132. löggjafarþing — 50. fundur,  24. jan. 2006.

Verkefnasjóður sjávarútvegsins.

382. mál
[19:47]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi hæstv. ráðherra er ekki sár yfir þessu máli nema síður sé vegna þess einfaldlega að þetta er mál sem er mjög í anda þess sem ég hef verið að tala fyrir árum saman. Það sem ég lagði strax áherslu á þegar ég settist í stól sjávarútvegsráðherra var tvennt, þ.e. ég teldi mjög mikilvægt að reyna að efla stoðir Hafrannsóknastofnunar með öllum tiltækum ráðum og í annan stað að opna á rannsóknir fleiri aðila. Allir þeir sem hafa farið yfir ummæli mín, viðtöl og ræður sem ég flutti á þeim tíma vita að þannig talaði ég.

Þess vegna var mjög eðlilegt að ég legði á það áherslu þegar ég kom í ráðuneytið að hraða vinnu við mál af þessum toga sem ég hafði mjög mikinn áhuga á. Ég hef áhuga á að efla hafrannsóknir. Ég sé það eins og aðrir að ekki er vansalaust að við skulum ekki geta haldið úti hafrannsóknaskipunum okkar betur en við höfum gert. Við þurfum á því að halda, ekki síst vegna þeirra umhverfisbreytinga sem hafa átt sér stað og eru að eiga sér stað og eru m.a. að hafa áhrif á göngur fiskstofna, eins og hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson vakti alveg réttilega athygli á áðan. Þess vegna er mjög mikilvægt að við stöndum vel að þessu, bæði að efla grunnrannsóknir með því að setja fasta fjármuni til Hafrannsóknastofnunar, ekki bara fjármuni til einhverra ára meðan við værum að eyða afrakstrinum af þróunarsjóðnum, heldur ekki síður með því móti að setja varanlega peninga inn í þessa stofnun með því að stækka hinn fjárhagslega ramma.

Eins og hv. þingmaður veit, sem er reyndur fjárlaganefndarmaður, vinnum við samkvæmt rammafjárlögum, við búum til ákveðinn fjárhagslegan ramma fyrir þessar stofnanir. Við fyllum síðan inn í þann ramma á grundvelli þeirra verkefna sem þar er um að ræða. Þess vegna skiptir það mjög miklu máli fyrir framgang Hafrannsóknastofnunarinnar að við getum stækkað þennan ramma og þetta var leið til þess, peningar sem við gátum sett varanlega inn í þennan ramma og stækkað hann.

Síðan var það hitt til viðbótar sem ég benti hér á (Forseti hringir.) að þetta gaf síðan færi til þess að opna á samkeppnisrannsóknir.