132. löggjafarþing — 51. fundur,  25. jan. 2006.

Vinnsla skógarafurða.

278. mál
[14:28]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Það er gleðilegt að það eru kannski þúsund skógræktarbændur sem hafa skóginn sem bæði aukabúgrein og yndi í landinu. Landbúnaðarráðherra hefur auðvitað gert málið að sínu því að hann er skógræktarmálaráðherra Íslands og hefur sjálfur margsagt að hann sé ráðherra skógarins — það er ekki spurning.

Enn fremur er verið að skoða það að nota afganga úr grisjuninni til að kynda hús á köldum svæðum. Ég hef sjálfur farið og heimsótt frændur okkar Íra með góðu fylgdarliði til að fara yfir stöðu þeirra. Fyrir 100 árum voru þeir í okkar sporum þegar þeir ákváðu að gera skóginn að auðlind í landi sínu. Það hefur heppnast vel og margt má af þeim læra. Þar sá maður fyrir sér þá þróun sem hér mun ef til vill eiga sér stað.

Við sjáum það líka að í vaxandi mæli vilja Íslendingar hafa íslensk jólatré um jólin. Það er einn þáttur í nytjun og grisjun skóganna þannig að á það ber að leggja áherslu. En það skemmtilegasta af öllu því sem hefur verið að gerast á síðustu árum er að skógurinn skiptir miklu máli í landinu og sveitunum — hann kallar fólk til starfa þar og jarðirnar eru áhugaverðari sem eign fyrir bragðið. Bændurnir kunna það best allra að planta skóginum og hugsa um hann og hafa gert það, eins og ég sagði áðan, að mikilli atvinnugrein. Alþingi Íslendinga hefur í rauninni falið þeim það hlutverk að planta þessum skógi og þessari auðlind á Íslandi sem verður vonandi komandi kynslóðum afl til að búa betur í landi okkar. Ég held að allt sé þetta á framfaraleið, hv. þingmaður, og þakka hér ágætar umræður og vil ekki frekar níðast á hæstv. forseta.

(Forseti (JóhS): Forseti þakkar fyrir það.)