132. löggjafarþing — 51. fundur,  25. jan. 2006.

Auglýsingar kringum barnatíma í sjónvarpi.

294. mál
[12:21]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Samkvæmt 26. gr. útvarpslaga, nr. 53/2000, ber auglýsandi ábyrgð á auglýsingu og sjónvarpsstjóri ber ábyrgð á öðru efni en sjónvarpsstöðin sjálf ber ábyrgð á greiðslu fésekta og skaðabóta.

Í 20. gr. útvarpslaga er kveðið á um vernd barna gegn ótilhlýðilegum auglýsingum. Þar segir að útvarpsauglýsingar skuli vera þannig gerðar og fluttar að þær valdi ekki börnum siðferðilegum eða líkamlegum skaða. Í auglýsingum er óleyfilegt að hvetja börn til að kaupa vöru eða þjónustu með því að notfæra sér reynsluleysi þeirra eða trúgirni. Einnig er óheimilt til að hvetja börn til þess að telja foreldra sína eða aðra á að kaupa vöru eða þjónustu sem auglýst er, notfæra sér það sérstaka trúnaðartraust sem börn bera til foreldra, kennara eða annars fólks eða sýna börn að tilefnislausu við hættulegar aðstæður.

Það er líka rétt að draga fram 14. gr. útvarpslaga en þar segir að sjónvarpsstöðvum sé óheimilt að senda út dagskrárefni þar á meðal auglýsingar sem gætu haft alvarleg, skaðvænleg áhrif á líkamlegan, andlegan eða siðferðilegan þroska barna.

Lögin, virðulegi forseti, eru að mínu mati skýr og þess vegna hlýt ég að kalla til ábyrgðar auglýsendur, auglýsingastofur og ekki síst fjölmiðlana sjálfa. Þeir starfa samkvæmt útvarpslögum og lögin kveða skýrt á um ábyrgð þeirra gagnvart yngstu kynslóðinni. Samband íslenskra auglýsingastofa hefur sett sér siðareglur um auglýsingar þar sem segir í 13. gr., með leyfi forseta:

„Í auglýsingum skal ekki misnota hina eðlilegu trúgirni barna né reynsluskort yngri kynslóðarinnar og skal þess gætt að auglýsingar raski ekki samlyndi innan fjölskyldunnar. Auglýsingar sem beint er til barna eða unglinga eða eru líklegar til að hafa áhrif á þá aldursflokka skulu ekki innihalda staðhæfingar eða myndir sem gætu skaðað hina yngri geðrænt, siðferðislega eða líkamlega.“ Með þessum siðareglum hefur Samband íslenskra auglýsingastofa sett sér skýrar reglur varðandi auglýsingar og börn og axlað þá ábyrgð sem fylgir áhrifamætti auglýsinga.

Umboðsmaður barna segir að orðum sínum hafi fyrst og fremst verið ætlunin að kalla eftir umræðu um auglýsingar sem beinast að börnum og athuga hvort hægt væri að hnykkja frekar á því að tilteknar greinar setji sér siðareglur í þessu efni eða hvort nauðsyn beri til að fara þá leið sem Norðmenn og Svíar hafa farið, þ.e. að banna alfarið auglýsingarétt í kringum barnatíma í sjónvarpi.

Útvarpsréttarnefnd stendur nú fyrir rannsókn þar sem gerð er úttekt á auglýsingum í sjónvarpi. Þar er kannað sérstaklega hvað er verið að auglýsa og hvenær. Rannsókninni lýkur innan skamms og ættu niðurstöður hennar að draga upp skýra mynd af því hvað er verið að auglýsa í kringum barnatíma í sjónvarpi og hversu mikið er auglýst.

Umboðsmaður barna hyggst á þessu ári standa fyrir ráðstefnu þar sem fjallað verður um vaxandi markaðssetningu gagnvart börnum og unglingum. Gert er ráð fyrir að ráðstefnuna sæki fulltrúar auglýsenda, auglýsingastofa, foreldra og fjölmiðla. Það fer eftir niðurstöðu ráðstefnunnar hvaða leið verður talin ákjósanleg til að bregðast við þeirri hættu sem börnum kann að stafa af auglýsingum sem til þeirra er beint. Ég tel einnig rétt að í þessu samhengi verði litið til rannsóknar útvarpsréttarnefndar og málið síðan metið út frá því.

Frú forseti. Að óbreyttum lögum er fyrst og fremst mikilvægt að efla umræðu og hvetja til þess að allir aðilar skoði vandlega hvað er verið að bera á borð fyrir börnin okkar. Ég tel að við sem samfélag þurfum að skoða vandlega sífellt ágengari markaðssetningu gegn börnum. Þar berum við öll ábyrgð, foreldrar og uppalendur, auglýsendur, auglýsingastofur, fyrirtæki og fjölmiðlar. Við þurfum fyrst og fremst að vekja alla til umhugsunar um hver ábyrgð þeirra er gagnvart yngstu kynslóðinni, gagnvart börnunum okkar og standa vörð um rétt þeirra til að vera og haga sér eins og börn.