132. löggjafarþing — 50. fundur,  24. jan. 2006.

Verkefnasjóður sjávarútvegsins.

382. mál
[19:35]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Þessi umræða hefur farið nokkuð víða eins og eðlilegt er þegar um er að ræða frumvarp af þeim toga sem við ræðum hér í dag. Það sem komið hefur fram í þessari umræðu og kemur út af fyrir sig ekki neinum á óvart er að hér hafa þingmenn almennt verið þeirrar skoðunar að meira fjármagn þyrfti til Hafrannsóknastofnunar. Það er ekkert nýtt. Við höfum heyrt þetta ár eftir ár og menn hafa hvatt til þess að við legðum meiri peninga til Hafrannsóknastofnunar, vegna þess að menn sjá að við nýtum ekki rannsóknartækin okkar eins og þörf væri á og fullt tilefni væri til. Við erum með öflug hafrannsóknaskip sem við höfum því miður ekki getað haldið úti með þeim hætti sem hefðum kosið. Menn hafa sagt þetta ár eftir ár eftir ár, menn hafa talað um þetta við fjárlagagerð og af alls konar tilefni þegar við höfum rætt sjávarútvegsmálin. Ég lít þannig á að í raun og veru vaki það sama fyrir hv. þingmönnum. Menn telja að við þurfum að setja meiri fjármuni til Hafrannsóknastofnunar jafnvel þó að menn kunni að hafa ýmislegt út á þá stofnun að setja og þá aðferðafræði sem þar er viðhöfð. Ég held að mönnum sé það alveg ljóst, og það hefur greinilega komið fram hér hjá langflestum þingmönnum, ekki þó öllum, að menn telja að setja þurfi fastara land undir fætur stofnunarinnar þannig að menn viti betur í upphafi ársins hvað þeir geta gert og að menn geti gert meira en þeir hafa verið að gera.

Það er nákvæmlega þetta sem vakir fyrir mér með þessu frumvarpi. Frumvarpið gengur út á að taka tiltekna fjármuni sem áður var ætlað að færu í Verkefnasjóð sjávarútvegsins og setja þá í ríkissjóð um leið og tekin verður um það pólitísk ákvörðun, sem er auðvitað skuldbindandi fyrir viðkomandi ríkisstjórn og Alþingi hefur síðasta orðið um, að setja aukið fjármagn til starfsemi Hafrannsóknastofnunar.

Nú hafa menn talað þannig að hægt sé að gera þetta með öðrum hætti, að fara megi með alla þessa peninga í gegnum Verkefnasjóð sjávarútvegsins. Hv. þm. Jón Gunnarsson talaði um að það væri algjör óþarfi að binda einhvern hluta af þessum fjármunum Hafrannsóknastofnun beint, hún ætti að sækja í þessa peninga alveg eins og allir aðrir.

Ég er ekki sammála þessari nálgun hv. þingmanns, einfaldlega vegna þess að grundvallarstofnun okkar á sviði hafrannsókna verður að vita betur en nú er hvernig möguleikum hennar til að stunda hafrannsóknir er varið. Við höfum verið að setja á stofn samkeppnissjóði á sviði rannsókna og þróunarmála víða í þjóðfélaginu og það er eðlilegt og skynsamlegt. En við höfum jafnframt gert það þannig að við höfum tryggt að allar slíkar stofnanir, stofnanir á borð við Hafrannsóknastofnun, aðrar vísinda- og rannsóknastofnanir, hafi líka fast ákveðið fjármagn. Það er augljóst mál að þannig þarf það að vera að einhverju leyti og þannig þarf það að vera að verulegu leyti í tilviki Hafrannsóknastofnunar. Hafrannsóknastofnun þarf að vera þannig í stakk búin að hún geti stundað grundvallarrannsóknir eins og við viljum að hér séu gerðar, hvort heldur það er að auka loðnurannsóknir, eins og hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson sagði og ég er alveg sammála honum um, eða rannsóknir á sviði veiðarfæratækni, eins og hv. þm. Jóhann Ársælsson sagði og ég er sammála honum um og hef lagt áherslu á. Og eitt af því sem verið er að gera núna á vettvangi Hafrannsóknastofnunar er að auka vægi veiðarfærarannsókna með því að efla útibú þeirra á Ísafirði sérstaklega á þessu sviði.

Það sem hins vegar er verið að gera hérna er að eyrnamerkja tiltölulega litla upphæð í upphafi, en það er jafnframt alveg augljóst af því sem má lesa hér er að verið er að opna á nýtt aðgengi að peningum til samkeppnisrannsókna á sviði hafrannsókna. Menn hafa verið að vísa til Verkefnasjóðs sjávarútvegsins. Hér er ég með yfirlit yfir verkefnin sem fóru úr honum á síðasta ári og þau verkefni eru öll á vettvangi þriggja ríkisstofnana, að langmestu leyti Hafrannsóknastofnunar, síðan Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins og loks Fiskistofu. Það sem verið er að leggja til er að opna á leiðir fyrir nýja aðila til að stunda hafrannsóknir. Mér heyrist að það sé almennur stuðningur við þá skoðun mína að hafrannsóknir þurfi að stunda víðar og hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson vísaði í vel þekkt sjónarmið vísindaheimspekinnar í þessum efnum, að menn þurfi að nálgast sannleikann úr sem flestum áttum. Ég held að við séum ekki ósammála um það.

