132. löggjafarþing — 52. fundur,  25. jan. 2006.

Lögreglulög.

46. mál
[15:06]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Hér er verið að ræða um frumvarp til laga um breytingu á lögreglulögum sem lýtur að löggæslukostnaði við almenningssamgöngur, íþróttamót og þess háttar.

Ég vil spyrja forseta: Er hæstv. dómsmálaráðherra í húsinu? Það væri æskilegt að hann kæmi hér og svaraði spurningum um grundvallaratriði í þessu máli. Ef hann er í húsinu væri mjög æskilegt ef hann gæti komið og svarað þannig að við þingmenn (Forseti hringir.) og aðrir gætum fengið að vita hvernig á þessu máli er tekið hjá embættinu.

(Forseti (ÞBack): Forseti vill upplýsa að hæstv. dómsmálaráðherra er ekki í húsinu en mun láta hann vita að óskað sé eftir nærveru hans.)

Þakka þér fyrir frú forseti. Þetta mál sem lýtur að lögreglulögum, löggæslukostnaði og löggæslu á almenningssamkomum, íþróttamótum og bæjar- eða félagshátíðum hefur verið mjög umdeilt í samfélaginu eins og hér hefur verið rakið af hv. þingmönnum sem töluðu á undan mér, hv. flutningsmanni Sigurjóni Þórðarsyni og hv. þm. Valdimar L. Friðrikssyni sem hafa gert þessu ítarleg skil.

Málið hefur verið mjög umdeilt, þ.e. að setja löggæsluskyldu og innheimta háan löggæslukostnað af almenningssamkomum, íþróttamótum, félagsmótum og bæjarhátíðum sem eru haldnar fyrst og fremst fyrir þá þátttakendur sem þar eru á svæðinu og haldnar á ábyrgð þeirra. Inn á þessar samkomur er yfirleitt ekki selt. Þarna kemur fólk saman. Maður er manns gaman. Fólk kemur þarna saman til að njóta samvista hvert við annað eða taka þátt í leikjum og öðrum slíkum athöfnum sameiginlega. En svo virðist sem löggjafinn og dómsmálaráðherra og ráðuneytið hafi sjálfdæmi við að meta hvernig megi skattleggja þessi mót, sérstaklega ef þau eru úti á landi og því fjarri frá höfuðborgarsvæðinu því meiri skal skattlagningin í raun vera hlutfallslega.

Hérna hefur verið minnst á íþróttamótin, íþróttamót og landsmót barna og unglinga, landsmót íþróttamanna, bæjarhátíðir þar sem þeir sem standa að slíkum samkomum hafa sjálfviljugir stillt upp sínum slysavarnasveitum, björgunarsveitum eða öðrum sjálfboðaliðum til að veita þessum mótum öryggi. Að sjálfsögðu er eðlilegt að ræða við næsta sýslumann um tilhögun þessa, það borið undir hann og honum tilkynnt um hvernig ætlunin er að standa að málum. Hann getur þá komið að ábendingum sínum um það. Að sjálfsögðu á hin almenna löggæsluábyrgð, lögregluþjónusta og þjónusta löggæslunnar í sjálfu sér alltaf að vera til staðar. Því er alveg sjálfsagt að um þetta sé haft fullt samráð. En þegar kemur að ofan, frá miðstýrðu valdi dómsmálaráðuneytisins, krafa um þessa og þessa tilhögun án þess að rætt sé við eða hlustað á heimamenn eða skipuleggjendur, án þess að tekið sé tillit til sjónarmiða þeirra á nokkurn hátt þá er þetta bara orðið miðstýrt ofurveldi sem reyndar dómsmálaráðuneytið og lögreglumál eru að færast í. Ég vil gjarnan spyrja hæstv. dómsmálaráðherra: Er þetta það sem koma skal? Þ.e. að til verði miðstýrt lögregluveldi hjá ríkislögreglustjóra og dómsmálaráðherra þannig að varðandi samkomur, hvort sem það eru félagasamkomur, giftingarveislur, bæjarhátíðir eða íþróttamót, þá sé ríkislögreglustjóra eða dómsmálaráðuneytinu í sjálfsvald sett hvernig innheimt er það sem þeir kalla löggæslukostnað.

