132. löggjafarþing — 51. fundur,  25. jan. 2006.

Brú yfir Jökulsá á Fjöllum.

335. mál
[13:10]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Brúin yfir Jökulsá á Fjöllum er afar fallegt mannvirki en gamalt og auðvitað barn síns tíma. Það er kominn tími til að þar verði byggð ný og betri brú, ekki aðeins vegna þess að hún þolir ekki ákveðinn þunga heldur sérstaklega vegna þess að hún er mjög mjó. Nokkur dæmi eru um að þurft hefur að flytja nýbyggða sumarbústaði frá Akureyri og austur en þá þurfti að fara stóran krók því ekki er hægt að fara yfir brúna.

Ferðamannastraumur er að aukast mjög á þessu svæði, þjóðgarðurinn í Jökulsárgljúfrum og náttúra þessa svæðis býður upp á það. Það er því afar mikilvægt að framkvæmdum verði hraðað. Það gleður mig að heyra að verið sé að vinna í þessum málum og að á næsta ári megi búast við að hönnun nýrrar brúar verði tilbúin.