. sjávarútvegsráðherra hafi verið að missa svefn yfir því að þurfa að standa undir þeirri þungu ábyrgð að halda utan um þennan verkefnasjóð, sem stýrt hefur verið að minnsta kosti að nafninu til af þremur af undirmönnum hans, þá er það ekkert vandamál fyrir aðra, t.d. okkur í stjórnarandstöðunni, að setjast í stjórn Verkefnasjóðs sjávarútvegsins og taka á okkur þá ábyrgð að stýra flæði peninga úr þeim sjóði. Það er til nóg af verkefnum. Guð minn almáttugur, alveg nóg. Ég get strax talið upp þó nokkur verkefni sem væru alveg þess virði að setja þessa peninga í, t.d. loðnurannsóknir. Ekki veitir nú af að setja peninga í þær. Þar hefur nú gengið nógu illa að undanförnu. Það mætti líka rannsaka fæðunám þorsks. Það mætti líka setja meiri fé í að rannsaka hrygningar þorsks og afkomu seiða þorsksins. Þar stöndum við frammi fyrir mikilli gátu. Hvernig í ósköpunum stendur á því að nýliðun þorsksins hefur brugðist í svona mörg ár? Í svo mörg ár að ég vil leyfa mér að fullyrða að ef hér verður ekki kraftaverk, komi Grænlandsganga eða eitthvað annað þess háttar, þá stefnum við í að þorskveiðar hér við land nálgist óðfluga 100 þús. tonn á ári, innan örfárra ára. Þetta er því miður það sem stefnir í vegna þess að okkur hefur mistekist uppbygging fiskstofnanna á Íslandsmiðum. Það blasir við ef maður les þessa bók, Hafrannsóknastofnun, fjölrit nr. 121, nýjasta ástandsskýrsla frá Hafrannsóknastofnun, sem kom út nú í vor. Þá er staðan því miður langt frá því að vera glæsileg. Við hljótum að hafa verið að gera eitthvað rangt. Þetta hef ég sagt í mörg ár. En menn hafa því miður ekki viljað hlusta. Menn hafa ekki verið reiðubúnir til að hugsa dæmin upp á nýtt. Þeir hafa komið saman og haldið ráðstefnur og kallað til einhverja sérfræðinga sem margir hverjir hafa komið frá útlöndum. En menn hafa í raun og veru ekki fundið upp á því að gera nokkurn skapaðan hlut öðruvísi en það sem þeir hafa gert mörg undanfarin ár, því miður með alveg hræðilega slæmum, lélegum og litlum árangri.

Eins og ég sagði hér áðan þá er full þörf á því að auka hafrannsóknir. Ég skal alveg taka undir það. Það er full þörf á því að auka samkeppni í hafrannsóknum, fá inn nýja aðila, nýja hugsun. Ég skal líka taka undir það og ég skal líka gjarnan taka þátt í því starfi. En ég tel að það sé ekki rétta leiðin að hirða þessa peninga af sjávarútveginum og hlaupa með þá inn í ríkissjóð. Eins og ég sagði í upphafi máls míns þá er það ekkert annað en rán.