132. löggjafarþing — 51. fundur,  25. jan. 2006.

Laun og kjör stjórnarmanna og æðstu stjórnenda.

425. mál
[14:13]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst taka það fram hvað varðar lög um lífeyrissjóði að þau heyra ekki undir mig heldur undir fjármálaráðherra, þannig að það sé alveg skýrt. En ég vil ítreka það sem ég hef sagt hér og hv. þingmaður veit ákaflega vel að hér hefur verið dreift frumvarpi á Alþingi, að ég best veit og ég vona að það sé komið inn í þingið, sem tekur á þessu máli hvað varðar öll þau félög sem ber skylda til að kjósa sér endurskoðanda og það ber að samþykkja kjarastefnu á hluthafafundum (Gripið fram í.) og annað sem varðar starfslokasamninga. Þetta hlýtur að teljast myndarlegt skref og ég bið hv. þingmenn að átta sig á þessu.

Eins og ég sagði áðan þá finnst mér að öðruvísi beri að líta á minni félög en aðalatriðið er að eigendur séu upplýstir. Það er það sem skiptir mestu máli. Hvað varðar almenning er það þannig að a.m.k. hefur Frjáls verslun reglulega tekið saman launakjör þeirra hæst launuðu á Íslandi þannig að fólk hefur þá getað séð það, þeir sem virkilega hafa áhuga á þessum málum en mér finnst að það þurfi að velta fyrir sér hagsmununum. Hverjir eru þeir? Það er ekki þannig í frjálsu samfélagi að allt eigi að vera uppi á borðinu þó að vissulega sé upplýsingaskylda mikil, og af því að hv. þingmaður talar í þessu sambandi um Fjármálaeftirlitið þá er ég ekki fær um að svara því nákvæmlega á þessari stundu hvernig reglur Fjármálaeftirlitsins eru hvað þetta varðar. Ég er ekki með þær upplýsingar með mér hér. En ég treysti því að Fjármálaeftirlitið fari af skynsemi í þessi mál. En mér finnst að hv. þingmaður vilji oft ganga ákaflega langt á þessu sviði og ég er kannski ekki alveg sammála því að öllu leyti.