132. löggjafarþing — 51. fundur,  25. jan. 2006.

Auglýsingar kringum barnatíma í sjónvarpi.

294. mál
[12:30]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir skýr svör við fyrirspurn minni og þann vilja sem kemur fram í máli hennar til að taka á þessu. Ég fagna því að hæstv. menntamálaráðherra kalli úr þessum ræðustól eftir ábyrgð auglýsenda og fjölmiðla í þessu efni því að ég er sammála hæstv. ráðherra að lögin eru mjög skýr í þessu efni en svo virðist vera að þeim sé ekki framfylgt. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort einhvern tíma hafi verið beitt viðurlögum vegna þess að þessi lög og reglugerðir hafi verið brotin, t.d. af útvarpsréttarnefnd vegna þess að það virðast hafa verið ærin tilefni til að beita viðurlögum gagnvart slíku.

Ég fagna því líka að til sérstakrar rannsóknar sé hjá útvarpsréttarnefnd að kanna hvað verið er að auglýsa og hvaða áhrif það getur haft á börn. Þá er væntanlega verið að skoða hvort þessar auglýsingar hafa verið á jaðri þess siðlega og jaðri þess að brjóta lög vegna þess að ég tel afar brýnt að taka á þessu efni. Svíar og Norðmenn eru með ákvæði í sínum lögum þar sem segir annars vegar að auglýsingar sem beinast að börnum yngri en 12 ára séu bannaðar og hins vegar að auglýsingar í kringum barnaefni í sjónvarpi séu bannaðar og ég býst við að það sé til komið af því að lögum eins og við höfum hafi ekki verið framfylgt og því hafi þeir neyðst til að taka upp ákvæði um þetta bann. Ég skil ráðherrann svo að hún sé reiðubúin að beita sér fyrir því að komið verði í veg fyrir slíkar auglýsingar og að hún útiloki þá ekki, ef annað dugar ekki, að sett verði slík bannákvæði eins og Svíar og Norðmenn hafa tekið upp.

Lögð hefur verið fram á Alþingi tillaga frá þingmönnum Samfylkingarinnar um takmörkun auglýsinga á óhollri matvöru og ég held að það sé full ástæða fyrir þingið að skoða í alvöru þá tillögu líka. En ég ítreka þær spurningar sem ég lagði fyrir hæstv. ráðherra um beitingu á viðurlögum og hvort ráðherrann (Forseti hringir.) sé þá reiðubúin að banna auglýsingar ef annað dugar ekki.