132. löggjafarþing — 50. fundur,  24. jan. 2006.

Verkefnasjóður sjávarútvegsins.

382. mál
[19:29]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta mál sem nú fer til sjávarútvegsnefndar. Ég vil þó halda til haga þeirri skoðun minni á sjóðum sem þessum að ég tel að þeir eigi almennt ekki að vera til. Við höfum ríkissjóð og innheimtur, sektargreiðslur eða aðrar slíkar greiðslur sem koma til eiga almennt að renna í hann. Að búa til svona sérstakt fjárlagadæmi í einstökum ráðuneytum er stjórnsýslulega afar hæpið. Fjárlaganefnd og Alþingi ráðstafa fé, a.m.k. að meginþorra til A-hluta ríkisstofnana eins og Hafrannsóknastofnun og fleiri eru. Það er því mjög varhugavert að hafa einhverja sjálfstæða sjóði í sama ráðuneyti og viðkomandi A-hlutastofnanir heyra undir og er að mínu viti stjórnsýslulega ekki rétt.

Við getum ímyndað okkur að ef sama væri uppi hjá dómsmálaráðuneytinu, ef hraðaksturssektirnar sem einhverjir okkar geta lent í eða aðrar umferðarsektir ættu að renna í einhvern sérstakan sjóð hjá dómsmálaráðuneytinu eins og, sem vel væri hægt að hugsa sér, til öryggismála í umferðinni, þá værum við komin með bein stjórnsýsluverkefni sem við eigum fyrst og fremst að setja okkur pólitísk markmið um og veita fjármagn til þeirra úr ríkissjóði eins og að meginþorra í starfsemi hafrannsókna. Þetta eiga að vera pólitískar ákvarðanir sem við viljum gera og verjum fjármagni til óháð því hve mikið kemur inn vegna sekta af ólögmætum sjávarafla eða tekjum af svonefndum 5% afla. Slíkt á ekki endilega að ráða þeim meginmarkmiðum sem við höfum í hafrannsóknum. Þess vegna geld ég, frú forseti, varhuga við þessu, þetta fer að mínu viti á svig við stjórnsýslulög og gæti líka farið á svig við lög um fjárreiður ríkisins o.s.frv.

Annars tek ég bara undir nauðsyn þess að það komi aukið fjármagn til hafrannsóknaskipanna eða hafrannsókna og rannsókna á öllu er lýtur að veiðum og lífríki hafsins. Það má sjálfsagt alltaf ræða um hvort þær rannsóknir þurfi að vera markvissari og taka meira tillit til annarra þátta en hinna, ekki skal dregið úr þeim sjónarmiðum sem þar koma fram eða að þau eigi ekki rétt á sér. Ég deili alveg þeim áherslum. Hins vegar tel ég að opna ætti á víðtækari aðgang annarra að þessu fjármagni.

Ég hef verið mjög hrifinn af því að á heimaslóð, í hverju héraði, á hverju svæði, t.d. Húnaflóasvæðinu, Skagafjarðarsvæðinu eða Breiðafjarðarsvæðinu, væri staðbundin rannsókna- og eftirlitsstöð á lífríkinu, á umgengninni um auðlindir viðkomandi grunnsævis, veiðar og annað því um líkt, sem væri þar í nánu samstarfi við einstaka hagsmunaaðila sem umgengjust þær. Við höfum reynslu af þessu í landbúnaðinum, þar voru búnaðar- og ræktunarsambandsskrifstofur á hverju landsvæði sem áttu ákveðna félagslega samleið. Ég tel að sama ættum við líka að gera varðandi sjávarútveginn og sjávarrannsóknirnar, að á strandsvæðunum sem liggja að viðkomandi landi og mynda þar eina umgengnis- og nýtingarheild ættum við að vera með staðbundnar rannsókna- og eftirlitsstöðvar sem störfuðu á forsendum heimamanna eins og búnaðar- og ræktunarsamböndin. Þarna gildir nákvæmlega sama lögmál, að fólkið sem býr við auðlindina, býr við lífríkið veit og fylgist oft best með því sem er að gerast, a.m.k. væri alveg sjálfsagt að starfa með því og nýta þekkingu þess, enda verður hún ekki nýtt nema í samstarfi og af því fólki sem gerir það á hverjum tíma og þess vegna væri þetta góð tilhögun. Ég tel að jafnmiðstýrð starfsemi og er hjá Hafrannsóknastofnun, hversu góð sem hún er, hái óskaplega starfi hennar og hlutverki vítt og breitt um landið.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég vildi bara koma þessum almennu atriðum að varðandi stöðu svona sjóða innan einstakra ráðuneyta og starfshætti rannsókna- og ráðgjafarstofnunar eins Hafrannsóknastofnunin er, sem ég tel að mættu á margan hátt vera betri án þess þó endilega að koma með beina gagnrýni á það sem nú er gert.