132. löggjafarþing — 51. fundur,  25. jan. 2006.

Fréttaþátturinn Auðlind.

383. mál
[12:55]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Já, það er jafnvel eðlilegt að sumum finnist þetta dálítið einkennileg fyrirspurn að ætlast til þess að hæstv. menntamálaráðherra hafi áhrif á einstaka dagskrárliði í útvarpinu. Ég tek undir með öðrum ræðumönnum í dag að Auðlind var góður þáttur og ég ætti sjálfur þá ósk heitasta að hann yrði tekinn upp aftur.

Hins vegar vil ég benda á að þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa lagt fram frumvarp um Ríkisútvarpið og í því frumvarpi er gert ráð fyrir dagskrárráði, útvarpsráð verði fellt niður en dagskrárráð með fjölbreyttu fólki taki við, þar á meðal fulltrúum neytenda, kjörinna fulltrúa. Þetta væri auðvitað tilvalið efni fyrir slíkt dagskrárráð að fjalla um. Þess vegna hvet ég þingmenn til að skoða frumvarp okkar mjög vel og greiða því atkvæði.