132. löggjafarþing — 51. fundur,  25. jan. 2006.

Styrkir til erlendra doktorsnema.

186. mál
[12:16]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Það er gott að við ræðum þetta mikilvæga mál hér en ég komst ekki hjá því að sakna ákveðinna orða úr ræðu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar en það er Vísinda- og tækniráð og þar fer meginstefnumótun varðandi vísinda-, tækni- og rannsóknarmál hér á landi. Það er þar sem málin eru í ákveðnum farvegi og þess vegna hef ég hlutast til um endurskoðun á hlutverki sjóðsins, þ.e. Rannsóknarnámssjóði, sem taki tillit til þessara atriða sem við erum þó sammála um, ég og hv. þingmaður, að endurskoðun á hlutverki sjóðsins verði hluti af stefnumótun Vísinda- og tækniráðs fyrir árin 2007–2009. Að þessu er verið að huga og verið að vinna, þannig að það komi alveg skýrt í ljós, hv. þm. doktor Össur Skarphéðinsson.

En ég fagna því engu að síður og er fegin að heyra að við deilum að mörgu leyti svipuðum sjónarmiðum. Við eigum að laða fólk að, halda áfram að laða fólk að til doktorsnáms, ekki bara erlendis. Ég er líka alveg sammála hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni þegar hann kom inn á áðan hversu mikilvægt er að við höfum doktorsnema bæði hér heima og erlendis. Það skiptir máli að við öðlumst þá þekkingu og menningu sem fylgir því þegar fólk hefur búið erlendis og kemur hingað heim. Það skiptir miklu máli fyrir okkar fjölbreytta samfélag. En í það heila tekið þá hefur verið unnið gríðarlega mikið starf varðandi það að fjölga meistara- og doktorsnemum og við munum sjá fram á mikla fjölgun, bæði erlendis og hér heima varðandi doktorsnema á hinum ýmsu sviðum sem við Íslendingar erum stoltir af.