132. löggjafarþing — 51. fundur,  25. jan. 2006.

Eignarskattur og eldri borgarar.

453. mál
[14:31]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Sú fyrirspurn sem ég ber fram til hæstv. fjármálaráðherra er ekki löng eða flókin. Hún er einfaldlega þessi:

Hversu margir eldri borgarar greiddu eignarskatt árin 2004 og 2005 og hversu háar fjárhæðir?

Þegar ég tala um eldri borgara þá á ég við 67 ára og eldri. Eins og við þekkjum hafa þeir sem greitt hafa þennan óréttláta skatt í gegnum tíðina fyrst og fremst verið fólk sem er komið yfir miðjan aldur. Þegar maður skoðar tölur þess efnis hverjir greiða þetta þá er þetta fólk sem er, við getum kallað það 60 plús. Hví skyldi það vera að menn á þeim aldri séu að greiða þennan skatt? Það er fyrst og fremst, að ég tel, vegna þess að það fólk á sitt eigið húsnæði, á sitt eigið húsnæði skuldlítið og jafnvel skuldlaust og hefur þess vegna lent í því að greiða þessa skatta. Eins og við þekkjum og vitum þrátt fyrir alla þessa skattaumræðu, það hefur reyndar ekki verið mjög áberandi, þá hefur sem betur fer núverandi ríkisstjórn gengið í það þarfa verk að leggja þennan skatt af, leggja þennan elsta skatt landsmanna af. Ég held að mikilvægt sé að menn átti sig á því hvað það þýðir og þá sérstaklega fyrir þann hóp sem ég nefndi áðan.

Ég vek athygli á að þegar hæstv. fjármálaráðherra svarar þessari spurningu er bara spurt um álagningarprósentuna, 0,6%, eins og hún var á þeim árum. En áður en menn fóru í að lækka skattinn, sem menn hafa gert jafnt og örugglega, var skattprósentan 1,2% eða tvöfalt hærri en hún var áður en skatturinn var aflagður. Ég held að það skipti máli að við ræðum skattaálögur og við eigum að vera vakandi í því. Ég vonast til að ég geti tekið fjörlegar umræður hér á þingi og annars staðar í þjóðfélaginu í nánustu framtíð um skattamál, það er mjög mikilvægt, og þá kannski sérstaklega um skattamál þessa hóps. Því er þessi fyrirspurn, virðulegi forseti, fram lögð.