132. löggjafarþing — 52. fundur,  25. jan. 2006.

Lögreglulög.

46. mál
[14:44]
Hlusta

Flm. (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi — ekki í fyrsta sinn en vonandi í það síðasta — um breytingu á lögreglulögum, nr. 90/1996. Hér er um mikið réttlætismál að ræða fyrir landsbyggðina og ég hef fulla trú á að stjórnarmeirihlutinn sjái að sér í þetta sinn og hleypi frumvarpinu í gegn. Þetta er mikið réttlætismál fyrir landsbyggðina því að landsbyggðinni er mismunað hvað varðar kostnað af löggæslu.

Í 33. gr. lögreglulaga, nr. 90/1996, er kveðið á um að allur kostnaður af starfsemi lögreglunnar greiðist úr ríkissjóði. Í 1. mgr. 34. gr. laganna er hins vegar að finna heimildarákvæði um að lögreglustjórar geti bundið skemmtanaleyfi því skilyrði að lögreglumenn verði á skemmtistað og jafnframt að leyfishafi greiði kostnað af þeirri löggæslu samkvæmt reglum sem dómsmálaráðherra setji. Aðalreglan er því sú að allur kostnaður við löggæslu á skemmtistöðum og öðrum stöðum greiðist úr ríkissjóði. Þannig á það að vera en þegar skemmtanir eru haldnar á landsbyggðinni þá er vaninn að rukka menn um skatt. Það er mjög ósanngjarnt. Sambærilegar skemmtanir á höfuðborgarsvæðinu eru ekki skattlagðar á sama hátt.

Hinn 8. ágúst 2001 skipaði dómsmálaráðherra starfshóp til að fara yfir gildandi lög og reglur um skemmtanahald á útihátíðum. Starfshópurinn skilaði ráðherra skýrslu um störf sín 11. júlí 2002. Niðurstaða starfshópsins var sú að innheimta á viðkomandi gjöldum byggðist á ótraustum lagagrunni. Þess vegna er frumvarpið lagt fram. Það gerir ráð fyrir að menn hætti slíkri innheimtu. Starfshópurinn sem hæstv. dómsmálaráðherra skipaði komst að því að hún byggðist á ótraustum grunni. Þess vegna eiga menn að hætta slíkri innheimtu sem er ósanngjörn í öllum meginatriðum.

Ég vil útskýra hvers vegna slík gjöld eru ósanngjörn. Þau eru bæði ósanngjörn gagnvart þeim sem ætla að halda skemmtanir og einnig gagnvart sýslumönnum og lögreglumönnum á landsbyggðinni, sem eru settir í þá aðstöðu, frú forseti, að þurfa að innheimta þessi gjöld, þennan löggæsluskatt sem byggist ekki á neinu jafnræði. Hann er ekki innheimtur í Reykjavík en þegar er komið út fyrir borgarmörkin þá fara menn að rukka.

Sumarið 2004 var mikil rekistefna út af innheimtu löggæslukostnaðar vegna landsmóta ungmennafélaganna á Sauðárkróki. Þeirri deilu lauk með því að sýslumaðurinn á Sauðárkróki ákvað að innheimta ekki umrætt gjald. En það kom síðar niður á embættinu. Í bréfi sem ég fékk frá þremur lögreglumönnum á Sauðárkróki rekja þeir að sá aukni kostnaður hafi bitnað á embættinu. Vandræðin sem sýslumaðurinn á Sauðárkróki átti í við að reyna að fá þennan skatt innheimtan gerðu embættið mjög óvinsælt og síðan, þegar hann fékk skattinn ekki innheimtan, skerti það fjárhæð embættisins. Það er ólíðandi

Í umræddu bréfi frá lögreglumönnunum á Sauðárkróki segir, með leyfi forseta:

„Rétt er að það komi fram að á liðnu ári var haldið hér landsmót Ungmennafélags Íslands með miklum glæsibrag af hálfu allra þeirra sem að því komu, lögreglunnar þar með talinnar. Það kallaði á aukna löggæslu, sem mörg orð voru höfð um en aukin fjárveiting fékkst ekki fyrir. Hins vegar var þráttað um hver ætti að bera kostnaðinn. Næsta sumar“ — það er sumarið 2006 — „verður hér í umdæminu landsmót hestamanna. Ekki hefur heyrst að fjárveiting til lögreglunnar hafi verið eða verði aukin vegna þeirra umsvifa sem óhjákvæmilega fylgja því.“

Það er hætt við því að þegar haldið verður hestamannamót í Skagafirði næsta sumar muni það bitna á löggæslu borgaranna. Lögreglumennirnir segja í bréfi til okkar þingmanna kjördæmisins að þetta hafi komið niður á fjárhag embættisins. Þetta er ekki hægt að líða enda efast ég um, ef umrætt hestamannamót væri haldið í Reykjavík, að innheimtur yrði sérstakur löggæslukostnaður vegna þess. Það á eftir að reyna á þetta.

