132. löggjafarþing — 51. fundur,  25. jan. 2006.

Akstur undir áhrifum fíkniefna.

292. mál
[13:18]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég spyr hæstv. samgönguráðherra:

1. Telur ráðherra þörf á að endurskoða lög og reglur um akstur undir áhrifum fíkniefna og að tekin verði upp svokölluð núllmörk eins og tíðkast sums staðar á Norðurlöndum?

2. Telur ráðherra gildandi lagaákvæði og reglur um brotamörk hvað varðar akstur undir áhrifum fíkniefna vera flókin og kostnaðarsöm í framkvæmd?

Virðulegur forseti. Það hefur tíðkast á sumum Norðurlöndum að hafa svokölluð núllmörk, þ.e. að séu menn undir áhrifum fíkniefna þá er það talið mjög alvarlegt brot strax. Það má ekki mælast aðeins af ólöglegum fíkniefnum í blóði heldur ekkert, ella telst maður brotlegur.

Varðandi áfengi þá hefur verið í lagi að örlítið áfengi mælist í blóði. Maður gerist ekki brotlegur fyrr en það fer upp fyrir ákveðin mörk þannig að það kallast ekki núllmörk. Þetta er sem sagt skilgreiningin á svokölluðum núllmörkum. Það má ekkert mælast í blóði.

Á Íslandi höfum við séð sömu þróun og víða annars staðar, þ.e. að þeim fjölgar, því miður, sem neyta ólöglegra fíkniefna. Það hefur komið fram í tölum frá SÁÁ að kannabisneysla hafi aldrei verið hlutfallslega meiri en um þessar mundir og á undanförnum þremur árum hafi neysla á örvandi vímuefnum aukist verulega. Þar hafa e-pillur, amfetamín og kókaín verið nefnd þannig að ljóst er að ansi stór hópur neytir fíkniefna á Íslandi. Talið er að yfir 700 manns komi inn til SÁÁ á ári hverju vegna ólöglegra fíkniefna.

Nýverið var lagt fram á þinginu, eftir að ég lagði fram þessa fyrirspurn, lagafrumvarp um breytingar á umferðarlögum. Ég tel sérstaka ástæðu til að draga það fram af því að þar kemur fram breyting á 45. gr. laganna. Ef ég skil þá breytingu rétt þá á að taka hér upp núllmörk. Þó átta ég mig ekki alveg á því en það kemur fram — það væri ágætt ef ráðherrann útskýrði það betur — að enginn megi stjórna eða reyna að stjórna vélknúnu ökutæki undir svo miklum áhrifum örvandi eða deyfandi efna að hann geti ekki að mati læknis stjórnað ökutækinu. Þetta mundu ekki kallast núllmörk, læknir þarf að meta áhrifin.

En svo segir, virðulegi forseti: „Ef mælast í blóði ökumanns ólögleg“ — ég undirstrika ólögleg — „ofskynjunarefni eða önnur örvandi eða deyfandi efni samkvæmt lögum um ávana- og fíkniefni telst hann óhæfur til að stjórna ökutæki örugglega.“ — Það er ólöglegt að það mælist og það les ég sem núllmörk. Ég vil fá skýringar á þessu.

Ég vil einnig benda á að nú er víst hægt að setja plástra á ennið á fólki þannig að hægt sé að komast að því hvort það er undir áhrifum fjögurra tegunda ólöglegra fíkniefna. Ég spyr: Mun lögreglan nýta sér þá tækni í framtíðinni, að skella plástri á ennið á fólki til að sjá hvort það er undir áhrifum ólöglegra fíkniefna?