132. löggjafarþing — 51. fundur,  25. jan. 2006.

Eignarskattur og eldri borgarar.

453. mál
[14:38]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir greinargóð svör og afskaplega mikilvægar upplýsingar. Hæstv. ráðherra hefur eins og fleiri barist fyrir skattalækkunum í langan tíma og við höfum sem betur fer náð árangri. Einhver hefði glaðst yfir því að sjá þessar tölur. 650 milljónir sparast fyrir þennan hóp, 652 milljónir. Ef menn hefðu haldið sig við skattprósentuna sem var væri þetta 1,2 milljarðar. Fyrir hvern einstakling, ef við miðum við gömlu skattprósentuna áður en menn byrjuðu að lækka þetta, þá eru það 84.854 kr. á hvern einstakling, 84.854 kr. í skattalækkun. (JGunn: Á ári?) Á ári, hæstv. ráðherra, nei hv. þingmaður. Ég skil ekki hvernig í ósköpunum, virðulegi forseti, ég gerði hv. þm. Jón Gunnarsson að ráðherra en það vonandi fyrirgefst einhvern tíma.

En hvað sem því líður eru viðbrögð samfylkingarmanna athyglisverð sem koma hér upp og sótbölvast út í þessar skattalækkanir. Ég vek athygli á því, virðulegi forseti, og ég mun gera það áfram að þessir aðilar börðust gegn skattalækkunum á þennan hóp fólks. Og þessir aðilar sem gengu um allt fyrir síðustu kosningar og lofuðu að lækka svokallaða jaðarskatta hafa greitt atkvæði gegn öllum þeim skattalækkunum. Við sjálfstæðismenn og samstarfsflokkur okkar í ríkisstjórn munum áfram fylgja eftir skattalækkunum og stoltir getum við bent á að hér höfum við náð þessum mikla árangri. Ég hélt satt að segja að úr því að samfylkingarmenn kæmu hér upp kæmu þeir til þess að gleðjast yfir því að við værum búnir að taka þennan óréttláta skatt af fólki sem oft hefur, eins og hæstv. fjármálaráðherra benti á, lægri tekjur en vill búa áfram í sínu húsnæði og þess vegna einstaklega óréttlátt að viðhafa þennan skatt.