132. löggjafarþing — 51. fundur,  25. jan. 2006.

Fréttaþátturinn Auðlind.

383. mál
[13:01]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Þetta hefur verið skemmtileg umræða og ég tek undir með hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni: Það er í lagi að ræða í gegnum þetta fyrirspurnaform dagskrá Ríkisútvarpsins svo lengi sem menn hafa hugfast að menntamálaráðherra hefur ekki og á ekki að hafa heimild til að skipta sér af dagskrárstefnu eða einstökum dagskrárliðum — en það er gott að menn hafi skoðanir á því hvað á að vera í Ríkisútvarpinu. Mér finnst það skipta máli og held að þetta hafi bara verið skemmtileg umræða.

Ég get líka upplýst það hér að ég fæ í viku hverri tölvupóst frá dyggum hlustendum Ríkisútvarpsins um það hvort t.d. óskalög sjúklinga eigi ekki að koma aftur á dagskrá eða góði gamli skonroksþátturinn. Fólk hefur greinilega skoðanir á því hvað eigi að vera í útvarpinu og á öldum ljósvakans.

En það sem mér finnst kannski skipta mestu máli í þessu og mér finnst þessi umræða draga fram er að við þurfum að hafa skýrar reglur, hafa það skýrt í lögum hvaða hlutverki Ríkisútvarpið á að gegna. Hér er frumvarp til umræðu, afskaplega mikilvægt frumvarp sem, eins og hv. þingmaður kom inn á hér áðan, skerpir enn frekar á þeim kröfum sem við getum gert til Ríkisútvarpsins í þá veru að sinna menningarhlutverki, sinna því sem snertir landsins gagn og nauðsynjar — fréttaþátturinn Auðlind gæti t.d. verið þar á meðal.