132. löggjafarþing — 51. fundur,  25. jan. 2006.

Fréttaþátturinn Auðlind.

383. mál
[12:51]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni fyrir að vekja athygli á því að það frumvarp sem hér liggur fyrir hinu háa Alþingi um hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins er mun skýrara, það er mun skarpara. Verið er að undirstrika menningarhlutverk Ríkisútvarpsins og ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa ábendingu og undirstrika það mikilvægi að það frumvarp komist sem fyrst í gegnum þingið.

Ég hef líka skoðun á fréttaþættinum Auðlind. Ég man einmitt þá tíð þegar hv. þingmaður kom með sína ágætu pistla í þann þátt bæði utan frá Noregi sem og héðan að heiman. Þetta var fínn þáttur sem og margir aðrir þættir sem eru á dagskrá Ríkisútvarpsins og hafa verið í gegnum tíðina. En það er líka rétt að undirstrika að menntamálaráðherra skiptir sér ekki af dagskrárstefnu eða einstökum dagskrárliðum Ríkisútvarpsins, það hef ég aldrei gert og mun ekki gera.