132. löggjafarþing — 51. fundur,  25. jan. 2006.

Lög og reglur um torfæruhjól.

301. mál
[13:30]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég spyr hæstv. samgönguráðherra:

Telur ráðherra þörf á að endurskoða lög og reglur um akstur torfæruhjóla, bæði í keppnum og utan þeirra, með tilliti til vaxandi fjölda þeirra sem aka slíkum hjólum og þess hversu ólíkar reglur gilda annars staðar á Norðurlöndum? Ef svo er, hvenær má vænta þess að endurskoðun hefjist og hvaða aðilar munu koma að henni?

Umferðarstofa, sem er undirstofnun samgönguráðherra, hefur tekið saman afar athyglisvert minnisblað um torfærutæki eða torfærumótorhjól aðallega en það er Brynhildur Georgsdóttir, framkvæmdastjóri ökutækjasviðs, sem það hefur unnið. Ég hef farið í gegnum minnisblaðið og það er geysilega gott þannig að ég ætla að hæla hér embættismönnum Umferðarstofu. Hefur Brynhildur haft mikið samráð við VÍK, Vélhjólaíþróttaklúbb Íslands, en þar eru 600 manns innan borðs og 3.000 torfæruhjól í umferð. Þetta er geysilega stór hópur og mjög öflugur hópur. Hún hefur haft mikið samstarf við þá ásamt fleiri og það kemur fram í þessu minnisblaði en ég ætla að fá að lesa, virðulegi forseti, upp úr niðurstöðunni:

„Af framangreindu virðist ljóst að það er margt sem betur mætti fara í umsýslu torfærutækja. Það er staðreynd að skráningu tækjanna er ábótavant. Mörg tækin eru ótryggð og notkun þeirra er í mörgum tilvikum ólögmæt. Það virðist hins vegar einnig staðreynd að möguleikar eigenda tækjanna á löglegri notkun þeirra séu nær engir. Erfitt reynist að fá hjólin tryggð og fjárhæðir iðgjalda eru oft svo háar að menn telja sig ekki geta staðið undir þeim. Aðeins er heimilt að nota hjólin á afmörkuðum svæðum með leyfi stjórnvalda en aðeins hluti þeirra svæða sem hafa verið byggð upp hafa fengið slík leyfi. Tregða stjórnvalda í leyfisveitingunni virðist að hluta til stafa af tregðu tryggingafélaganna til að tryggja hjólin en einnig kann að skorta á almennar leiðbeiningar um það hvernig skuli standa að leyfisveitingu.“

Eins og kom fram í inngangi minnisblaðsins er þetta ástand óviðunandi fyrir alla sem því tengjast, bæði stjórnvöld sem hafa það hlutverk að framfylgja reglunum, almenningi sem í einhverjum tilvikum verður vís að ólögmætum akstri tækjanna og eigendum tækjanna sem eiga í raun ekki kost á að nota þau með lögmætum hætti.

Með minnisblaði þessu vill Umferðarstofa draga fram mynd af vandamálinu og þeim gildandi reglum er það tengist og hvetja þá sem koma að þessum málum að leita lausna í þeim málum sem að þeim snúa.

Virðulegur forseti. Hér er sagt að mikill vandi sé á ferð og það þarf að leysa hann. Ég hef spurt bæði hæstv. umhverfisráðherra og hæstv. viðskiptaráðherra varðandi svæðin. Það þarf að fjölga svæðunum og skapa miklu betri aðstöðu þar svo þessi hjól væru inni á svæðunum en ekki úti um allar trissur því að mótorhjólamennirnir vilja standa vel að þessu. Einnig þarf að breyta tryggingaverndinni. Í báðum tilvikum tóku ráðherrar vel í málið en ég veit ekki hvað gerist í framhaldinu. Ég vil því spyrja hæstv. samgönguráðherra í ljósi þessa minnisblaðs frá Umferðarstofu hvort ráðherra vilji beita sér í því að greiða úr þeim vanda sem þessir ökumenn eru í.