132. löggjafarþing — 51. fundur,  25. jan. 2006.

Fréttaþátturinn Auðlind.

383. mál
[12:48]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég kem upp til að bera fram fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra sem hljóðar svo:

Ætlar Ríkisútvarpið að taka aftur upp útsendingar Auðlindar, fréttaþáttar um sjávarútvegsmál?

Ég hef aðeins orðið þess var að þessi litla og sakleysislega fyrirspurn hafi valdið geðshræringu í ákveðnum kreðsum hér á landi og er það náttúrlega í raun undrunarefni. Hvers vegna spyr ég menntamálaráðherra að þessu? Jú, menntamálaráðherra ber ábyrgð á Ríkisútvarpinu. Hér er um að ræða fréttaþátt sem var hjá útvarpinu í mörg ár og naut gríðarlega mikilla vinsælda. Ég veit það sjálfur. Ég sá oft um þennan þátt þegar ég vann á útvarpinu, fékk oft mjög góð viðbrögð við þeim þætti. Gerðar voru hlustendakannanir og annað þess háttar og þar kom þessi þáttur mjög vel út. Þetta var einn af vinsælustu þáttum Ríkisútvarpsins.

Ríkisútvarpið er útvarp í eigu landsmanna og er á vissan hátt á ábyrgð okkar allra til að mynda hér á Alþingi og ekki síst á ábyrgð hæstv. menntamálaráðherra. Þess vegna ætla ég að spyrja ráðherra þessarar spurningar. Við getum líka vísað í lög um Ríkisútvarpið, lög nr. 122 frá árinu 2000, sem eru í gildi í dag. Þar stendur m.a. í 3. gr., með leyfi forseta:

„Ríkisútvarpið skal leggja rækt við íslenska tungu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð.“

Síðan segir, með leyfi forseta:

„Ríkisútvarpið skal m.a. veita almenna fréttaþjónustu og vera vettvangur fyrir mismunandi skoðanir á þeim málum sem efst eru á baugi hverju sinni eða almenning varða.“

Svo komum við að nýja lagafrumvarpinu sem nú liggur fyrir hinu háa Alþingi og verður væntanlega samþykkt fyrr eða síðar. Þar er sérkafli um hlutverk og skyldur hins nýja Ríkisútvarps hf. Þar er kveðið enn skýrar á um þetta hlutverk útvarpsins. Þar segir í II. kafla, 3. gr., 4. lið, um hlutverk og skyldur Ríkisútvarpsins, með leyfi forseta:

„Að veita almenna fræðslu og gera dagskrárþætti er snerta málefni lands og þjóðar sérstaklega og með þeim hætti tryggja hlutlæga upplýsingagjöf um íslenskt samfélag.“

Síðan segir í 7. lið, með leyfi forseta, að Ríkisútvarpið eigi að „veita víðtæka, áreiðanlega, almenna og hlutlæga fréttaþjónustu um innlend og erlend málefni líðandi stundar og vera vettvangur fyrir mismunandi skoðanir á málum sem efst eru á baugi hverju sinni eða almenning varða.“

Þetta er sem sagt í hinu nýja lagafrumvarpi og er kveðið enn skýrar á um hlutverk og skyldur Ríkisútvarpsins en gert er í rauninni í gömlu lögunum sem eru þó í gildi í dag.

Eins og ég sagði áðan í upphafi máls míns hefur umræddur þáttur verið mjög vinsæll. Hann hefur verið mjög mikilvægur fyrir fólk bæði til sjávar og sveita, ekki síst sjómenn sem búa þó við takmarkaða fréttaþjónustu til að mynda úti á sjó. Í þeim þætti voru oft fluttar fréttir sem voru mjög gagnlegar fyrir þjóðarbúið og fyrir hagkerfið, mikilvægar fréttir t.d. af aflabrögðum, mörkuðum og öðru þess háttar sem snertir sjómenn mjög. Ég veit og fullyrði að þessa þáttar er mjög sárt saknað hjá mjög mörgum.