132. löggjafarþing — 51. fundur,  25. jan. 2006.

Þjónustusamningur við SÁÁ.

293. mál
[13:48]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Fyrir liggur fyrirspurn frá hv. þm. Helga Hjörvar um þjónustusamninga við SÁÁ. Það hefur dregist töluvert að svara þessari fyrirspurn og okkur hv. fyrirspyrjanda var báðum kunnugt um það af hverju það var. Hins vegar hefur verið unnið að endurnýjun þjónustusamningsins. Eins og kom fram gilti núverandi þjónustusamningur til síðustu áramóta. Það er verið að vinna að endurnýjun samningsins. Stefnt er að því að þeirri vinnu ljúki innan tíðar. Ég er ekki með dagsetningu á því. Það er gert ráð fyrir að þessi nýi samningur byggi á svipuðum forsendum og lágu til grundvallar eldri samnings.

Það hefur verið bætt dálítið í fyrirspurnirnar í ræðu hv. þingmanns. Ég ætla ekki á þessu stigi að semja í ræðustól Alþingis því að þessir samningar eru í gangi. Ég á von á að þeim verði lokið innan tíðar. Varðandi lausung þá var það einmitt þannig að um það bil sem ég kom í heilbrigðisráðuneytið neðan úr fjárlaganefnd lagði ég áherslu á að gerður yrði þjónustusamningur við SÁÁ. Það var enginn þjónustusamningur í gildi og það var bara tilviljunum háð hvað var veitt í þetta þá og þá. Við gerðum þjónustusamning við þá. Ég lagði á það áherslu að það yrði gert til að menn vissu að hverju þeir gengu. Ég held að það hafi aldrei staðið til að menn byggju við þrengri kost en áður. Spurningin er hvernig menn lenda þessu. Ég þori ekki að segja um það eins og er en það verður á svipuðum forsendum og eldri samningur. Ég reikna með að ef okkur vanti heimildir leitum við til fjárlaganefndar á einhverju stigi í því. En samningurinn verður vafalaust undirritaður eins og aðrir slíkir með fyrirvara um samþykki fjárlaganefndar og Alþingis. Ég reikna með að við ljúkum þessu.

Ég vil segja, þó það sé kannski til hliðar við fyrirspurnina, af því að það er undrast á að þetta hafi dregist, að þjónustusamningar taka yfirleitt mjög langan tíma og mannafla í ráðuneytinu. Við vildum gjarnan ljúka þeim á styttri tíma. En eðli málsins samkvæmt eru þjónustusamningar stundum flóknir. Ég á ekki við þennan neitt frekar. En við þyrftum auðvitað á því að halda að hafa meiri mannafla og kraft í að gera þjónustusamninga og gera e.t.v. fleiri þjónustusamninga en við erum með í gangi núna.