132. löggjafarþing — 51. fundur,  25. jan. 2006.

Auglýsingar kringum barnatíma í sjónvarpi.

294. mál
[12:27]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Við erum að ræða afar brýnt mál. Við vitum það öll að ásókn auglýsenda í markhóp barna og unglinga hefur aukist mikið. Við höfum séð áhrif þess í skólum og ekki síst í sjónvarpi. Ég held þess vegna að það væri langeðlilegast að taka mark á umboðsmanni barna og afnema algerlega auglýsingar í kringum barnaefni í sjónvarpi.

Það er eðli auglýsinga að höfða til áhrifagirni til að selja vöru og þess vegna eru allar þessar reglugerðir erfiðar í framkvæmd. Við þekkjum það t.d. frá áfengisauglýsingum. Þær eru í raun og veru bannaðar en samt sem áður tekst auglýsendum að fara á svig við þær og það er allt vaðandi uppi í áfengisauglýsingum í sjónvarpinu. Þess vegna held ég að það væri langeðlilegast að athuga það að banna algerlega auglýsingar í kringum barnaefni.