132. löggjafarþing — 51. fundur,  25. jan. 2006.

Eignarskattur og eldri borgarar.

453. mál
[14:34]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Ég þakka fyrir fyrirspurnina. Hv. þingmaður biður um upplýsingar um hversu margir eldri borgarar hafi greitt eignarskatt árin 2004 og 2005 og hversu mikið hafi verið greitt. Miðað er við gagnaskrár ráðuneytisins sem byggja á álagningarskrám ríkisskattstjóra. Þar teljast eldri borgarar vera þeir sem eru 67 ára og eldri og sambýlingar þeirra þó svo þeir kunni að vera yngri.

Niðurstaðan er eftirfarandi: Á árinu 2004 vegna tekjuársins 2003 voru 14.212 einstaklingar í þessum hópi sem greiddu samtals 508,4 millj. kr. Á árinu 2005 vegna tekjuársins 2004 voru það 15.370 einstaklingar sem greiddu samtals 652,1 millj. kr. Þetta er auðvitað talsverður fjöldi fólks og talsvert háar upphæðir sem hér um ræðir og ætti þar með að undirstrika mikilvægi umræddra breytinga og hversu mikil áhrif þær hafa haft á fjárhag þessara einstaklinga sem sjálfsagt í flestum tilfellum eru komnir út af hefðbundnum vinnumarkaði eða á leið út af honum og hafa þar af leiðandi ekki atvinnutekjur eins og flestir aðrir í þjóðfélaginu en byggja afkomu sína á sínum eigin sparnaði, lífeyrissparnaði í gegnum lífeyrissjóðakerfið eða í gegnum greiðslur frá Tryggingastofnun. Þetta eru stórar upphæðir fyrir fjölda fólks sem hefur haft mikil áhrif á að fellt var niður.