132. löggjafarþing — 51. fundur,  25. jan. 2006.

Auglýsingar kringum barnatíma í sjónvarpi.

294. mál
[12:32]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég er þeirrar skoðunar að það síðasta sem grípa eigi til sé að setja boð og bönn í löggjöf en stundum stendur maður frammi fyrir þeim veruleika. Hins vegar vil ég vekja athygli á því að umboðsmaður barna var með þessum athugasemdum á sínum tíma fyrst fremst að kalla eftir þessari mikilvægu umræðu um auglýsingar sem hv. þingmaður tekur hér upp og ég vil sérstaklega þakka fyrir. Umboðsmaður vildi sérstaklega taka á og fá fram umræðu í þjóðfélaginu um það á hvaða leið við værum varðandi auglýsingar gagnvart börnum.

Það er rétt sem komið hefur fram að lögin eru skýr, alveg kristaltær í þessu efni. Siðareglur Sambands íslenskra auglýsingastofa eru líka skýrar að mínu mati. Það er umhugsunarefni fyrir okkur hvort það þjóni einfaldlega tilgangi sínum að setja bannákvæði í lög því eins og hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson kom inn á áðan erum við ekki, samkvæmt lauslegri könnun, með þessar auglýsingar í jafnríkum mæli og þær erlendu stöðvar sem í gegnum greiðari aðgang að erlendum sjónvarpsstöðvum flæða núna inn á heimilin. Þetta eru því ekki íslensku stöðvarnar heldur erlendu stöðvarnar og þar er aðgangur okkar til boða og banna náttúrlega mjög takmarkaður.

Ég vil enn og aftur ítreka það og reyna að höfða til siðferðistilfinninga og -kennda þeirra sem stjórna fjölmiðlunum, fyrirtækjunum, og okkar allra sem að þessu máli koma að fylgjast vel með og vera á varðbergi. En ég útiloka ekki ef til lengri tíma er litið og það sem kemur út úr rannsókninni verður á þann veg að verið er að beina auglýsingum með ósiðlegum hætti að börnum að til kasta þingsins komi.