132. löggjafarþing — 51. fundur,  25. jan. 2006.

Fjármálafræðsla í skólum.

322. mál
[12:35]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Valdimar L. Friðriksson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ber fram fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra um fjármálafræðslu í skólum. Fyrirspurnin hljóðar svo:

1. Í hvaða bekkjum grunnskóla og framhaldsskóla fer fram kennsla í meðferð fjármuna?

2. Hvaða námsefni er kennt og hver eru meginatriði fjármálafræðslunnar?

Ástæða þessarar fyrirspurnar er svar sem mér barst frá hæstv. dómsmálaráðherra í desember sl. um gjaldþrot ungs fólks, 20–30 ára, og um árangurslaus fjárnám hjá ungu fólki á aldrinum 15–30 ára. Svarið við þeirri fyrirspurn var virkilega sláandi og því ástæða fyrir hið háa Alþingi að athuga hvað við getum gert til að efla þekkingu ungs fólks á fjármálum. Ég hafði hugsað mér að koma með þingsályktunartillögu í þessu sambandi en það hefur þegar verið gert eins og ég mun koma að í síðari ræðu minni.

Í svari dómsmálaráðherra eru einungis teknir fyrstu 11 mánuðir ársins 2005 þar sem fyrirspurninni var svarað í desember sl. og því vil ég miða saman árin 2001 og 2004. Á árinu 2001 voru árangurslaus fjárnám ungs fólks frá 15–30 ára 864 en á árinu 2004 voru árangurslaus fjárnám ungs fólks 1.234, þ.e. árangurslaus fjárnám hjá ungu fólki hafa aukist um 42% á fjórum árum. Þetta eru virkilega sláandi tölur, frú forseti, og því ástæða til að bregðast við.

Í lokaverkefni Breka Karlssonar í viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík kemst hann m.a. að þeirri niðurstöðu að fjármálalæsi íslenskra ungmenna sé verulega ábótavant. Könnunin leiðir jafnframt í ljós að flestir unglingar fá upplýsingar um fjármál frá foreldrum. Íslensk ungmenni vilja kennslu og þurfa hana en er hún veitt í skólakerfinu og það nægilega?

Afi hefur eflaust lifað nokkurs konar debet-lífi á sínum tíma en nú á tímum gróðahyggju lifa ungmennin kredit-lífi. Þau eyða áður en þau afla og eru hvött til þess. Þau eyða um efni fram og safna skuldum án þess að gera sér grein fyrir afleiðingunum. Í finnskri rannsókn um norræn ungmenni, þar á meðal Íslendinga, kemur í ljós að þau fá ekki næga fræðslu í fjármálum nema þá helst hjá lánveitendum sjálfum. Eru þeir rétti aðilinn? Ef við viljum koma í veg fyrir að ungt fólk steypi sér í skuldir, lendi í fjárnámi, gjaldþroti eða jafnvel eins og dæmi eru um svipti sig lífi þurfum við að fræða ungmenni um meðferð fjármuna í skólum landsins.