132. löggjafarþing — 51. fundur,  25. jan. 2006.

Laun og kjör stjórnarmanna og æðstu stjórnenda.

425. mál
[14:11]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef eru leiðbeinandi reglur um kjör stjórnenda mjög ítarlegar hjá Kauphöllinni. Það skal ítarlega gera grein fyrir þeim og starfslokasamningum og kaupréttarsamningum og það skal gera þetta á nafn og þetta skal upplýst í ársreikningum. Upplýsingar sem ég hef um reglur sem fjármálaeftirlitið setur er að þær gangi mun skemmra. Það þarf t.d. ekki að gera grein fyrir starfslokasamningum og það sem ég var að ganga eftir var hvort settar yrðu sambærilegar reglur hjá fjármálaeftirlitinu varðandi þá eftirlitsskyldu aðila sem fjármálaeftirlitið er með þannig að þetta verði upplýst í ársreikningi en ekki þyrfti að fara og fá slíka starfskjarastefnu samþykkta á hluthafafundi. Gengur frumvarp ráðherrans það langt að þetta verði upplýst með sama hætti og er hjá fyrirtækjum í Kauphöllinni, þannig að þetta verði upplýst á nafn þess stjórnanda og stjórnarmanns hjá viðkomandi fyrirtækjum sem í þessu tilviki eru sparisjóðirnir og tryggingafélögin? Það er mikilvægt að fá það fram. Ég sé það ekki í frumvarpi ráðherrans, þó að viðleitni sé í þá átt, að hluthafar þurfi að samþykkja starfskjarastefnu. En ég tel að fullkomið gegnsæi þurfi að vera í þessu alveg eins og er uppi á borðinu hjá Kauphöllinni og ég hef m.a. spurst fyrir um það sérstaklega að ráðherra geri grein fyrir upplýsingum hvers félags um sig, um launakjör einstakra stjórna og æðstu stjórnenda sem skráðir eru í Kauphöllinni.

Ég tel það algerlega óviðunandi ef ekki á að setja sambærilegar reglur um lífeyrissjóði. Það hefur margoft komið fram í þinginu að það þarf að setja miklu strangari reglur um stjórnarhætti starfsmanna í lífeyrissjóðum en gert hefur verið. Meðal annars þurfa að vera þar uppi á borði öll launakjör og allir starfslokasamningar sem varða stjórnarmenn og stjórnendur lífeyrissjóðanna. Mér heyrðist á ráðherra að það sé ekki í því sem hún leggur til eða ætlar að beita sér fyrir og það er fullkomlega óviðunandi, virðulegi forseti.