132. löggjafarþing — 51. fundur,  25. jan. 2006.

Fréttaþátturinn Auðlind.

383. mál
[12:58]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Mér finnst skína í gegn ákveðinn alger grundvallarmisskilningur hjá mörgum þingmönnum á því hvað ég var að spyrja um. Ég var einfaldlega að spyrja hæstv. ráðherra að því hvort Ríkisútvarpið ætli að taka aftur upp útsendingar á þessum fréttaþætti. Ég var ekki að hlutast til um að ráðherrann færi að fyrirskipa Ríkisútvarpinu að gera það. Ég var bara að spyrja hvort Ríkisútvarpið ætli að taka þennan þátt upp á nýjan leik.

Ég var heldur ekki að gera neinar kröfur um að ráðherrann færi að hafa áhrif á efni eða innihald þessa þáttar. Þetta var bara sakleysisleg spurning um hvort stofnunin ætli að taka upp þennan tiltekna fréttaþátt. Ósköp einfalt, mjög saklaus spurning. Sjálfsagt er að hún komi fram í sölum hins háa Alþingis því að okkur ber að veita bæði ráðherrum aðhald og Alþingi ber að nota þessa fyrirspurnatíma til að leita eftir upplýsingum um ýmsa þætti er varða t.d. ríkisstofnanir eins og Ríkisútvarpið. Það er þetta sem vakti fyrir mér.

Þessi þáttur hefur verið mjög vinsæll, það hefur komið fram hér, og hann hefur verið mjög mikilvægur. Það er því alveg eðlilegt og fyllilega réttlætanlegt að spurt sé hvort ekki standi til að taka hann upp aftur. Það er nefnilega þannig að það er mjög gott að vera með svona fréttaþætti úr atvinnulífinu. Ríkisútvarpið ætti að taka það gaumgæfilega til athugunar í raun og veru að vera með fleiri svona þætti, aðra þætti atvinnulífsins, ekki bara sjávarútvegsmál. Hægt væri að búa til mjög góðan þátt um landbúnaðarmál eða samgöngumál, byggingariðnaðinn eða fjármálageirann sem stækkar mjög óðfluga og veitir nú kannski ekki af því að þar sé haldið uppi öflugum fréttaflutningi og jafnvel gagnrýnum fréttaflutningi. (Gripið fram í: En brottkastið?) Brottkastið, talað var um það í Auðlindinni og sem betur fer, enda var líka farið í það að leysa þann vanda, m.a. vegna þeirrar umræðu sem skapaðist í þeim þætti þar sem sjómenn komu fram. Hringt var í sjómenn úti á miðum, talað var við sjómenn ekki bara um þetta heldur svo margt annað. Þetta var einfaldlega gott efni og ég tel að mjög mikilvægt sé einmitt að við þingmenn tökum þátt í að gefa útvarpinu hugmyndir að því hvað þjóðin hugsanlega vill hlusta á. Ég tel að þættir af þessu tagi eigi fullt erindi til þjóðarinnar og að fjölmiðlar, sem margir hverjir kannski vilja ekki umfjöllun um svona mál, séu ekki að sinna skyldu sinni.