132. löggjafarþing — 51. fundur,  25. jan. 2006.

Þjónustusamningur við SÁÁ.

293. mál
[13:52]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrirspyrjanda fyrir að bera þetta mál upp. Ég verð að viðurkenna að mér finnst afskaplega dapurlegt ef skortur á mannafla í ráðuneytinu tefur slíkan þjónustusamning. SÁÁ er, eins og fólk veit, að sinna — hvað eigum við að segja — lífsnauðsynlegu máli. Þeir sem þekkja til alkóhólisma vita hvernig hann getur gjörsamlega rifið niður heilu fjölskyldurnar. Þeir sem hins vegar geta nýtt sér þjónustu SÁÁ koma yfirleitt út betri menn. Ég skora á ráðherra að drífa í þessu máli. Hæstv. forsætisráðherra sagði eitt sinn að hæstv. heilbrigðisráðherra Jón Kristjánsson væri góður maður. Það er rétt. Enginn efast um það nú frekar en áður. En það ríður mikið á að stofnun eins og þessi, sem sinnir lífsnauðsynlegum málum fyrir bæði einstaklinga og heilu fjölskyldurnar, viti að hverju hún gengur og að þjónustusamningar liggi fyrir áður en árið hefst, eins og 2006.