132. löggjafarþing — 51. fundur,  25. jan. 2006.

Vinnsla skógarafurða.

278. mál
[14:19]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Þuríði Backman fyrir að beina til mín tveimur spurningum er varða vinnslu skógarafurða. Það er ánægjulegt að þessi ört vaxandi búgrein og afurðir hennar skuli koma til umræðu á Alþingi.

Hér er um svo skyldar spurningar að ræða að ég kýs að svara þeim samtímis. Áður en þeim er svarað efnislega er nauðsynlegt að tiltaka helstu staðreyndir er varða stöðu skógræktar hér á landi. Eins og fram kemur hjá fyrirspyrjanda fer nytjaskógrækt ört vaxandi. Svo er ekki síst fyrir að þakka samstiga átaki stjórnvalda og Alþingis undanfarin ár. Nytjaskógrækt er stunduð um allt land undir merkjum landshlutabundnu skógræktarverkefnanna sem eru þó með nokkuð misjafnar áherslur. Að flestum þessara verkefna hefur verið unnið um 5–7 ára skeið að Héraðsskógum undanskildum, sem stofnaðir voru 1990. Fimm til fimmtán ár eru ekki langur tími í ræktun skóga og eðli málsins samkvæmt er því vart hægt að tala um neinar afurðir enn. Gamalt kínverskt máltæki segir: Ein kynslóð sáir til trésins, önnur situr í skugga þess. Þetta tekur það langan tíma.

Þó er það nú svo að lítils háttar grisjun hefur farið fram hjá Héraðsskógum og nýtanlegt efni fallið í skaut skógareigenda eins og samningar kveða á um. Íslenskar skógarafurðir koma einkum úr skógum Skógræktar ríkisins og hefur sá viður að mestu verið nýttur í girðingarstaura, eldivið, smíðavið og kurl. Ár frá ári hafa afurðir aukist frá skógum Skógræktarinnar og tala má um vísi að timburframleiðslu. Hefur Skógræktin selt þessar afurðir til einstakra aðila sem kjósa að nýta innlendan við til bygginga og smíða.

Nýverið hefur sú ánægjulega þróun átt sér stað að við byggingu og endurnýjun fiskihjalla eru notaðir íslenskir grenibjálkar og er þá skógræktin farin að styðja við bakið á fiskiðnaðinum. Framleiðsla og sala þessa efnis eykst hægt og bítandi en skógarnir, sem undir framleiðslunni standa, eru takmarkaðir þar sem stærð þeirra réðist af fjárveitingum til skógræktar fyrir 30–60 árum. Ég sem landbúnaðarráðherra og það starfsfólk í ráðuneytinu og stofnunum þess sem að skógræktinni vinnur eigum okkur svo sannarlega þá sannfæringu að þeir nytjaskógar sem verið er að leggja grunn að í dag eigi eftir að vaxa og gefa af sér afurðir. Miklu hefur verið til kostað og veðjað á framtíðina í þeim efnum. Landbúnaðarráðuneytið er einnig mjög vel meðvitað um að þegar að því kemur þarf að nýta þessar afurðir og koma í verð. Af hálfu ráðuneytisins hefur enn ekki verið óskað eftir sérstakri fjárveitingu frá Alþingi til þróunarstarfs á þessu sviði. Lögð hefur verið áhersla á að nýta það fjármagn sem fengist hefur til ræktunarstarfsins. Þar með er ekki hægt að segja að ekkert hafi verið gert.

Frá árinu 2000 hefur svokölluð viðarnýtingarnefnd verið starfandi, fyrst á vegum Skógræktar ríkisins og síðan þróaðist nefndarstarfið í samstarfi við Iðntæknistofnun, Byko — landshlutabundnu skógræktarverkefnin — og Landssamtök skógareigenda. Á árinu 2000 veitti ég nefndinni 300 þús. kr. af ráðstöfunarfé og síðan fékk hún 500 þús. af lið ríkisstjórnar. Í stefnumótandi byggðaáæltun fyrir árin 2006–2009, sem iðnaðarráðherra hefur lagt fram, er kafli um að efla beri rannsóknir, tækniþróun og nýsköpun sem byggja á sérkennum lands og þjóðar og líklegt er til árangurs um verðmætasköpun á landsbyggðinni. Þar koma skógarnir vissulega við sögu. Á vegum Skógræktar ríkisins er unnið að þróun og úrvinnslu skógarafurða. Á árinu 2004 varði stofnunin 17,4 millj. kr. til viðarvinnslu og viðarrannsókna en fékk á móti 2,3 millj. kr. í styrkjum og 10 millj. kr. í sértekjum af sölu viðar. Segja má að af ríkisframlagi til stofnunarinnar hafi um 5 millj. kr. farið til þróunar og viðarnýtingar. Meðal verkefna er athugun á íslensku lerki sem utanhússklæðningar sem fékk 800 þús. kr. styrk úr Norðurlandasamstarfi um skógræktarverkefni. Á þessu ári hófst þriggja ára verkefni með þátttöku fjögurra landa um viðarkyndingu. Það verkefni hljóðar samtals upp á 180 millj. kr. og er styrkt af NPP, áætlun Evrópusambandsins. Þáttur Íslands er í samstarfi Héraðsskóga og Skógræktar ríkisins og er áætlað að hann kosti 11 millj. kr. og er verið að skoða þar möguleika. Það er því margt að gerast og mér finnst margt bjart í framtíðinni hvað úrvinnsluna varðar. Það er mikill áhugi hjá íslenskum fyrirtækjum og einstaklingum að koma að þessum verkefnum. Ég held að þarna liggi mörg tækifæri í atvinnulífi landsbyggðarinnar og landsins.

(Forseti (JóhS): Forseti hvetur hæstv. landbúnaðarráðherra til að virða ræðutíma.)