Áður hefur komið til umræðu tilkoma sérsveitanna, sérsveita lögreglunnar sem eru sérstakt gæluverkefni hæstv. dómsmálaráðherra. Mér virðist að ef hann fengi að ráða mundu allir Íslendingar verða settir í sérsveitina og hann gæti síðan fengið að ráða og stjórna, deila og drottna með sérsveitinni því hún er svo mikið gæluverkefni. Við sem höfum setið á þingi í nokkur ár vitum hvernig hún hefur verið byggð upp af hæstv. dómsmálaráðherra sem alveg hreint sérstakt gæluverkefni. Ég minnist þess þegar við vorum í tindátaleikjunum, munið þið. Það var mjög vinsælt á árunum áður að vera í svokölluðum tindátaleikjum. Þá áttum við safn af tindátum. Svo stilltum við þeim upp og bjuggum til liðssveitir hér og þar og vorum með miklar hernaðarlegar spekúleringar. Þannig virðist þessi sérsveit dómsmálaráðherra virka. Það á að finna henni sem allra flest verkefni, troða henni inn á samfélagslegar hátíðir eða félagslegar hátíðir og samkomur, troða þar sérsveitinni inn til að láta menn vita hvar lögregluvaldið er.

Nei, frú forseti, við viljum miklu frekar að ákveðnar samkomur, ákveðnir atburðir, íþróttahátíðir, bæjarhátíðir, ýmiss konar félagslegar samkomur séu undanþegnar því að hægt sé að senda þangað sérsveitirnar eða aðrar slíkar, að við fáum að halda slíkar hátíðir í skjóli þeirra sem skipuleggja þær og í góðu samráði við héraðslögregluyfirvöld, sýslumenn eða lögreglustjóra. Út á það gengur þetta frumvarp. Það gengur út það að þegar slíkar samkomur eru haldnar þá geti heimamenn metið hver þörfin sé og farið yfir sjálfboðaliðsstörfin og þau störf sem mótshaldarar eða hátíðahaldarar geta lagt fram þannig að tilhlýðilegt öryggi verði til staðar en þessum þáttum ekki ofgert með kostnaði.

Hérna hafa verið nefnd dæmi, unglingamót Ungmennafélags Íslands á Ísafirði og á Sauðárkróki og fleiri dæmi hafa verið nefnd þar sem heimamenn, sýslumenn, mótshaldarar og lögreglan á staðnum mátu hver þeir teldu að væri þörfin miðað við framlag og skipulag af hálfu mótshaldara, þ.e. hver væri þörfin fyrir — hvað eigum við að kalla hana? — opinbera löggæslu. Þeir voru búnir að leggja mat á þetta og sögðu: „Þetta er fínt svona.“ En þá kemur miðstýrð tilskipun frá dómsmálaráðuneytinu um að þessi og þessi tilhögun skuli vera með tilheyrandi skattheimtu og innheimtukostnaði.

Frú forseti. Ég sé að hæstv. dómsmálaráðherra er ekki kominn í salinn. Það kom hér fram hjá hv. þm. Valdimari L. Friðrikssyni að hæstv. dómsmálaráðherra hefur ekki svarað með tilhlýðilegum hætti spurningum (Forseti hringir.) sem til hans hefur verið beint.

(Forseti (ÞBack): Forseti getur upplýst nú að því miður er hæstv. dómsmálaráðherra vant við látinn og kemst ekki núna á þessum tíma.)

Ég þakka frú forseta að hafa komið þessum skilaboðum áleiðis til dómsmálaráðherra. Þau ættu að vekja hann til umhugsunar um að þetta mál skiptir almenning í landinu miklu máli og er ekkert einkamál dómsmálaráðherra hvernig með er farið.

Ég vil eindregið taka undir þetta frumvarp sem hv. þm. Sigurjón Þórðarson flytur um breytingu á lögreglulögum sem ítarlega er gerð grein fyrir í greinargerð með frumvarpinu. Þetta er sérstaklega réttlætismál fyrir landsbyggðina en einnig fyrir þjóðina alla. Þetta er mikið réttlætismál. Þetta mál undirstrikar líka að við viljum ekki verða eitt allsherjarlögregluríki. Við viljum það ekki. Við viljum að félagsskapur geti tekið með eðlilegum hætti ábyrgð á sjálfum sér og fái til þess svigrúm með sjálfboðaliðsstörfum eða með öðrum hætti að sinna nauðsynlegri öryggisvörslu í samráði við sinn sýslumann. Við viljum ekki verða lögregluríki eins og allt stefnir nú að. Við viljum að í samfélaginu umgangist fólk hvert annað á kristilegan hátt, ef svo má að orði komast, að systra- og bræðrakærleikur ráði ríkjum í mannlegum samskiptum og að slík starfsemi og slíkar samkomur þurfi ekki að standa stöðugt undir einhverjum lögreglukylfum.

Frú forseti. Ég styð eindregið þetta mál.