Það skiptir hins vegar miklu máli að við skiljum ekki eftir okkar eigin stofnun, Hafrannsóknastofnun, á einhverjum berangri. Við þurfum auðvitað að tryggja henni aukið fjármagn og það er verið að gera. Ég hlustaði á ræður hv. þingmanna áðan og það blasti algjörlega við og það stóð bókstaflega upp úr hverjum manni að auka þyrfti fjármuni til stofnunarinnar, ekki bara til hafrannsókna almennt heldur til Hafrannsóknastofnunar, vegna þess að menn lögðu til að hún færi í aukin verkefni frá því sem núna er. Það er alveg ljóst að forsendan fyrir því að hægt væri að opna á þær samkeppnisrannsóknir sem ég er að tala um var að við byggðum betri fjárhagslegan grundvöll undir Hafrannsóknastofnun.

Að mínu mati var það hreint leikrit hjá hv. þm. Jóni Gunnarssyni þegar hann talaði í þá veru að menn gætu skilið við þetta mál án þess að taka á þeim vanda sem Hafrannsóknastofnun hefur staðið frammi fyrir. Ég vek athygli á því að hann og flokksbræður hans hafa haldið hér ótal margar ræður og gríðarlega langar ræður ár eftir ár um að Hafrannsóknastofnun þyrfti meiri peninga og nú þegar það er að gerast talar hv. þingmaður þannig að hann ætlar að skilja hér eftir svart gap, hann lætur eins og ekkert hafi gerst, hann lætur eins og ekkert sé varðandi Hafrannsóknastofnun. Eða ber manni að skilja það svo að hann telji að búa eigi til eitthvert pólitískt samkomulag um að Hafrannsóknastofnun fái peninga úr verkefnasjóði, að einhverri hlutdeild til að standa undir þeim auknu verkefnum sem hann sjálfur hefur talað um að þyrfti að framkvæma?

Hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson spurði hvort ekki væri skynsamlegra og betra að eyrnamerkja þessa peninga, að hafa þessa peninga inni í verkefnasjóði. Ég flutti fyrir því rök í ræðu minni í upphafi dagsins að eðlilegra væri að gera þetta þannig að þessir peningar færu í gegnum ríkissjóð. Auðvitað getur meiri hluti Alþingis hverju sinni breytt þessum ákvörðunum eins og meiri hluti Alþingis gæti líka breytt ákvörðunum varðandi Verkefnasjóð sjávarútvegsins, það er út af fyrir sig enginn eðlismunur. Hins vegar er miklu eðlilegra þegar um það er að ræða að festa varanlega í sessi betri fjárhagsgrundvöll stofnunar á borð við Hafrannsóknastofnun að það sé gert þannig að hinn fjárhagslegi rammi stofnunarinnar sé stækkaður, eins og við gerum við aðrar stofnanir samfélagsins sem verið er að fjármagna með samfélagslegum hætti, og eins og gerum nú með Hafrannsóknastofnun. Það er eðlilegra og miklu þingræðislegra að mínu mati að við gerum það þannig að við setjum peninga af fjárlögum í Hafrannsóknastofnun og eyrnamerkjum síðan peninga til samkeppnisrannsóknanna með öðrum hætti. Það er ekkert sem útilokar að þessir peningar verði meiri en 25 milljónir. Þvert á móti er sett gólf og sagt að upphæðin verði ekki minni en 25 milljónir. Ástæðan er sú, eins og ég nefndi áðan, að við vitum auðvitað ekki nákvæmlega hver eftirspurnin verður með góðum verkefnum. Því vildi ég ekki hafa þessa tölu mjög háa í upphafi en auðvitað sjá það allir á umræðunni og hvernig málið er lagt upp að fyrir mér vakir að reyna að efla einmitt þennan samkeppnisrannsóknaþátt. Við höfum ágæta reynslu af því, m.a. á vettvangi sjávarútvegsráðuneytisins, að vera með samkeppnisrannsóknir á öðrum sviðum sem hefur skilað prýðilegum árangri. Hafrannsóknastofnun hefur sótt þangað, fyrirtækin hafa sótt þangað sem og vísindasamfélagið. Við höfum samkeppnisrannsóknasjóði á öðrum sviðum, rannsóknar- og tæknisjóði sem menn sækja í, og alls staðar er sama forsendan að menn verði að leggja með sér fjármuni á móti til að fá sem mest út úr þessu og það er eðli samkeppnisrannsókna í sjálfu sér að menn geri það.

Virðulegi forseti. Ég ætlaði ekki að hafa mörg orð um þetta, þetta er almenn umræða um þessi mál. Mér finnst einhvern veginn að þrátt fyrir allt séu menn sammála um tvennt. Menn eru sammála um að Hafrannsóknastofnun þurfi meiri fjármuni. Það las ég út úr flestum ræðunum sem fluttar voru áðan. Í annan stað er mikill vilji til þess að efla samkeppnisrannsóknir. Ég tel að með þessari aðferð sé verið að opna á þá möguleika enn frekar. Það var ekki gert á árinu 2005, það er verið að opna á það á árinu 2006. Það er gert með þessari aðferðafræði. Það getur vel verið að menn vilji fara hraðar í þessum efnum eða einhverjir hægar. Þetta er sú tillaga sem fyrir liggur og menn taka afstöðu til.