Að vísu, frú forseti, hefur orðið sú breyting á að hæstv. dómsmálaráðherra, sem ekki hefur efni á að veita aukið fé til löggæslu við íþróttamót á landsbyggðinni, á nóg af peningum í aðra hluti. Hann nær á hverju ári að efla víkingasveitina. Nú er svo komið að hann sendir jafnvel víkingasveitina á böll í Skagafirði. Dæmi eru um að hann hafi sent víkingasveitina á böll í Skagafirði. Hann telur hagkvæmara að fara með sérsveitarmenn þangað frá Akureyri eða jafnvel úr Reykjavík. Ekki veit ég hvort þeir notuðu þyrlu en þeir sinntu hins vegar löggæslunni algjörlega óaðfinnanlega. Við það var ekkert að athuga. En það er sérkennilegt hvernig menn hugsa þetta fjárhagslega, að hagkvæmara sé að fara með víkingasveitina frá öðrum landshlutum í Skagafjörð á böll í stað þess að nota þá ágætu lögreglumenn sem starfa á Sauðárkróki. Það botnar enginn í þessu.

Enginn botnar heldur neitt í því að rukkaður sé sérstakur löggæslukostnaður þegar íþróttamót eru haldin úti á landi en ekki séu þau haldin í Reykjavík.

Ég sé að einn þingmaður og ráðherra Austfirðinga er mættur í salinn. Ég er viss um að hann vill leggja orð í belg út af þessu máli. Þetta hefur líka komið mjög niður á Austfirðingum. Þar hafa verið haldnar skemmtanir, m.a. á Seyðisfirði, og þar varð einnig mikil rekistefna út af kostnaði, löggæslukostnaði sem þar var lagður á skemmtanahald. Sá kostnaður hefði aldrei komið til ef skemmtunin hefði verið haldin á höfuðborgarsvæðinu. En þegar skemmtunin fer fram úti á landi þá kemur ríkisstjórnin og leggur sérstakan kostnað á skemmtanahaldið. (Heilbrrh.: Þetta er óþolandi.) Já, þetta er alveg óþolandi. Ég heyri að hæstv. ráðherra er mér sammála. Þetta er óþolandi og ég hef ekki trú á að menn láti þetta frumvarp daga uppi í nefnd enn og aftur heldur láti það fara í gegn.

Það virðist hins vegar þráhyggja hjá hæstv. dómsmálaráðherra að sækja þennan löggæslukostnað. Í það minnsta heyrði ég á bæjarstjóranum á Seyðisfirði, Tryggva Harðarsyni, að hæstv. dómsmálaráðherra hefði ekki svarað erindi þar sem hann kvartaði undan þessum óréttmæta skatti. Hann sagði að erindið hefði legið inni í dómsmálaráðuneytinu í marga mánuði, mig minnir að þeir hafi verið orðnir fjórir. Mér finnst það mjög sérstakt. Ég veit ekki hvort hæstv. ráðherra hafi viljað bíða fram yfir þessa umræðu, frú forseti. Gæti það verið, að hann vildi ekki svara því þannig að afstaða hans í málinu lægi fyrir við umræðuna um þennan óréttmæta skatt?

En af því að í salnum er þingmaður og hæstv. ráðherra að austan er rétt að minna á að þessi skatturinn hefur verið lagður á smærri byggðir fyrir austan. Í Borgarfirði eystra hefur verið settur á löggæslukostnaður þegar þeir halda Álfaborgarhátíð … (Heilbrrh.: Álfaborgarséns.) Það er í sjálfu sér ágætishátíð. Ég er ekki viss um að það hafi endilega þurft að fá lögreglumann á svæðið. Ég held að hún hafi farið mjög friðsamlega fram. En það er svo skrýtið að ég hef eftir áreiðanlegum heimildum að það er sjaldgæft að lögreglumaður komi í fjörðinn. Þeir hefðu mögulega þurft á honum að halda þegar þeir héldu héraðshátíð sína en þá senda menn helst reikninginn á undan. Þetta er ótrúlegt.

Mér finnst þetta litla mál lýsa afstöðu ríkisstjórnarinnar til landsbyggðarinnar. Það er ekki einu sinni hægt að halda mannamót, þá mæta menn með reikninginn og senda hann helst á undan. Af Skagaströnd, þar sem ég þekki til, er dæmi um að menn ætluðu að halda kántrý-hátíð, sem var lítið annað en falleg messa, en þar var innheimtur löggæslukostnaður.

Ég hef ekki trú á því að menn vilji halda þessu áfram. Hins vegar væri fróðlegt að fá að heyra afstöðu stjórnarþingmanna í salnum til þessa frumvarps. Við vitum að Vestmannaeyingar hafa kvartað undan háum löggæslukostnaði vegna þjóðhátíðar sinnar og dæmin eru fleiri. Fólki finnst þetta einfaldlega ósanngjarnt. Ég hef ekki trú á öðru en að menn sjái að sér, hætti þessari innheimtu, frú forseti, og þetta frumvarp verði samþykkt.

Að lokinni þessari umræðu óska ég þess að málinu verði vísað til allsherjarnefndar, frú forseti.