132. löggjafarþing — 51. fundur,  25. jan. 2006.

Laun og kjör stjórnarmanna og æðstu stjórnenda.

425. mál
[14:03]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Fyrirspurn sem ég beini til ráðherra snýr að reglum varðandi upplýsingagjöf um launakjör stjórnenda og stjórnarmanna hjá lífeyrissjóðum, lánastofnunum og fyrirtækjum. Í leiðbeinandi reglum sem Fjármálaeftirlitið gefur út er ekki gert ráð fyrir að gefa þurfi upp starfslokasamninga og þar sem við á kaupréttarsamninga með líkum hætti og nú er í reglum kauphallarinnar og spyr ég hvort ráðherra hyggist beina tilmælum til Fjármálaeftirlits um að það verði gert. Ég sé ekki neina ástæðu til þess að ekki ríki sama gegnsæi um launakjör stjórnenda lífeyrissjóða, sparisjóða og annarra lánafyrirtækja og ríkir um skráð fyrirtæki í Kauphöllinni sem eru m.a. bankarnir.

Síðari spurning mín lýtur að tryggingafélögum en að því er ég best veit eru ekki til neinar reglur um upplýsingagjöf í ársreikningum tryggingafélaganna varðandi laun og önnur launakjör stjórnenda og stjórnarmanna, þar með talið lífeyrisréttindi og starfslokasamningar á grundvelli 5. mgr. 44. gr. laga um vátryggingastarfsemi líkt og nú er í reglum Kauphallarinnar. Því spyr ég hvort ráðherra muni beita sér fyrir að slíkar reglur verði settar um upplýsingagjöf í ársreikningum tryggingafélaganna en eftir þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér sé það verk viðskiptaráðherra að setja slíkar reglur en ekki Fjármálaeftirlitsins.

Ég held, virðulegi forseti, að það sé full ástæða til að stjórnvöld og löggjafarþing setji lög og reglur sem þarf til að öll launakjör, starfslokasamningar, kaupréttarsamningar og hlunnindi sem topparnir í samfélaginu hafa séu sýnileg og a.m.k. hluthöfum sé búin aðstaða til að hafa eftirlit með þeim ofurkjörum og stjarnfræðilegu fjárhæðum sem í sívaxandi mæli eru að koma upp á yfirborðið í samfélaginu. Þessi ofurlaun og kjör hafa skapað mikla ólgu í samfélaginu enda hafa þau leitt til mikillar gliðnunar í tekjum og kjörum og svo virðist sem hér sé að spretta upp samfélag ofurríkra einstaklinga, milljarðamæringa sem eru í lífsstíl og kjörum úr öllu samhengi við það sem er að gerast í þjóðfélaginu. Þess vegna er þessi fyrirspurn sett fram og spurt er:

1. Hvort ráðherra telji rétt að í reglum um upplýsingagjöf varðandi laun stjórnenda og stjórnarmanna hjá lífeyrissjóðum og lánastofnunum og fyrirtækjum verði einnig kveðið á um upplýsingagjöf um starfslokasamninga og þar sem við á um kaupréttarsamninga með líkum hætti og nú er í reglum Kauphallarinnar.

2. Hvort ráðherra byggist beita sér fyrir sambærilegum reglum um upplýsingagjöf í ársreikningum tryggingafélaganna.