132. löggjafarþing — 51. fundur,  25. jan. 2006.

Vinnsla skógarafurða.

278. mál
[14:25]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Þuríði Backman fyrir að vekja athygli á þessum mikilvægu málum. Nytjaskógar eru mjög brýnt verkefni úti á landi eins og fyrirspyrjandi fór yfir og hæstv. landbúnaðarráðherra reyndar einnig. Það er út af fyrir sig ágætt að vitna í kínverskt máltæki um að það taki heilan mannsaldur að rækta skóg. En við ætlum ekki að sitja í skugga þessara trjáa, við ætlum að nýta þau og ekki er ráð nema í tíma sé tekið. Við eigum þarna mikilvæga hluti, nýsköpun verður á þessu sviði og þróunarstarf þarf að vera fyrir hendi. Ég fagna því sem er að gerast en ég held að það þurfi að huga hraðar að þessum málum svo að hægt sé að nýta ávextina. Nú þegar er farið að grisja skóga og fella tré.