132. löggjafarþing — 51. fundur,  25. jan. 2006.

Laun og kjör stjórnarmanna og æðstu stjórnenda.

425. mál
[14:05]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ítarleg upplýsingagjöf er einn af hornsteinum hlutabréfamarkaða og þjónar þeim tilgangi fyrst og fremst að gera fjárfestum kleift að meta verðmæti hlutabréfa. Ekki verður komið auga á þörf fyrir slíka ítarlega upplýsingagjöf vegna félaga sem ekki eru skráð á markaði. Í slíkum félögum er hins vegar mikilvægt að eigendur félagsins séu vel upplýstir um allar aðgerðir stjórnar félagsins. Í þessum tilgangi hef ég lagt fram á Alþingi frumvörp um breytingu á hlutafélagalögum og einkahlutafélagalögum þar sem kveðið er á um að í félögum sem ber skylda til að kjósa sér endurskoðanda beri að samþykkja stefnumið varðandi laun og aðrar greiðslur til framkvæmdastjóra og annarra stjórnenda, svo og stjórnarmanna. Stefnumiðin skulu samþykkt á aðalfundi. Þar skulu koma fram grundvallaratriði varðandi starfskjarastefnu, þar með talinn kauprétt og starfslokasamninga.

Jafnframt leggur frumvarpið til að á aðalfundi skuli gera grein fyrir kjörum stjórnenda og stjórnarmanna og áætluðum kostnaði vegna kaupréttarsamninga. Reglur frumvarpsins, verði það að lögum, munu gilda um lánastofnanir og vátryggingafélög sem almennt eru rekin sem hlutafélög. Þær munu ekki gilda um sparisjóði gagnkvæm vátryggingafélög, lífeyrissjóði, sem reyndar heyra hér undir löggjöf, né um lítil félög sem uppfylla ekki stærðarmörk ákvarðana. Í þessu samhengi er þó rétt að minna á að öll vátryggingafélög og lífeyrissjóðir lúta eftirliti fjármálaeftirlitsins burt séð frá félagaformi sem fylgist m.a. með áhættustýringu þessara aðila.

Hæstv. forseti. Að lokum vil ég segja þetta. Þegar ákvarðanir eru teknar um íþyngjandi reglur verður að liggja fyrir mat á hagsmunum. Eins og ég sagði hér að framan er eðlilegt að almennir fjárfestar fái þær upplýsingar sem geri þeim kleift að meta fjárfestingarkosti og að eigendur, þ.e. hluthafar óskráðra félaga séu upplýstir um hvers konar kvaðir sem viðkomandi félag hefur undirgengist og kunna að hafa áhrif á verðmæti hluta viðkomandi. Ekki verður hins vegar séð að aðrir aðilar hafi slíka hagsmuni af svo ítarlegri upplýsingagjöf að ástæða sé til að leggja þær upplýsingakvaðir á félög eða aðra lögaðila.